fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Sport

Angela var impóneruð

Ritstjórn DV
Föstudaginn 5. febrúar 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er gríðarlega stoltur af þessu. Hér í Þýskalandi er mikil hefð og saga og titlarnir sem Þjóðverjar hafa unnið eftir stríð eru ekki margir. Það unnust titlar 2004 og 2007 en annars ekki síðan 1978.“ Dagur Sigurðsson er þjóðhetja í Þýskalandi eftir að hafa orðið Evrópumeistari með landsliðið. Á því átti engin von enda Dagur með yngsta liðið á mótinu. Í viðtali við DV ræðir Valsarinn um fyrirmyndir sínar, bónusgreiðsluna, símtölin frá Angelu Merkel og framtíð íslenska landsliðsins.

Segja má að þýska liðið sé einhver óvæntasti Evrópumeistari í hópíþrótt síðan Grikkir urðu Evrópumeistarar í knattspyrnu fyrir tólf árum. Er ekki hætt við að árangurinn stigi manni til höfuðs? Hvernig tekst maður á við svona árangur? „Ég díla ekkert við þetta í sjálfu sér. Ég hef bara reynt að njóta þessara tveggja eða þriggja daga með medalíuna um hálsinn. Ég ætla að leyfa mér að vera ánægður og stoltur,“ segir hann og bætir við að það sé óþarfi að gera sér framtíðarverkefni landsliðsins erfiðari þótt árangurinn hafi náðst fyrr en stefnt var að. Þegar Dagur tók við þýska liðinu, fyrir hálfu öðru ári, var stefnt að því að liðið myndi keppa um titla í fyrsta lagi árin 2019 og 2020. Fyrsta markmiðið var að festa liðið í sessi á stórmótum og það hefur Degi tekist, svo um munar. „Maður er alltaf ánægður ef vinnuveitandinn er sáttur,“ segir hann hæverskur.

„Þetta var eins og að horfa í spegil“

Hann segist ekki hafa áhyggjur af aukinni pressu þótt liðinu hafi gengið vel á þessu móti. „Auðvitað vonast fólk til þess að við vinnum áfram titla og spilum um þessi efstu sæti.“ Hann bendir á að fimmtán bestu landsliðin séu mjög svipuð að styrkleika og að á lokamóti þurfi allt að ganga upp. „Ég er ekkert smeykur við pressu á næstu mótum. Við vorum með yngsta liðið á mótinu svo framtíðin er björt. En við höfum enga tryggingu fyrir því að við hoppum alltaf í efstu sætin.“

Dagur var heima hjá sér, í Þýskalandi, þegar DV ræddi við hann. DV bað Evrópumeistarann um selfie, þar sem hann væri staddur. Því varð hann við og sendi þessa mynd um hæl.
Selfie Dagur var heima hjá sér, í Þýskalandi, þegar DV ræddi við hann. DV bað Evrópumeistarann um selfie, þar sem hann væri staddur. Því varð hann við og sendi þessa mynd um hæl.

Mynd: Dagur Sigurðsson

Athygli vakti þegar Þjóðverjar unnu Dani í síðasta leik í milliriðli og tryggðu sér þannig sæti í undanúrslitum, öllum að óvörum. Spurður hvort hann hafi trúað því þá að hann gæti farið alla leið með liðið segir Dagur að í undanúrslitum hafi upplifunin verið sú að hann hafi verið að mæta liði sem stóð í sömu sporum. Norðmenn höfðu komið á óvart á mótinu og lögðu meðal annars Frakka á leið sinni í undanúrslitin. „Þetta var eins og að horfa í spegil. Norðmenn náðu óvæntum árangri og voru í sömu stöðu og við. Bæði þjálfarar og leikmenn liðanna voru í þessari stöðu í fyrsta skipti. Ég vissi að við ættum jafna möguleika og að leikurinn gæti farið í framlengingu.“

Úrslitaleikurinn er sá leikur sem kom Degi mest á óvart. „Að vinna Spánverja svona örugglega er með ólíkindum. Vörnin og markvarslan hélt okkur í þægilegri fjarlægð allan leikinn. Það er þægileg staða að vera í fyrir svona ungt lið.“

Verður ekki nervös í leikjum

Dagur varð fyrir miklum skakkaföllum í mótinu sjálfu. Tveir af bestu leikmönnum liðsins, skytturnar Christian Dissinger og Steffen Weinhold, meiddust áður en Þjóðverjar léku við Dani. Dagur segir að lítill tími hafi gefist til að takast á við það. „Þetta voru mikilvægir leikmenn sem voru í góðum gír. Það setti smá strik í reikninginn en mennirnir sem komu inn í staðinn tóku heldur betur við keflinu og voru óhræddir.“

