fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Sport

„Við sjáum hverjir eru tilbúnir“

Tveir leikir áður en hópurinn er valinn – EM má ekki vera endastöð – Gengi íslenskrar knattspyrnu hækkar

Ritstjórn DV
Föstudaginn 5. febrúar 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það á enginn fast sæti í landsliði og því fleiri sem koma til greina, því betra fyrir Ísland, í dag eru margir leikmenn að keppa um að komast til Frakklands. Þannig viljum við líka hafa það,“ segir Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu. Ísland spilaði þrjá æfingaleiki í janúar þar sem þjálfararnir, Heimir og Lars Lagerbäck, tefldu fram leikmönnum sem flestir spila á Íslandi og í Skandinavíu. Leikirnir voru liður í undirbúningi liðsins fyrir EM í Frakklandi í sumar.

Samtals sex til átta leikmenn, sem með reglubundnum hætti tóku þátt í landsleikjum Íslands í undankeppninni fyrir EM, tóku þátt í leikjunum þremur. Allir fastamenn í vörn Íslands tóku þátt í öðrum eða báðum leikjunum, sem og Eiður Smári Guðjohnsen, svo dæmi séu tekin. „Við fengum þrjá góða leiki – þrjá góða mótherja. Það er gaman að geta fengið sterka mótherja og alvöru leiki,“ segir Heimir við DV spurður hvað þjálfararnir fengu út úr leikjunum.

Rúnar Már Sigurjónsson spilaði stöðu Arons Einars Gunnarssonar í æfingaleikjunum þremur í janúar en Aron er geysilega mikilvægur hlekkur í liðinu. Óljóst er hvern þjálfararnir hugsa sem varamann fyrir Aron, ef eitthvað kemur upp á.
Fyrirliði og lykilmaður Rúnar Már Sigurjónsson spilaði stöðu Arons Einars Gunnarssonar í æfingaleikjunum þremur í janúar en Aron er geysilega mikilvægur hlekkur í liðinu. Óljóst er hvern þjálfararnir hugsa sem varamann fyrir Aron, ef eitthvað kemur upp á.

Menn bæti sig hratt

Þjálfararnir fóru með einn hóp leikmanna í leiki við Finna og Sameinuðu arabísku furstadæmin, en annan hóp í leikinn gegn Bandaríkjunum síðastliðinn sunnudag. Leikurinn við Finna vannst en hinir ­tveir töpuðust með minnsta mun. „Við fengum tækifæri til að skoða um 30 leikmenn – þar af eru margir strákar sem hafa verið á jaðrinum eða ekki mikið í hópnum undanfarið. Sumir fengu sinn fyrsta landsleik en aðrir leik númer tvö eða þrjú.“

Heimir segist vonast til þess að þessi reynsla af landsliðinu verði þeim leikmönnum innspýting „að þeir taki stökk og finni að það er ekki langt í landsliðssæti. Og í kjölfarið að menn bæti sig hratt. Þessir janúarleikir eru mjög góðir fyrir framtíðina og í raun eini möguleikinn fyrir okkur að skoða leikmenn. Lands­leikjadögum hefur fækkað og allur tími til undirbúnings landsliða hefur því minnkað.

„Of stórt skref fyrir suma“

Spurður hvort hann hafi upplifað það sem svo að þeir leikmenn sem hafi fengið tækifæri hafi lagt allt í sölurnar segir Heimir að það sé auðvitað misjafnt. Sumum hafi tekist að sýna góða frammistöðu á meðan aðrir hafi ekki leikið eins vel. Það sé eðlilegt. „Þetta var kannski of stórt skref fyrir suma en aðra ekki. Menn ráða misvel við þetta.“ Hann nefnir sérstaklega leikinn við Bandaríkin þar sem mótherjinn var hvað sterkastur og tempóið hátt. „Við fáum svör sem eru kannski ekki öll jákvæð en öll svör hjálpa. Við sjáum hverjir eru tilbúnir og hverjir þurfa meiri tíma.“

„Allir eru að blása í væntingablöðruna. Ef þrýstingurinn verður of mikill þarf ekki nema pínulítið gat til að hún springi.“

Heimir er þögull sem gröfin þegar hann er beðinn um að nefna fáeina leikmenn sem honum fannst nýta tækifærið vel. Það vill hann ekki. Það væri ósanngjarnt gagnvart hinum sem ekki yrðu nefndir. Hann gefur sig heldur ekki þegar markaskorarar úr leiknum við Bandaríkin, Kristinn Steindórsson og Aron Sigurðarson, eru nefndir á nafn, en Fjölnismaðurinn Aron var af íslenskum fjölmiðlum valinn maður leiksins – og það í sínum fyrsta landsleik.

