fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Sport

„Þetta verður síðasta árið mitt“

Florentina Stanciu, markmaður Stjörnunnar og landsliðsins, ætlar að hætta í vor

Ritstjórn DV
Föstudaginn 22. janúar 2016 15:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Florentina Stanciu stendur vörð í íslenska handboltamarkinu og hjá Stjörnunni. Hún er ein besta handboltakona landsins og hefur verið einn besti markmaður Evrópu. En Florentina hefur tekið erfiða ákvörðun. Hún ætlar með fjölskyldu sína aftur til Rúmeníu og kveðjur handboltann – og Ísland – með miklum trega. Hún segist vita að það er tímabært. Hún ræddi við Ástu Sigrúnu Magnúsdóttur um handboltann, hendurnar fjórar sem hún virðist stundum hafa í markinu, trúna, ákafann, metnaðinn og þakklætið.


„Þetta verður síðasta árið mitt sem leikmaður í handbolta,“ segir Florentina þar sem við sitjum á ritstjórnarskrifstofu DV og ræðum málin. „Það er rosalega skrítið að segja það upphátt. Ég grét smá þegar ég kom hingað, en ég mun hágráta þegar ég fer frá Íslandi.“

Við erum ekki alveg tilbúnar í tárin svo hún segir mér frá því hvernig það æxlaðist eiginlega að hún tók sér stöðu í markinu.

Þegar hún var að stíga sín fyrstu skref á vellinum gekk illa að finna réttu stöðuna fyrir hana og hún vildi alls ekki fara í markið. „Ég var fjórtán ára þegar ég var að byrja að spila og var bæði löng og grönn. Ég vildi bara alls ekki vera í markinu. En ég var svo grönn og veikburða að ég gerði lítið gagn á vellinum sjálfum. Liðið þurfti auðvitað að hafa markmann og það var enginn annar sem gat tekið það að sér. Þjálfarinn ýtti mér þangað. Á fyrstu æfingunni hélt ég svo markinu alveg hreinu, fékk ekki á mig eitt mark. Þjálfarinn minn sagði við mig: „Æ veistu, ég held að þetta sé bara staðan þín.“ Ég vildi þetta alls ekki en hélt áfram að spila enda hafði ég ekki um mikið að velja. Svo var ég valin í landsliðið!“ segir hún og segist við það hafa áttað sig á því að hún ætti miklu meiri möguleika á því að verða betri markmaður en leikmaður á vellinum.

Ég mun hágráta þegar ég fer frá Íslandi

„Ég varð bara að sætta mig við það og gerði það sem betur fer. Ég keppti áfram með landsliðinu og ég var ítrekað valin besti markmaðurinn á mótunum sem við kepptum á. Ég varð Evrópumeistari tvisvar og svo þegar við kepptum á heimsmeistaramótinu var ég líka valinn besti markmaðurinn,“ segir hún. „Þetta var köllun mín, held ég bara.“

„Ég er mjög metnaðarfull, bæði fyrir sjálfa mig og liðið mitt,“ segir hún og liðsfélagar hennar hafa stundum haft það á orði að hún sé svo metnaðarfull að hún eigi mjög erfitt með að tapa, jafnvel þótt það sé bara á æfingu. „Líklega er rétt að segja að ég sé tapsár. Ég vil gera vel,“ segir hún.

ÍBV og Stjarnan til skiptis

Á síðustu tólf árum hefur hún svo skipst á að spila fyrir ÍBV og Stjörnuna, og um þessar mundir stendur hún vaktina í marki Stjörnunnar. Florentina kom til Íslands árið 2004 og byrjaði að spila með ÍBV í Vestmannaeyjum. Þegar hún kom til landsins ásamt eiginmanni sínum, Costinel Stanciu, hugsuðu þau með sér að þau yrðu hér í eitt ár eða svo. Eftir fyrsta árið ákváðu þau að bæta við einu ári. „Okkur leið bara svo vel. Fólkið var vinsamlegt og hjartahlýtt. Allir tóku okkur svo fallega og mér gekk vel,“ segir hún. En það var ekki sjálfgefið að hún kæmi hingað.