Dagur virkar mjög einbeittur á hliðarlínunni þegar leikir fara fram. Hvernig upplifir hann það sjálfur? Verður hann aldrei nervös? „Ég verð ekki nervös í leikjum, það kemur ekki fyrir. Maður er bara einbeittur á að sjá einhverjar lausnir og er óhræddur við að breyta taktík eða öðru.“ Hann bendir á að hann sé enginn nýgræðingur sem þjálfari og hafi verið í því hlutverki í einhver fimmtán ár. Hann hafi því lent í öllum mögulegum aðstæðum. „Stundum er ég æstur á hliðarlínunni og með læti. Það kemur alveg líka fyrir. En það gerist þá frekar þegar liðið er ekki í nógu góðum gír. Núna voru strákarnir það góðir að ég gat verið rólegur og einbeitt mér að því að hafa svör.“

En fór aldrei um hann í fyrsta úrslitaleiknum á stórmóti? Hann segir að leikurinn hafi spilast þannig að forskotið hafi alltaf verið þægilegt. „Ég kom inn í klefa í hálfleik og reyndi bara að segja strákunum að Spánverjar væru ekkert hættir. Og að það væri mikilvægt að fara út í seinni hálfleikinn af sömu geðveiki,“ segir hann léttur.

„Sterk og góð fyrirmynd“

Dagur hefur þjálfað bæði í Austurríki og Þýskalandi. Spurður um fyrirmyndir í þjálfun nefnir hann nokkra. Theódór Guðfinnsson þjálfaði hann, Ólaf Stefánsson og fleiri góða í yngri flokkum Vals. Hann nefnir hann fyrstan. „Theódór var sterk og góð fyrirmynd. Svo var ég mjög heppinn að lenda hjá Þorbirni Jenssyni og Viggó Sigurðssyni. Þeir eru ólíkir þjálfarar en báðir gríðarlegir keppnismenn. Það átti vel við mig.“ Loks nefnir hann Boris Abkashev, sem starfaði með Þorbirni hjá Val og svo landsliðinu. Hann hafi haft mikil áhrif á alla í kringum hann og kennt þeim strákunum mikið.

Dagur segist aðspurður ekki vera náinn leikmönnum sínum, eins og kannski mætti ætla, og leyfi liðinu að vera út af fyrir sig. „Ég tala varla við þá,“ segir hann ákveðinn. „Þeir klára flest mál innan liðsins og ég reyni að segja sem minnst.“ En hvað kalla strákarnir þig? „Þeir kalla mig bara Dagur eða Trainer, sumir hverjir.“

Hún var mjög impóneruð

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Angela Merkel Þýskalandskanslari hafi hringt í Dag á meðan mótinu stóð, sem og eftir það. Hvernig var aðdragandinn?

„Það gerðist þannig að ég sat við matarborð og einn af þeim sem stýrir umgjörðinni hjá liðinu kom til mín. Hann sagði mér að kona nokkur vildi heyra í mér. Ég svaraði í gríni: Merkel? Hann sagði já og vertu með símann hjá þér klukkan þrjú á morgun.“

„Þetta spillir ekkert fyrir.“

Dagur ber að Merkel hafi verið mjög viðkunnanleg, bæði þegar hún hringdi í fyrra skiptið, þegar Þjóðverjar slógu út Dani, og svo eftir úrslitaleikinn. „Hún sagðist vera mjög stolt af liðinu og hvers konar fulltrúar fyrir þjóðina strákarnir væru. Hún óskaði okkur alls hins besta og sagði gaman að Íslendingur stjórnaði liðinu. Hún fór að tala um Ísland og ég sagði að hún yrði endilega að fara til Íslands og prófa að ganga þar á fjöll. Ég veit hún er mikill göngugarpur.“
Hann segist alls ekki hafa upplifað aukna pressu vegna símtala frá kanslaranum. „Nei, nei. Tónninn var þannig að hún var mjög ánægð með liðið. Hún vissi að við vorum með yngsta liðið og þetta væri kannski framar vonum. Hún var mjög impóneruð yfir því hvernig þetta tókst allt saman.“ Hann segir aðspurður að enginn íslenskur ráðamaður hafi hringt í hann til að óska honum til hamingju. „Ekki að ég sé að bíða eftir því,“ segir hann og hlær.

