fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Sport

Tuttugu verstu kaup Wengers

Hefur fundið marga gimsteina á 20 ára ferli hjá Arsenal – En stundum kaupa menn köttinn í sekknum

Ritstjórn DV
Laugardaginn 1. október 2016 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arsene Wenger fagnar þann 1. október 20 ára starfsafmæli sínu við stjórnvölinn hjá Arsenal. Þrír deildarmeistaratitlar, sá síðasti árið 2004, og sex FA-bikarmeistaratitlar eru meðal þeirra afreka sem Wenger getur státað af. En þrátt fyrir eyðimerkurgöngu í titlasöfnun undanfarinn áratug þá verður eitt ekki tekið af franska knattspyrnuhugsuðinum. Hann hefur búið til marga góða leikmenn á ferlinum. Leikmenn sem hann hefur oft keypt fyrir lítið fé en hafa slegið í gegn. En eins og gerist hjá öllum stjórum á löngum ferli þá kaupa menn oft köttinn í sekknum. Í tilefni af 20 ára starfsafmæli Wengers rifjum við upp 20 verstu leikmennina sem hann hefur fengið til félagsins.

Það var breska dagblaðið Telegraph sem tók saman listann en í umfjöllun blaðsins er hvergi slegið af og stóru orðin ekki spöruð um þá leikmenn sem taldir eru hafa floppað líka svona herfilega í herbúðum Arsenal. Til að komast á listann þurfa leikmenn að hafa samið við félagið með það fyrir augum að verða byrjunarliðsmenn. Ungir leikmenn sem fengið hafa einn og einn leik án þess að ná almennilega í gegn eru undanskildir.


Mynd: EPA

20. Yaya Sanogo (2013– )

„Hann er skelfilegur knattspyrnumaður,“ segir Telegraph um Sanogo. Sanogo er fljótur og sterkur en hefur aðeins skorað eitt mark, sem í þokkabót var rangstöðumark, í 20 leikjum. Hefur verið lánaður út í þrígang. Þrátt fyrir að vera aðeins 23 ára þá fullyrðir Telegraph að það verði aldrei meira úr honum en raun ber vitni. Ái.


Mynd: EPA

19. Mikael Silvestre (2008–2010)

Það kom fljótt í ljós hvers vegna Sir Alex Ferguson var reiðubúinn að selja hinn þá 31 árs gamla Silvestre ódýrt til erkifjendanna í Arsenal. Wenger og félagar voru að glíma við alvarlega manneklu í öftustu víglínu og ákváðu í örvæntingu að falast eftir Frakkanum reynda. Hann var á mála hjá Arsenal í tvö tímabil en náði sér aldrei á strik.


Mynd: EPA

18. Julio Baptista (2006–2007)

Arsenal hafði verið orðað við brasilíska „Skrímslið“ um árabil. Hann sló í gegn hjá Sevilla á Spáni sem varð til þess að Real Madrid keypti hann dýrum dómum. Þar fann hann sig ekki og var lánaður til Arsenal eitt tímabil. Sérfræðingar töldu að hann væri síðasta púslið sem Wenger þyrfti, að hann myndi koma með líkamlegan styrk í hóp fíngerðra leikmanna, en Baptista reyndist of stór fyrir nokkurt púsluspil. Arsenal ákvað að kaupa hann ekki að láninu loknu og sneri hann aftur til Madrid með 3 deildarmörk í 24 leikjum á bakinu. Hans stærsta afrek var að skora fernu í 6-3 sigri á Liverpool í deildarbikarnum.


Mynd: EPA

17. Pascal Cygan (2002–2006)

Var keyptur á tvær milljónir punda sem arftaki Tonys Adams og Martins Keown í miðvarðarstöðunni en fljótt kom í ljós að hann hefði ekkert í ensku úrvalsdeildina að gera. Hann náði sér aldrei á strik eftir að hafa verið tekinn í bakaríið af 17 ára gömlum Wayne Rooney á fyrsta tímabilinu. Stuðningsmenn Arsenal tóku iðulega andköf þegar hann var í byrjunarliðinu.


Mynd: EPA

16. Nelson Vivas (1998–2001)

Argentínskur landsliðsmaður sem kom við góðan orðstír til Arsenal. Mistök hans við að gæta Jimmys Floyds Hasselbaink í leik gegn Leeds árið 1999 fóru langt með að gera út um titilvonir liðsins það tímabil. Hann náði aldrei að festa sig í sessi í byrjunarliðinu.


