fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024

Frostaveturinn mikli 1918: „Loftið ískalt í orðsins fyllstu merkingu þegar það streymdi yfir Ísland“

Reykvíkingar við hungurmörk – 38 gráðu frost – Bardagar við bjarndýr

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 28. janúar 2018 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Veturinn 1917 til 1918 er kallaður Frostaveturinn mikli og hefur nánast goðsagnakenndan blæ. Heilt yfir var veturinn kaldur en viðurnefnið kom til vegna mikils kuldakasts sem hófst á þrettándanum og stóð yfir í mánuð. DV ræddi við Þór Jakobsson veðurfræðing um hörkurnar sem opnuðu eitt viðburðaríkasta ár Íslandssögunnar.

Ískalt loft streymdi yfir hafísinn

Haustmánuðirnir árið 1917 voru kaldir, mun kaldari en vanalega, og gáfu fyrirheit um það sem var í vændum. Fyrstu dagar ársins 1918 voru þó svikullega mildir. Þann 6. janúar hófst síðan hið mikla kuldakast. Þór segir: „Norðanátt hafði ríkt lengi en um þetta leyti var mjög mikill hafís í Grænlandssundi og þar fyrir norðan, við Austur-Grænland og Svalbarða og þar austur af í Barentshafi. Loftið var því ískalt í orðsins fyllstu merkingu þegar það streymdi yfir Ísland og með norðanáttinni kom svo þessi mikli hafís til landsins.“

Kuldakastið varði þó ekki allan veturinn, heldur aðeins í þrjár vikur sunnanlands og fjórar norðanlands. „Norðanátt var ríkjandi í aðdraganda kuldakastsins en það sljákkaði í raun fljótt í henni strax í febrúar.“ Þór segir að varasöm stórviðri hafi ekki fylgt kastinu en mikil fannkoma. Yfir landinu öllu var háþrýstisvæði og því veðurfar almennt stillt.

„Kannski er best að sleppa lýsingarorðunum og láta nægja að tala um Frostaveturinn 1881 og Frostaveturinn 1918“
Þór Jakobsson „Kannski er best að sleppa lýsingarorðunum og láta nægja að tala um Frostaveturinn 1881 og Frostaveturinn 1918“

Þann 21. janúar gekk Sigurður Kristjánsson bóndi á Grímsstöðum á Fjöllum út til að aðgæta hitastigið. Sýndi mælirinn þá 37,9 gráðu frost sem var Íslandsmet og hefur ekki verið slegið síðan. Reyndar eru áhöld uppi um hvort lægri hiti hafi mælst á Möðrudal sama dag, 38 gráður, en bóndinn þar hafði ekki jafn fullkomin mælitæki. Síðan þá hefur hitastig aldrei farið undir 35 gráðu frost, kaldast við Mývatn 7. mars árið 1998, 34,7 gráður í mínus.

Þór bendir á að hugtakið „Frostaveturinn mikli“ hefði fram að þessu verið notað um veturinn 1880 til 1881 sem var fimbulkaldur og mikill hafísvetur. Eftir 1918 hafi lýsingarorðið „mikli“ færst yfir. „Kannski er best að sleppa lýsingarorðunum og láta nægja að tala um Frostaveturinn 1881 og Frostaveturinn 1918. Fyrr á tímum fundu menn upp á því að kalla eftirminnilega vetur ýmsum nöfnum, eins og Lurk, Lurkavetur eða Þjóf sem eru nöfn á harðindavetrinum 1600 til 1601, einhverjum harðasta vetri sem hefur dunið yfir hér á landi.“

Við hungurmörk

Þrátt fyrir þetta mikla frost er ekki vitað til þess að neinn hafi dáið beinlínis vegna þess. „Til allrar hamingju varð enginn úti og mér er ekki kunnugt um að slys hafi orðið á mönnum. Þurfti þó að leggja ýmislegt á sig. Til dæmis urðu skip innlyksa í ísnum og og skipverjar lentu í basli.“

Þessi miklu frost höfðu vitaskuld mikil áhrif á landsmenn. Eldsneytisskortur til húshitunar var sérstaklega mikið vandamál. Heimsstyrjöldin orsakaði skort á eldiviði og sá sem kom hingað var seldur á uppsprengdu verði, eins og stendur í dagblaðinu Fram 2. febrúar, „til lítils sóma fyrir þá sem verðleggja.“ Íslendingar gripu til þess ráðs að taka mó en tekjan gekk jafnan illa og var mónum oft stolið.

