Stefnumót endaði með ósköpum

Gæti verið í slæmum málum eftir að hafa gengið berserksgang á heimili lögfræðingsins Anthony Buzbee.
Lindy Lou Gæti verið í slæmum málum eftir að hafa gengið berserksgang á heimili lögfræðingsins Anthony Buzbee.

Líklega mun Anthony Buzbee, lögfræðingur í Houston í Bandaríkjunum, hugsa sig tvisvar um áður en hann fer aftur á stefnumót með hinni 29 ára Lindy Lou Layman. Anthony og Lindy fóru á stefnumót á dögunum og er óhætt að segja að það hafi endað með ósköpum.

Það var að kvöldi 30. desember að Anthony og Lindy hittust. Svo virðist vera sem Lindy hafi fengið sér aðeins of mikið að drekka þetta örlagaríka kvöld en þau ákváðu engu að síður að fara heim til Anthony. Þegar þangað var komið taldi Anthony best væri að hún myndi koma sér heim vegna ástands síns og pantaði hann bíl frá Uber til að sækja hana.

Í frétt Houston Chronicle kemur fram að eitthvað hafi orðið til þess að Lindy neitaði að fara og faldi hún sig í íbúð hans. Anthony var hins vegar ekki lengi að finna hana og hringdi aftur eftir bíl. Þá er Lindy sögð hafa orðið árásargjörn og gekk hún hreinlega berserksgang í íbúð hans. Reif hún meðal annars niður listaverk af veggjum, þar af tvö eftir Andy Warhol sem metin eru á fleiri tugi milljóna króna. Þá reif hún niður verk eftir Monet og Renoir en verkin skemmdust þó sem betur fer ekki.

Talið er að tjónið nemi þó minnst 30 milljónum króna. Fari allt á versta veg fyrir Lindy gæti hún átt lífstíðarfangelsi yfir höfði sér þó það þyki ólíklegt. Henni var sleppt gegn 30 þúsund dala tryggingu.

Sjálfur segir Anthony að hann hafi ósjaldan haldið gleðskap á heimili sínu þar sem gestir fá sér aðeins of mikið í tána. Flestir fari þó séu þeir á annað borð beðnir um það. Það hafi Lindy hreint ekki gert.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.