15. Francis Jeffers (2001–2004)

Einhverjir myndu líklega setja Jeffers ofar á þennan lista. Framherjinn ungi þótti einn efnilegasti leikmaður Englands hjá Everton. Þegar Wenger keypti hann á 8 milljónir punda varð hann einn dýrasti leikmaður í sögu félagsins. En hann náði aldrei að standa undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar. Meiðsli léku stórt hlutverk í því. Hann var lánaður aftur til Everton 2003 áður en hann var loks seldur til Charlton á 2,6 milljónir punda árið 2004.


Mynd: EPA

14. Marouane Chamakh (2013–2013)

Margir framherjar hafa floppað hjá Arsenal í gegnum tíðina en fáir hafa hrapað eins rosalega í formi og Chamakh. Marokkómaðurinn hafði sýnt góð tilþrif með Bordeaux í Frakklandi í nokkur ár og kom frítt til Arsenal. Hann byrjaði fantavel og skoraði 11 mörk í fyrstu 22 leikjum sínum. En aðeins 4 mörk í næstu 46 leikjum og almennt ömurleg spilamennska í ofanálag tryggja honum sæti á þessum lista.


Mynd: EPA

13. Stefan Malz (1999–2001)

Það þykir mikil ráðgáta hvers vegna Wenger greiddi 650 þúsund pund fyrir þýska miðjumanninn sem var tvö tímabil í herbúðum liðsins. Sérstaklega í ljósi þess að hann kom aðeins við sögu í sex deildarleikjum á tveimur árum.


Mynd: EPA

12. Tomas Danilevicius (2000–2001)

Hver? Það er von að þú spyrjir, kæri lesandi. Litháenski framherjinn var keyptur á eina milljón punda í desember árið 2000 en var aldrei líklegur til stórræðanna. Hann kom þrisvar inn á sem varamaður. Eitt skiptið við sérlega furðulegar kringumstæður þegar Arsenal var að gera 2-2 jafntefli við Sunderland í deildinni og þurfti mark. Kom Tomas blessaður inn á fyrir sjálfan Thierry Henry og náði auðvitað ekki að verða hetja. Var lánaður til Dunfermline aðeins þremur mánuðum eftir komuna til Arsenal.


Mynd: Arsenal.com

11. David Grondin (1998–2003)

Hann var keyptur á hálfa milljón punda sem átján ára efnilegur varnarmaður frá Frakklandi. Fjórir lélegir leikir á fyrsta tímabili innsigluðu örlög hans og var hann lánaður til fjölmargra félaga árin þar á eftir.


Mynd: Arsenal.com

10. Richard Wright (2001–2002)

Enski markvörðurinn var keyptur á tvær milljónir punda frá Ipswich, þá 23 ára gamall. Var litið á hann sem verðugan eftirmann Davids Seaman hjá Arsenal og enska landsliðinu. Hann náði sér aldrei eftir skelfilega frammistöðu á Highbury í 4-2 tapi gegn Charlton og hvarf á braut til Everton strax eftir fyrsta tímabilið. Hann náði þó nógu mörgum leikjum í deild til að fá gullpening í lok leiktíðar.


Mynd: EPA

9. Junichi Inamoto (2001–2002)

Keyptur á fjórar milljónir punda til að selja treyjur. Svo einfalt er það. Hann átti að vera lykillinn að landvinningum Arsenal í Japan og austurlöndum fjær en var látinn fara strax eftir tímabilið fyrir HM 2002. Hann náði aðeins að koma við sögu í fjórum leikjum hjá Wenger.


Mynd: EPA

8. Kaba Diawara (1999)

Hann átti að vera næsti Nicolas Anelka þegar Wenger keypti landa sinn á 2,5 milljónir punda í janúarglugganum 1999. Nokkrum mánuðum síðar fór hann frá félaginu. Kom við sögu í 15 leikjum án þess að skora.


Mynd: EPA

  1. Manuel Almunia (2004–2012)
    Ekki versti leikmaður sögunnar en fáir hafi valdið stuðningsmönnum eins miklu hugarangri og markvörðurinn Manuel. 2007–2012 var hann reglulega byrjunarliðsmaður og á því tímabili voru Arsenal-menn nærri því að vinna titilinn. En fáránleg mistök, óstöðugleiki og léleg frammistaða Almunia í lykilleikjum varð til þess að stuðningsmenn skelltu skuldinni á hann. Hann varð árið 2011 orðinn þriðji valkostur Wengers á eftir Lukasz Fabianski og Wojciech Szczesny.

Mynd: EPA

6. Igors Stepanovs (2000–2004)

Hann var fenginn til liðsins sem varaskeifa fyrir hinn meidda Tony Adams en frammistaða hans í 6-1 tapi gegn Manchester United varð til þess að hann fékk fá tækifæri eftir það. Igors náði aðeins að leika 17 deildarleiki þar til hann hvarf á braut.