Á þessum árum var kreppuástand á Íslandi og þá sérstaklega í Reykjavík. Atvinnuleysi, húsnæðisskortur og matarskortur var viðvarandi vandamál. Dreifa þurfti máltíðum í hundraðatali í Reykjavík til að forða bænum frá hungursneyð. Fólk gat ekki veitt sér til matar vegna hafíssins. Slökkt var á gasluktum og vatnsleiðslur sprungu vegna frostanna. Áhrif vetrarins komu betur í ljós á landsbyggðinni þegar þiðnaði um vorið því að þá voru túnin mjög illa farin eftir frostið og tekjur mjög slæmar um sumarið.

Æsileg rimma við bjarndýr

Nú til dags koma ísbirnir hingað til lands með hafís á nokkurra ára fresti. Eru þeir þá jafnan eltir uppi og skotnir og sitt sýnist hverjum um það. Skrásettar hafa verið um 250 komur ísbjarna hér á landi frá því að land byggðist, 27 af þeim frostaveturinn mikla árið 1918 þegar hafísinn veitti þeim greiðan aðgang að landinu. Reyndar komu talsvert fleiri veturinn 1880 til 1881, eða 63 talsins.

„Þau hafa skamma stund á bænum dvalið er þau sjá bangsa stinga hausnum út um rúðu á glugga“

Að mæta bjarndýri gat verið stórhættulegt eins og dæmi Kristjáns Jónssonar, bóndans á Eldjárnsstöðum á Langanesi, sýnir. Morguninn 18. janúar 1918 gekk hann til brunns eftir vatni nokkurn spöl frá bænum og sá þá hvíta skepnu sem hann taldi vera stóra kind. Þegar hann kom að stóð dýrið upp og reyndist vera ísbjörn og tók bóndi þá á rás og dýrið á eftir. Kristján hljóp æpandi inn í bæinn en náði ekki að loka á eftir sér og bjarndýrið fylgdi á eftir. En þá komu tveir heimilishundar aðvífandi og beindist athygli bjarndýrsins að þeim og bóndi komst undan og inn hliðargang að baðstofunni.

Bardagi bjarndýrsins og hundanna tveggja barst nú inn annan hliðargang sem lá að heimili annarrar fjölskyldu þar sem ein stúlka var inni. Þegar bardagaskepnurnar brutust þar inn náði hún að komast upp á loft og yfir til Kristjáns. Hlupu þau í útihús og létu alla vita af birninum og fóru þá allir upp á þak bæjarins. Í Morgunblaðinu segir: „Þau hafa skamma stund á bænum dvalið er þau sjá bangsa stinga hausnum út um rúðu á glugga.“ Hófst þá mikill ærslagangur og barningur og einn hundurinn varð birninum að bráð. Náði einn mannanna loks að skjóta björninn í höfuðið þar sem hann sat og át hundinn.

Ekki mögulegt í dag

Þór segir að veturinn eftir hafi verið nokkuð kaldur en langtum bærilegri og á engan hátt sögulegur. Eins og áður segir hefur viðlíka kuldakast ekki komið síðan. Þór segir ekki mögulegt að viðlíka kuldakast geti komið við núverandi aðstæður. „Það vill svo til að hafísinn við Austur-Grænland, í Barentshafi fyrir austan Svalbarða og yfirleitt í Norður-Íshafi hefur minnkað mikið síðustu tvo áratugina og ískalt loft yfir ísbreiðunum nær að hitna yfir auðu hafinu leggi það leið sína suður til Íslands. Það yrði aldrei jafn ægilega kalt og árið fræga 1918 og hafísinn yrði ekki jafn ágengur við strendur Íslands og þá.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Píratar vilja Útlendingastofnun feiga

Píratar vilja Útlendingastofnun feiga
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Alræmdur glæpamaður laus undan bagga fortíðar í augum dómara -„Ég skal berja og lemja þig alveg eins og harðfisk“

Alræmdur glæpamaður laus undan bagga fortíðar í augum dómara -„Ég skal berja og lemja þig alveg eins og harðfisk“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Mbappe kveikti bál í Katalóníu eftir leik – 60 manns tókust á

Mbappe kveikti bál í Katalóníu eftir leik – 60 manns tókust á