fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Forsmáður fauti

Stephen greip til óyndisúrræða þegar Rana rak hann á dyr

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 11. febrúar 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stephen Griffiths, Breta um fertugt, var ekki skemmt þegar 35 ára sambýliskona hans, Rana Faruqui, sagðist vera búinn að fá nóg af ofbeldisfullu lundarfari hans og sagði honum að hirða sitt hafurtask og láta sig hverfa. Þau höfðu hist í október 2002, fellt hugi saman og Stephen flutt inn til Rönu, í þorpinu Farnham Common í Buckinghamskíri, skömmu síðar.

Í apríl 2003 stóð sambandið sem sagt á brauðfótum og Rana gaf Stephen reisupassann. Stephen fullyrti að hann ætti húsið og þurfti að fá lögreglu til að taka af honum lyklana. Í ljós kom að hann átti aukasett því hann sást í það minnsta fjórum sinnum fara inn í húsið eftir það.

Áreitni og njósnir

Stephen tók þann pól í hæðina að áreita Rönu í tíma og ótíma og njósna um ferðir hennar. Hann rannsakaði innihald ruslatunnu hennar og tók myndir af henni og bíl hennar.

Til að fá aðgang að Royal Windsor-hestasýningunni, tamningakeppni sem Rana tók þátt í, þóttist hann vera ljósmyndari. Stephen reyndi jafnvel að fá móður Rönu í lið með sér og sýndi henni kynningu í fartölvu sinni; kynningin var hluti af áætlun Stephens til að fá Rönu á ný.

Tilraunir Stephens báru lítinn árangur og skyldi engan undra.

Bremsurör klippt

Rana hafði um sex mánaða skeið ítrekað haft samband við lögreglu vegna ofsókna Stephens. Í síðasta skiptið, 18. júlí 2003, hafði Rana samband við lögregluna og lét vita að bremsurör BMW-bifreiðar hennar hefði verið klippt í sundur. Lögreglan aðhafðist ekkert vegna þess erindis og hálfum mánuði síðar, 2. ágúst, stakk Stephen Rönu til bana á Jennings Farm í Burnham, þar sem hún hafði hest sinn Toby á húsi.

Rana myrt

Rana var að tjóðra hestinn þegar hún sá Stephen nálgast. Umsvifalaust hafði hún samband við Neyðarlínuna og heyrði sá sem svaraði Rönu kalla: „Þér er ekki heimilt að nálgast mig á nokkurn hátt, Steve … Steve láttu mig í friði, láttu mig í friði …“

Skömmu síðar heyrðust örvæntingarfull óp Rönu sem barðist fyrir lífi sínu.

Líkið af Rönu fannst síðar í hrossarétt á Jennings Farm, liggjandi við fætur Tobys.

Leitar til læknis

Fimm dögum eftir morðið leitaði Stephen á náðir lækna. Hann hringdi á sjúkrabíl vegna áverka á úlnliðum og hægri fótlegg. Á sjúkrahúsi í Oxford var blóð sem var á buxum hans sent í rannsókn og niðurstaðan var að það væri úr honum og Rönu. Hann var handtekinn á sjúkrahúsinu.

Réttað var yfir Stephen undir lok árs 2004 og sagði hann að hann hefði viljað „að hún fyndi til sársauka eins og ég“. Ekki var Stephen að ýkja því hann stakk Rönu tólf sinnum; í fótleggi, bak, rasskinnar og hjarta.

Útbúnaður fyrir hrelli

Í kjölfar handtökunnar rannsakaði lögreglan híbýli Stephens á tjaldstæði þar sem hann hafði haldið til. Þar fundust þrír hnífar, sjónauki, sprautur, rottueitur, eitursódi og barefli.

Tvær bækur fundust einnig, The Stalker og Unnatural Death, og teygjubyssa, kúbein, tvær sagir, vinnuvettlingar, öxi og reipi.

Stephen játaði sig sekan um morðið á Rönu og 13. desember, 2004, fékk hann lífstíðardóm og úrskurðað að hann skyldi afplána minnst 12 ár og hálfu betur. Örfáum vikum síðar var dómurinn þyngdur; lágmarksafplánun skyldi verða 16 og hálft ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Fréttir
Rétt í þessu
Forsmáður fauti

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Sjáðu stórkostlegt tilþrif Mbappe í gær

Sjáðu stórkostlegt tilþrif Mbappe í gær
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Læknar hafa áhyggjur af áberandi aukaverkunum Ozempic – Augljóst meðal elítunnar í Hollywood

Læknar hafa áhyggjur af áberandi aukaverkunum Ozempic – Augljóst meðal elítunnar í Hollywood
433
Fyrir 17 klukkutímum

Enska úrvalsdeildin: Liverpool fór langt með að stimpla sig út úr titilbaráttunni – United þurfti að hafa fyrir sigrinum

Enska úrvalsdeildin: Liverpool fór langt með að stimpla sig út úr titilbaráttunni – United þurfti að hafa fyrir sigrinum
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Facebook hafnaði kosningaauglýsingu Guðmundar Felix á undarlegum forsendum

Facebook hafnaði kosningaauglýsingu Guðmundar Felix á undarlegum forsendum