Framherjar á faraldsfæti

Allir fimm framherjar íslenska landsliðsins frá því úr undankeppni EM eru eða hafa nýlega fært sig um set. Hér til hliðar má lesa nánar um þær breytingar. Spurður hvort hann sé uggandi yfir því segir Heimir að ástandið á framherjunum verði einfaldlega að koma í ljós. Hann bendir á að margir leikmenn hafi leikið afar vel með landsliðinu þótt þeir hafi ef til vill verið í kuldanum hjá sínu félagsliði. Mestu máli skipti, í aðdraganda EM, að leikmenn landsliðsins spili reglulega og að þeir spili á háu getustigi. Alfreð Finnbogason er til að mynda kominn í þýsku Bundesliguna. „Ef hann verður í byrjunarliði þar þá er það góður staður til að vera á,“ segir landsliðsþjálfarinn en bætir við að auðvitað vonist hann til að framherjarnir skori reglulega þar sem þeir spili.

Hannes meiddist illa í fyrra og er í kapphlaupi við tímann. Landsliðsþjálfararnir virðast vera með fjóra markmenn í sigtinu, ef Hannes verður ekki klár í slaginn.
Meiddur Hannes meiddist illa í fyrra og er í kapphlaupi við tímann. Landsliðsþjálfararnir virðast vera með fjóra markmenn í sigtinu, ef Hannes verður ekki klár í slaginn.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Í undankeppni EM voru yfirleitt fimm leikmenn, sem að upplagi eru framherjar, á leikskýrslu. Spurður hvort þeir Lars ætli með fimm framherja á EM svarar hann því til að því hafi í sjálfu sér ekki verið velt upp. „Einhverjir þeirra geta spilað fleiri stöður,“ segir hann en ­Eiður Smári Guðjohnsen hefur til að mynda verið notaður á miðjunni. Spurður hvort hann hafi áhyggjur af stöðu Eiðs Smára, sem er án félags þegar þetta er skrifað, segir hann svo ekki vera. Hann þurfi hins vegar auðvitað að finna sér lið og byrja að spila.

Rúnar Már til vara?

Rúnar Már Sigurjónsson, leikmaður Sundsvall í Svíþjóð, var í byrjunarliði Íslands í öllum leikjum liðsins í janúar. Hann lék þar stöðuna sem Aron Einar Gunnarsson fyrirliði hefur einokað undanfarin fjögur ár; sem afturliggjandi miðjumaður. Íslenska liðið hefur stundum lent í vandræðum varnarlega þegar Arons nýtur ekki við.

Spurður hvort þeir Lars hafi í Rúnari Má fundið þann leikmann sem gæti leyst Aron Einar af hólmi, komi til þess að Aron Einar spili ekki, er Heimir diplómatískur sem fyrr. Hann viðurkennir að erfitt sé að fylla skarð Arons Einars, þegar svo ber undir, en bendir á að fleiri en Rúnar Már komi til greina. Þannig hafi bæði Birkir Bjarnason og Emil Hallfreðsson leikið í stöðunni. „Auðvitað getur enginn leyst stöðuna fullkomlega án þess að hafa spilað hana áður. Við höfum notað þessa leiki, og líka gegn Póllandi og Slóvakíu, til að prófa ýmsa hluti. Þetta tekur tíma eins og annað en við vonumst auðvitað til að enginn verði meiddur þegar kemur að EM.“

Fjórir markverðir á eftir Hannesi

Þrír markverðir léku með landsliðinu í janúar. Ingvar Jónsson og Haraldur Björnsson héldu hreinu hvor í sínum hálfleik gegn Finnlandi en Ingvar fékk á sig tvö mörk gegn Sameinuðu arabísku furstadæmunum, þar sem Gunnleifur Gunnleifsson gat ekki spilað vegna meiðsla. Ögmundur Kristinsson fékk á sig þrjú mörk gegn Bandaríkjunum. Heimir vill ekki opinberlega leggja mat á frammistöðu þeirra.