„Valið stóð á milli þess að við færum til Serbíu eða Íslands á sínum tíma og við völdum rétt,“ segir hún. „Það var samt eiginlega allt eiginmanni mínum að kenna og þakka. Ég er líka þakklát Guði og Hlyni Sigmarssyni. Hlynur valdi mig þegar ég var að spila í Frakklandi með Metz Metropole. Metz gekk vel og við urðum meistarar, en okkur gekk svo illa í Evrópukeppninni. Ákveðið var að segja upp samningum við erlenda leikmenn og ráða bara Frakka til að spila. Þá varð ég að finna mér nýtt lið og fékk nokkur tilboð. Á endanum voru það tilboð til Serbíu og frá Íslandi sem ég var að vega og meta. Mig langaði ekki að fara til Serbíu, ég sá það fyrir mér sem land sem væri of líkt Rúmeníu. Mig langaði að fara eitthvert annað og þá sagði maðurinn minn að við færum bara til Íslands – sem við og gerðum,“ segir hún. Hlynur hafði veg og vanda af því að semja við Florentinu og hjálpaði þeim hjónum mikið, sem þau eru ævinlega þakklát.

Fallegra hjartalag

Þegar þau komu hingað fyrst bjuggu þau, sem áður sagði, í Vestmannaeyjum og líkaði vel. Eftir fyrsta árið bauðst henni að fara til Ungverjalands eða Þýskalands og spila. „En, mér finnst fólkið þar ekki nógu hlýlegt. Það er frekar kaldlynt,“ segir hún. „Hér er fólk með fallegra hjartalag. Mér finnst það að minnsta kosti.“ Þau hjónin ákváðu að halda sínu striki og urðu áfram í Vestmannaeyjum. „Við vissum það bæði að ef ég stæði mig ekki vel hérna yrði ég að fara heim og ég vildi það alls ekki. Ég ákvað að ég yrði að bæta mig ár frá ári og ég held að mér hafi tekist það.“

Hér er fólk með fallegra hjartalag

Eftir tvö vel heppnuð ár þar vildu þau breyta til og fóru þá í Garðabæinn til Stjörnunnar og voru í fjögur ár. Florentina var meðal annars valinn íþróttamaður Garðabæjar hjá Stjörnunni og hefur að auki verið valinn besti markmaðurinn hjá HSÍ átta ár í röð. Florentina eignaðist sitt fyrsta barn á meðan hún spilaði með Stjörnunni og í kjölfarið fluttu þau til Vestmannaeyja. „Mér fannst svo gott að vera með son minn þar svona lítinn. Ég gat verið með honum að degi til, enda var hann ekki kominn til dagmömmu, en spilað á kvöldin og þá var maðurinn minn hjá honum. Það er mjög fjölskylduvænt samfélag í Vestmannaeyjum og gott fyrir fjölskyldur að vera þar. Mér finnst það líka núna í Garðabænum, það er gott að vinna, spila og búa í sama bæjarfélaginu,“ segir hún.

Leyndarmálin

Florentina er þekkt fyrir metnaðinn inni á vellinum, en einnig fyrir sérstaklega góðan undirbúning fyrir leikina.
„Ég undirbý mig mjög mikið fyrir hvern leik og er með miklar hefðir í tengslum við það. Ég gerði það sérstaklega áður en sonur minn fæddist. Ég hef aðeins dregið úr því, enda vinn ég líka meira með handboltanum en ég gerði. En ég er alltaf með sömu rútínuna,“ segir hún. Hún tekur sér gjarnan frí frá vinnu fyrir mikilvæga leiki, tekur æfingu, borðar vel og íhugar.

„Ég vil ekki gefa upp öll leyndarmálin mín – það skiptir kannski ekki eins miklu máli núna þegar ég er búin að ákveða að hætta. Ég læt þau samt ekki öll, því við eigum allt að vinna í Stjörnunni í vetur,“ segir hún glaðhlakkaleg og bætir við:

„Ég skoða andstæðinginn og liðið mitt mjög vel. Ég er stundum með heilu veggina veggfóðraða af blöðum með upplýsingum og ég horfi á myndbönd. Ég fer vel yfir það fyrir leikinn, hugsa þetta taktískt, velti fyrir mér veikleikum og styrkleikum mínum og þeirra. Svo fæ ég stundum eiginmann minn til að koma og fylgjast með mér á sjálfum leiknum og veita mér stuðning. Hann er traustur ráðgjafi minn – stendur utan vallar og hjálpar mér að átta mig á því hvar ég get gert betur.“

