Árni gerði þriggja bardaga samning

Samingurinn við írska Cage Contender sambandið

Mynd: © DV ehf / Sigtryggur Ari

Bardagaíþróttakappinn Árni Ísaksson hjá Mjölni hefur gert þriggja bardaga samning í blönduðum bardagaíþróttum við írska Cage Contender sambandið. Árni hefur áður barist í Cage Contender en hann bar sigurorð af heimamanninum Ronan McKay í Belfast í nóvember 2010 með armlás í þriðju lotu.

Þess má geta að Gunnar Nelson hjá Mjölni hefur einnig tvisvar barist undir merkjum Cage Contender og var í bæði skiptin aðalbardagi (e. main event) keppninnar. Gunnar sigraði báða bardaga sína þar í fyrstu lotu. Árni átti að berjast í Cage Contender þegar Gunnar barðist þar síðast en andstæðingur hans náði ekki tilskilinni vigt og því varð ekkert af bardaganum. Gaman er að geta þess að Írinn Cathal Pendered er veltivigarmeistari Cage Contender en hann dvelur nú á Íslandi til að aðstoða Gunnar Nelson við undirbúning fyrir UFC bardaga Gunnars sem framundan er í lok september.

Árni Ísaksson á 15 bardaga að baki í MMA, 11 sigra og 4 töp. Hann keppti síðast gegn Frakkanum Gael Grimaud í Jórdaníu í september í fyrra en beið lægri hlut í annarri lotu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.