Hann segir að Hannes Halldórs­son, aðalmarkvörður Íslands í undan­keppni EM, sé á áætlun þegar kemur að endurhæfingu. Hannes fór úr axlarlið í fyrra en er byrjaður að æfa. „Það kemur ekkert í ljós fyrr en hann fer að spila.“ Þeir Lars séu sáttir við framlag þeirra markvarða sem léku í janúar.

Diego fer hratt fram

Athygli vakti þegar Diego Jóhannesson, 22 ára gamall bakvörður sem spilar með Real Oviedo í spænsku 2. deildinni, var valinn í landsliðið. Hann fékk íslenskt vegabréf í janúar og lýsti yfir áhuga á að spila fyrir landsliðið. Diego á íslenskan föður en hefur alla sína tíð búið á Spáni. Heimir segir aðspurður að það sé erfitt að vera útlendingur og koma inn í landslið. Diego sé vanur öðruvísi fótbolta en íslenska landsliðið spilar. „Það tekur hann líklega lengri tíma að laga sig að því hvernig við spilum. Þetta er flottur strákur og vel gerður. Hann er metnaðarfullur og á möguleika eins og allir aðrir. Hann spilar í mjög góðri deild og hefur fengið góða dóma fyrir sína frammistöðu. Oviedo er í toppbaráttu og því gæti farið að hann leiki í efstu deild á næsta ári. Við sjáum hvernig tíminn fer með hann en hann er að taka hröðum framförum í þessari deild,“ segir Heimir um þennan nýja landsliðsmann.

Þakklátir KSÍ

Ísland leikur tvo hörku landsleiki í mars, við Dani og Grikki. Þeir verða síðustu leikir liðsins áður en lokahópurinn fyrir EM – 23 leikmenn – verður valinn. Heimir segir að þeir Lars séu afar þakklátir KSÍ fyrir leikina. „Þetta verða flottir leikir gegn góðum mótherjum.“ Þar munu menn, sem eiga möguleika á sæti í lokahóp EM, væntanlega leggja allt í sölurnar. Um verður að ræða alþjóðlega leikdaga sem þýðir að allir leikmenn Íslands verða á lausu, ef þeir verða heilir heilsu. Heimir viðurkennir að hann sé farinn að hlakka til EM. „Það er mikill spenningur fyrir mig sem og aðra að fara á svona stórt svið. Allir vilja vera með.“

Hann tekur hins vegar fram að ekki megi líta á lokakeppni EM sem einhverja endastöð. Væntingarnar og spenningurinn verður mikill. „Við þjálfararnir, leikmenn, stuðningsmenn eða blaðamenn verðum að passa okkur á því að fara ekki fram úr okkur. Allir eru að blása í væntingablöðruna. Ef þrýstingurinn verður of mikill þarf ekki nema pínulítið gat til að hún springi. Það snýst ekki allt um þessa lokakeppni þó hún sé ákveðinn hápunktur núna. Þetta snýst um að byggja upp lið til frambúðar, ná stöðugleika og geta endurtekið þennan leik sem oftast. Við þurfum að nýta athyglina og tækifærið á réttan hátt til að ná því markmiði.“

Hækkar verð íslenskra leikmanna

Hann segir að árangurinn sem landsliðið hafi náð, að komast á EM, sé afar verðmætt. Knattspyrnuhreyfingin verði þó að sjá til þess að þetta hafi áhrif á íslenska knattspyrnu til lengri tíma en sem nemur lengd mótsins í Frakklandi. „Þetta hækkar gengi íslenskrar knattspyrnu. Leikmenn hækka í verði og það kemur sér vel fyrir félögin hérna heima. Það gildir ekki bara um þá leikmenn sem verða í lokahópnum. Félögin eiga að líta á þetta sem jákvæðan hlut og nýta sér á réttan hátt. Þetta hlýtur að verða til þess – ef við hugsum skýrt – að iðkendum fjölgar. Þetta verður ungum knattspyrnumönnum hvatning til að leggja enn harðar að sér.“

Framherjar á faraldsfæti

Miklar breytingar hjá öllum framherjum íslenska landsliðsins.
Framherjar á faraldsfæti

Fimm framherjar áttu víst sæti í hóp í undankeppni EM í knattspyrnu. Þeir standa allir á krossgötum eða hafa nýlega skrifað undir hjá nýju liði. Óljóst er hversu mikið þeir fá að spila áður en EM rennur upp.