Fær bónusgreiðslu

Eins og fram hefur komið er árangur Dags með Þjóverja óvæntur, þótt Þjóðverjar séu stórþjóð í handbolta. Hann viðurkennir að fá bónusgreiðslur ef hann nær árangri með liðið en vill ekki gefa upp hvað hann fær háa upphæð við Evrópumeistaratitil. „Þetta spillir ekkert fyrir en ég var ekki með töluna í hausnum á mótinu.“

Leikskipulagið fór í þvottavélina

Leikskipulagið fór í þvottavélina

Athygli vakti þegar Dagur birti mynd af leikplaninu á móti Spánverjum. Hann segir að eftir úrslitaleikinn hafi hann fengið hressilega kampavínsmeðferð. Blautum fötunum hafi verið hent ofan í tösku. „Svo vorum við að taka úr þvottavélinni þegar kom í ljós að masersplanið hafði farið með. Ég ákvað að taka mynd af því og þegar því var lokið hugsaði ég með mér að ég ætti bara að deila þessu og leyfa fólki að sjá hvernig þetta kom heim og saman.“ Hann segir að á blaðinu séu leikkerfi og hvert þeirra fær sína tölustafi sem kóða. Þarna eru „kombinasjónir“ af leikkerfum, til dæmis hvaða varnarafbrigði við spilum í hinum ýmsu aðstæðum. Ég nota svona í öllu mótinu.“ Hann fer að hlæja þegar hann er spurður hvort einhver annar en hann gæti skilið það sem á blaðinu stendur. Og svarið er einfalt: „Nei“.

Út í hött að við séum langt á eftir

Dagur vill lítið blanda sér í umræðuna um framtíð íslenska landsliðsins, af virðingu við vini sína heima á Íslandi og íslensku þjóðina. Á honum má þó heyra að hann hefur skoðanir á hlutunum. „Ég vil bara minna á að þeir vinna Noreg og svo kemur ákveðið „blackout“ á móti Hvít-Rússum. Með þeim leik kasta þeir mótinu frá sér.“ Hann segir að það hafi gerst hjá fleiri liðum á mótinu, til dæmis hjá Dönum á móti Svíum og hjá Spánverjum í úrslitaleiknum. Lið lendi stundum í aðstæðum sem erfitt er að ráða við. „Danir voru með allt í góðum gír og litu hrikalega vel út. Þeir voru að sigla inn í undanúrslitin þegar slokknar á einbeitingunni á móti Svíum. Afleiðingin er svo leikurinn á móti okkur.“

Hann segir að ekki megi gera of mikið úr því að strákarnir okkar hafi ekki komist lengra. „Það er kjánalegt að segja að íslenska liðið sé orðið langt á eftir öðrum liðum. Þeir hefðu getað farið sömu leið og Þýskaland og Noregur gerðu. Það er algjörlega út í hött að tala um að þeir séu orðnir einhverjum ljósárum á eftir öðrum. Það er bara kjánaskapur.“ Hann segir að vonbrigðin séu mest fyrir leikmennina sem fórna dýrmætum tíma og mörgum aukaæfingum fyrir að spila á þessum mótum, þrátt fyrir að margir hefðu þurft á hvíld að halda.

Hann segir enn fremur að íslenska liðið sé afar sterkt og erfitt lið að mæta. Það hafi hann reynt á eigin skinni rétt fyrir mótið. „Þeir eru ekkert dottnir út úr öllu. Fjölmörg sterk lið séu í þeirri stöðu að komast ekki á Ólympíuleikana í sumar. Það séu engin endalok. Hann gefur lítið fyrir þau kynslóðaskipti sem rætt hefur verið um að þurfi að séu yfirvofandi. „Það er alltaf einhver endurnýjun í þessum liðum, líka hjá Frökkum og Spánverjum. Það er engin ástæða til að örvænta.“

Dagur veit hvað hann vill.
Ákveðinn Dagur veit hvað hann vill.

Mynd: EPA

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pétur Einarsson látinn
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Guardiola: ,,Þurfum að skoða það í lok tímabils“

Guardiola: ,,Þurfum að skoða það í lok tímabils“
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Knattspyrnusambandið íhugar að banna félögum alfarið að gera þetta

Knattspyrnusambandið íhugar að banna félögum alfarið að gera þetta
433Sport
Í gær

Ten Hag mun lækka duglega í launum verði hann áfram á næstu leiktíð

Ten Hag mun lækka duglega í launum verði hann áfram á næstu leiktíð
433Sport
Í gær

Úr dönsku úrvalsdeildinni í Vestra

Úr dönsku úrvalsdeildinni í Vestra