##Aldrei ein
Auk þess að skoða andstæðinginn gaumgæfilega fer hún með bænir fyrir hvern leik. „Trúin skiptir mig miklu máli,“ segir hún. „Hún hefur fleytt mér langt og ég er alveg viss um það að ég hef Guð með mér inni á vellinum. Ég er ekkert án hans og ég er aldrei ein. Það er mér mikilvægt að vera jákvæð, glöð og góð og vera trúrækin. Ég segi liðsfélögum mínum það líka að þeir verði að trúa og halda í vonina.“

Ég segi liðsfélögum mínum það líka að þeir verði að trúa og halda í vonina

Hún segist finna vel fyrir þessum aukna styrk. „Í fyrra spiluðum við við Fram í undanúrslitum. Ég held að það hafi verið einn erfiðasti og eftirminnilegasti leikur sem ég hef spilað. Þetta var fimmti leikurinn og þetta var erfitt. En mér fannst eins og ég væri með fjórar hendur í markinu. Guð var með mér í þessum leik, svo sannarlega. Það var svo sætur sigur, við unnum þær á heimavelli og ég fann svo sterkt hvað í okkur bjó,“ segir hún. Liðsfélagarnir sem höfðu fylgst með henni undirbúa sig fyrir leikinn sögðust núna loksins skilja hvað hún væri að meina þegar hún talaði um trú sína. Hún benti þeim þó góðfúslega á að það væri ekki nóg að hafa trú í meðvindi, heldur þyrfti hún líka að vera til staðar í mótvindi.

Valdi Ísland

Það vakti athygli þegar Florentina ákvað að taka upp íslenskt ríkisfang og spila með íslenska landsliðinu í handbolta. Hún hafði verið markvörður rúmenska landsliðsins og verið burðarás í liðinu. Rúmenska liðið er mjög sterkt, hefur til að mynda keppt á öllum heimsmeistaramótunum sem haldin hafa verið. Florentina sóttist mjög ákveðið eftir því að fá að spila með íslenska landsliðinu. „Ég vildi gefa til baka til Íslands, eftir allt sem það hafði gefið mér. Ég hef verið svo hamingjusöm á Íslandi. Mér fannst það skylda mín að gefa af mér til baka,“ segir hún.

Hún trúir því að íslenska og norræna hugarfarið sé frelsandi.
„Ég spilaði síðast með Rúmeníu árið 2009 á heimsmeistaramótinu í Kína og mér fannst hugarfar liðsins ekki vera það sem ég sóttist eftir. Mér fannst það vera óþarfa stress og mér fannst eins og ég væri sett í ákveðinn kassa. Ef ég er sett í kassa get ég ekki gefið af mér og hjálpað liðinu. Hér hef ég meira frelsi og þá á ég auðveldara með að gefa af mér – þótt ég ætli mér alltaf að gera meira.“

Íslenska landsliðið hefur allt til að bera til að vera mjög sterkt og í því eru öflugir leikmenn sem geta náð langt að hennar mati. Sama má segja um Stjörnuna. „Við erum með sterkt lið, liðið er fullt af leikmönnum sem berjast. Ég vona að okkur takist að klára þetta ár með góðum árangri, ég held að við getum það ef við leggjum allt í sölurnar. Ég myndi vilja klára árið vel og mun gera allt sem ég get til þess að láta það verða að veruleika,“ segir hún. „Við verðum að halda okkur heilbrigðum og vera í toppformi áfram. Stjarnan hefur staðið sig mjög vel síðustu tvö ár og ég treysti því að við komumst í undanúrslitin í ár. Maður veit aldrei en ég veit að við getum það.“

Kveðjustund

Það er komið að því að kveðja handboltann og Ísland. Í júní spilar Florentina líklega síðustu leikina sína og fer svo til Rúmeníu aftur. „Ég ætla að hætta. Maðurinn minn á foreldra í Rúmeníu og pabbi minn er þar líka. Þau vilja að við komum aftur heim og Costinel hefur elt mig og fylgt mér svo lengi að það er komið að því að ég fari með honum. Ég held að þetta sé góður tími til þess og ég er sátt við þessa ákvörðun. Ég finn það vel að mig langar til þess að breyta til. Ég held að það sé líka réttur tími fyrir okkur að fara gagnvart syni okkar. Hann er fimm ára og ætti að byrja í skóla eftir tvö ár í Rúmeníu. Við höfum þá ráðrúm til þess að sjá hvernig okkur gengur að aðlagast aftur áður en hann byrjar í skóla. Það væri erfiðara ef hann væri eldri og gæti truflað námsframvindu hans,“ segir hún og segist hafa velt þessu mikið fyrir sér. Hún telur líklegt að hún komi sjálf til með að starfa sem kennari í Rúmeníu.