Kolbeinn SigþórssonHann er aðalframherji íslenska liðsins. Kolbeinn gekk í nýtt félag, Nantes í Frakklandi, í sumar og hefur átt erfitt uppdráttar. Eftir að hafa verið harðlega gagnrýndur af þjálfara sínum um áramót hefur Kolbeinn fundið netmöskvana og vonandi er bjartari tíð í vændum fyrir þennan lykilmann landsliðsins.

Jón Daði BöðvarssonYfirgaf Noreg í nóvember og gekk í raðir Kaiserslautern, í næstefstu deild Þýskalands. Hann fékk leikheimild um áramótin og deildin hefst aftur eftir vetrarfrí í dag, föstudag. Í kjölfarið kemur í ljós hvort Jón Daði fær að spila hjá nýju félagi, en hann lagði upp tvö mörk í æfingaleik í vikunni.

Eiður Smári GuðjohnsenEr farinn frá Kína og leitar sér að nýju félagi. Eiður er á lokametrum ferilsins en þátttaka hans á EM ræðst væntanlega af því hvort hann finnur sér félag og spilar sig í leikform. Eiður spilaði ágætlega í æfingaleikjum landsliðsins í janúar.

Alfreð FinnbogasonHans hlutskipti hefur undanfarið eitt og hálft ár verið að sitja á varamannabekknum. Fór frá Heerenveen sumarið 2014 og fékk fá tækifæri hjá Real Sociedad. Sem lánsmaður hjá Olympiacos fékk hann aðeins tækifæri í sjö leikjum. Hann er nú kominn í Bundesliguna, til Augsburg. Vonandi fær hann að spila þar.

Viðar Örn KjaranssonEftir frábæran tíma í Noregi, þar sem hann skoraði 25 mörk í 29 leikjum, fór hann til Kína þar sem mörkin urðu níu í 28 leikjum. Viðar Örn er nýbúinn að skrifa undir samning við Malmö, eitt besta liðið á Norðurlöndunum en næstu mánuðir munu skera úr um hvaða hlutverki hann mun gegna í liðinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Nokkrir leikmenn United bíða eftir fréttum af Ten Hag – Skoða þá hvort þeir verði áfram að reyni að fara

Nokkrir leikmenn United bíða eftir fréttum af Ten Hag – Skoða þá hvort þeir verði áfram að reyni að fara
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Jói Kalli framlengir við KSÍ og mun áfram aðstoða Hareide

Jói Kalli framlengir við KSÍ og mun áfram aðstoða Hareide
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Leifur: „Það er yfirleitt talað um okkur eins og eitthvað fallbyssufóður“

Leifur: „Það er yfirleitt talað um okkur eins og eitthvað fallbyssufóður“
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Mikil gleðitíðindi fyrir Víking

Mikil gleðitíðindi fyrir Víking
433Sport
Fyrir 20 klukkutímum

Skoraði frábært mark um helgina og skrifar nú undir nýjan samning

Skoraði frábært mark um helgina og skrifar nú undir nýjan samning
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Ný rútína hjá Grealish – Opinberar hvað hann gerir nú öll kvöld

Ný rútína hjá Grealish – Opinberar hvað hann gerir nú öll kvöld
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

Vann sitt fyrrum lið á gamla heimavellinum – ,,Ég mun alltaf elska þetta félag“

Vann sitt fyrrum lið á gamla heimavellinum – ,,Ég mun alltaf elska þetta félag“
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

Ætla að feta í fótspor föður síns – Yngri strákurinn vakti gríðarlega athygli um helgina

Ætla að feta í fótspor föður síns – Yngri strákurinn vakti gríðarlega athygli um helgina