Mynd: EPA

5. Sebastien Squillaci (2010–2013)

Arsenal-menn voru vongóðir um að þeir væru loks komnir með áreiðanlega miðvörðinn sem liðið hafði sárvantað þegar Squillaci var keyptur á fjórar milljónir punda frá Sevilla á Spáni. Franski landsliðsmaðurinn var hins vegar lélegur á fyrsta tímabili og fékk eftir það aðeins að spila í bikarkeppnum. Lágpunktur ferilsins kom í bikarleik gegn Sunderland í febrúar 2012 þegar honum var skipt af velli, eftir að hafa sjálfur komið inn á sem varamaður í leiknum.


Mynd: EPA

4. Andre Santos (2011–2013)

Einn af mögum leikmönnum sem Wenger keypti í örvæntingu sinni á lokadegi félagaskipta í ágúst 2011. Hann reyndist ágæt áminning um hvers vegna slík örvæntingarkaup eru aldrei góð hugmynd. Brasilíumaðurinn var með góðan vinstri fót og var sagður sambærilegur leikmaður og Roberto Carlos – jafn brothættur varnarlega og hann vissulega, en laus við sóknarhæfileika landa síns þó. Hann virtist aldrei í formi og alls ekki nógu góður. Beit höfuðið af skömminni þegar hann bað um treyju Robins van Persie í hálfleik, í leik gegn Man Utd í nóvember 2012, eftir að Persie hafði verið seldur til United! Var lánaður til Gremio í heimalandinu nokkrum mánuðum síðar og sneri aldrei aftur.


Mynd: EPA

3. Alberto Mendez (1997–2002)

Wenger keypti mikið af gæðaleikmönnum í fyrstu. Mendez kom til félagsins á sama tíma og Nicolas Anelka, Emmanuel Petit og Marc Overmars en náði augljóslega aldrei sömu hæðum. Hann kom frá utandeildarliði í Þýskalandi og náði miðjumaðurinn aðeins að leika fjóra leiki fyrir Arsenal á fimm árum!


Mynd: EPA

2. Amaury Bischoff (2008–2009)

Það furðuðu sig margir á þessum kaupum. Amaury var keyptur á aðeins 250 þúsund pund í júlí 2008 þrátt fyrir að hafa allan ferilinn glímt við ótrúlega þrálát meiðsli. Eins og Arsenal hafi þurft á öðrum meiðslapésa að halda. Auðvitað héldu vandræði hans áfram hjá Arsenal og náði hann aðeins að leika fjóra leiki á sínu eina tímabili.


Mynd: EPA

1. Park Chu-Young (2011–2014)

Telegraph segir Park óútskýranleg örvæntingarkaup. Park var keyptur á 5 milljónir punda frá Monaco, gamla vinnuveitanda Wengers í Frakklandi, og þykja kaupin enn ein þau dularfyllstu á Wenger-tímanum og kaup sem hann sá strax eftir. Park lék aðeins EINN deildarleik fyrir félagið og toppar lista Telegraph af þeim sökum auk þess sem hann virtist fullkomlega vanhæfur leikmaður í þeim fáu leikjum sem hann þó lék. Hann var látinn fara frítt frá félaginu í júní 2014. Pistlahöfundur Telegraph hafði á orði þá að þegar Wenger ákvað að kaupa Park hafi það verið „versta símtal sem nokkur hafi svarað síðan Colin Farrell svaraði í símann í kvikmyndinni Phone Booth,“ en þeir sem séð hafa þá mynd skilja myndlíkinguna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Truflar KR-inga ekkert að spila í Laugardalnum – „Fyrstu tveir leikirnir hafa bara verið heimaleikir“

Truflar KR-inga ekkert að spila í Laugardalnum – „Fyrstu tveir leikirnir hafa bara verið heimaleikir“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Axel fer yfir ákvörðun sína – „Ég myndi ekki velja þann stað með sjö mánaða gamalt barn“

Axel fer yfir ákvörðun sína – „Ég myndi ekki velja þann stað með sjö mánaða gamalt barn“
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Svona var byrjunarliðið þegar Manchester United mætti Coventry síðast

Svona var byrjunarliðið þegar Manchester United mætti Coventry síðast
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Opinberar smáatriðin í stórfurðulegum samning sem hann og kærastan hafa gert með sér

Opinberar smáatriðin í stórfurðulegum samning sem hann og kærastan hafa gert með sér
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf

Segja Zidane nálægt því að taka að sér óvænt starf
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Besta deild kvenna fer af stað með látum á sunnudag

Besta deild kvenna fer af stað með látum á sunnudag
433Sport
Í gær

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur
433Sport
Í gær

Leikmaður United ákærður fyrir tvö brot – Mætti fyrir dómara í dag en neitar sök

Leikmaður United ákærður fyrir tvö brot – Mætti fyrir dómara í dag en neitar sök