Sædýrasafnið: Þegar ljón, apar, kyrkislöngur og ísbirnir bjuggu í Hafnarfirði

Hugsjónastarf Jóns Kr. - Með ljón í labbitúr – Glerflaska felldi björninn

Uppáhaldið þeirra var að drekka djús.
Simpansar Uppáhaldið þeirra var að drekka djús.

Margir eiga góðar minningar frá Sædýrasafninu í Hafnarfirði, dýragarði sem starfræktur var í nærri tvo áratugi þar sem nú er golfvöllurinn Keilir. Jón Kr. Gunnarsson kom Sædýrasafninu á laggirnar og stýrði því alla tíð en þar starfaði einnig kona hans, Ragnhildur Guðmundsdóttir, og fjögur börn þeirra. Eitt af þessum börnum, Ragnhildur Jónsdóttir myndlistarkona, ræddi við DV um þessi merkilegu ár.

Ævintýrið byrjar

Ragnhildur segir að ævintýrið hafi byrjað með fiskasýningu Hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði árið 1964. Þeir seldu ekki flugelda á þeim tíma og því var þessi fjáröflunarleið farin og gekk vel. Sjómenn komu með fiska sem sýndir voru lifandi í búrum og nokkur önnur dýr svo sem trönu sem fangaðist við björgunarstörf. Jón Kr. Gunnarsson, skipstjóri og bókaútgefandi í Rauðskinnu, var virkur í hjálparsveitinni og fékk hann þá hugmynd að koma alvöru dýragarði á laggirnar. Sumir töldu hann hálfbilaðan að láta sér detta þetta í hug en engu að síður opnaði Sædýrasafnið árið 1969.

Það var áhugamannafélag sem hélt utan um safnið með skipaðri stjórn en Jón var framkvæmdastjóri og sá um daglegan rekstur. Safnið var reist á berangri neðan við Holtið í Hafnarfirði. Til að byrja með var það í ætt við fiskasýninguna. Þar voru sjávardýr í búrum og selir í laug. Skömmu eftir opnunina fékk safnið að gjöf ísbjarnarhún frá dýragarðinum í Kaupmannahöfn sem misst hafði móður sína á Grænlandi. Ekki leið á löngu áður en hrafnar og refir bættust í fánuna og svo koll af kolli.

Jón var í góðum samskiptum við dýragarða víða um heim en mest við dýragarðinn í Kaupmannahöfn. Dýr voru keypt af öðrum görðum en einnig stunduð býtti, til dæmis voru sendir út selir fyrir framandi fugla. Einnig fékk safnið mikið af litlum gæludýrum að gjöf frá fólki sem hafði gefist upp á þeim. Svo sem kanínur, páfagauka og skjaldbökur. Þá voru sum dýr veidd, til dæmis hreindýr, og öðrum bjargað. Ragnhildur minnist helst selkópanna sem komu í misgóðu ásigkomulagi. „Þeir voru kallaðir undanvillingar, höfðu týnt mömmu sinni og hefðu drepist í náttúrunni.“

Baða ljónsungana í Skúlaskeiði.
Mæðgurnar Ragnhildur Jónsdóttir og Ragnhildur Guðmundsdóttir Baða ljónsungana í Skúlaskeiði.
Mynd: Gunnar V. Andrésson

Ljónsungar viðraðir í Hellisgerði

Fjölskyldan bjó í Skúlaskeiði við Hellisgerði í Hafnarfirði og heimilishaldið þar var líflegra en á flestum öðrum stöðum. Dýr sem ekki var hægt að vista í safninu af einhverjum ástæðum höfðu tímabundið athvarf þar. Ragnhildur var á níunda ári þegar safnið var opnað og framandi dýr byrjuðu að streyma inn á heimilið. „Ætli við höfum ekki alltaf þótt pínu skrítin. Það voru alltaf ljón eða selir heima hjá mér. Það var samt ábyggilega gaman að koma í heimsókn. En ég pældi ekkert í því af því að þetta var svo eðlilegt fyrir mér, ég þekkti ekkert annað.“

Ljónsungarnir voru geymdir í vaskahúsinu og voru gæfir eins og hundar. Þeir fengu pela og reglulega hreyfingu. „Við settum hundaól á þá og fórum með þá í göngutúr um Hellisgerði til að viðra þá. Auðvitað yrði þetta ekki gert í dag. Það er svo margt sem maður þarf að skoða út frá þessum tíma. Í dag myndi maður hafa ljón í stærra plássi og maður myndi ekki fara með þau í göngutúr í Hellisgerði.