„Ég er menntaður íþróttakennari og vinn á leikskóla í Garðabæ sem kennari. Mér finnst það svo skemmtilegt, ég vinn á góðum vinnustað og næ góðri tengingu við börn. Ég er góð í handbolta, en mér finnst ég ná sérstaklega vel til barnanna sem kennarinn þeirra. Starfið hentar mér vel og hvatvísinni minni,“ segir hún.

Is it true?

Það er ekki hlaupið að því að hætta í handboltanum, eftir allan þennan tíma. „Stundum trúi ég því varla að ég sé að hætta – eins og Jóhanna Guðrún söng í Eurovision: „Is it true – is it over?“ Ég held að ég verði alltaf tengd handboltanum og íþróttum. Ég er íþróttamaður í eðli mínu, ég verð að geta hlaupið, lyft og hreyft mig. Annars – úff ég veit ekki hvað myndi gerast annars,“ segir hún. En hún segist vita að það verði mjög erfitt að kveðja, erfiðara sjálfsagt en hægt er að ímynda sér. Hér á Íslandi verða áfram bróðir hennar og systir sem komu á eftir henni og hafa búið sér heimili hér. „Við höfum haft gott stuðningsnet hérna með þeim. Við systkinin erum mjög náin,“ segir hún. „Þau eru mjög ánægð og ég hef sagt þeim að ef þau verði hérna mikið lengur komi þau aldrei aftur til Rúmeníu. Ég skil það vel,“ segir hún og hlær. „Ég skil eftir hluta af mér.“

Ég er íþróttamaður í eðli mínu, ég verð að geta hlaupið, lyft og hreyft mig

Takk

„Þótt ég sé enn að spila og auðvitað ekki farin langar mig svo að segja aftur: Takk. Takk ÍBV, takk Stjarnan og takk Ísland fyrir að vera mér svona góð og miklir vinir mínir. Ég er stolt af því að ÍBV hafi valið mig og svo Stjarnan. Mér finnst Ísland vera heimilið mitt. Ég gerði það að heimili mínu með ykkar hjálp,“ segir hún og hleypur af stað, enda var mikilvægur leikur um kvöldið. Það var viðeigandi að það var leikur Stjörnunnar við ÍBV í Eyjum, þar sem Stjörnukonur unnu frækinn sigur á ÍBV og komust áfram í átta liða úrslit í Coca-Cola bikarnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Fluttur með hraði á sjúkrahús með verk fyrir brjósti

Fluttur með hraði á sjúkrahús með verk fyrir brjósti
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Toddi fundaði með Infantino í París – Þessi mál voru á dagskrá

Toddi fundaði með Infantino í París – Þessi mál voru á dagskrá
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Liverpool að hætta í Nike og fara líklega í Adidas – Fá þó ekki sömu kjör og United

Liverpool að hætta í Nike og fara líklega í Adidas – Fá þó ekki sömu kjör og United
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Svona er tölfræðin hjá Slot sem er sagður taka við Liverpool í sumar

Svona er tölfræðin hjá Slot sem er sagður taka við Liverpool í sumar
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Er hiti á Arnari í starfi? – „Þá heimta ég ekki að þættinum sé cancelað og að Gísli Einarsson sé rekinn“

Er hiti á Arnari í starfi? – „Þá heimta ég ekki að þættinum sé cancelað og að Gísli Einarsson sé rekinn“
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

KSÍ segir ráðningu á framkvæmdarstjóra í góðum farvegi

KSÍ segir ráðningu á framkvæmdarstjóra í góðum farvegi
433Sport
Í gær

Bikarinn rúllar af stað í kvöld og nú eru stórliðin með – Svona er dagskráin

Bikarinn rúllar af stað í kvöld og nú eru stórliðin með – Svona er dagskráin
433Sport
Í gær

Nú líklegast að hann fari til Spánar

Nú líklegast að hann fari til Spánar