fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Morð mæðgnanna

Diane þoldi ekki fjölskyldu sína – Hún dró dóttur sína inn í banvænt ráðabrugg

Kolbeinn Þorsteinsson
Sunnudaginn 10. september 2017 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Diane og Mark Staudte höfðu verið gift í aldarfjórðung og gott betur. Á sameiginlegri vegferð sinni höfðu þau eignast einn son, Shaun, og þrjár dætur, Söruh og Rachel og eina að auki, ónafngreinda hér sökum aldurs, sem öll bjuggu hjá foreldrum sínum í Springfield í Missouri í Bandaríkjunum. 

Þegar saga þessi hefst, árið 2012, var Shaun 26 ára, Sarah 27 ára og Rachel 25 ára. Mark, eiginmaður Diönu, var 61 árs og hún sjálf 51 árs. Nú hvað sem aldri þeirra líður þá var Diane, sem var kirkjurækin með afbrigðum, búin að fá nóg af fjölskyldu sinni.

Rachel aðstoðaði móður sína við voðaverkin.
Hjálpsama dóttirin Rachel aðstoðaði móður sína við voðaverkin.

Allt ómögulegt

Það var eins allt færi í taugarnar á Diane. Ekki aðeins hafði ást hennar til Marks breyst í hatur heldur voru börnin og það sem að þeim sneri eitur í beinum hennar. 

Til dæmis var Sarah útskrifuð úr háskóla en, að mati Diönu, lagði hún engan veginn nógu mikið á sig til að finna starf til að geta greitt niður námslánin. Shaun var félagsfælinn og taldi Diane hann „verri en plágu“.

Mark var atvinnulaus og Diane, sem vann við heilsugæslu, einfaldlega hataði hann og ekki bætti úr skák að hann eyddi tíma sínum í að spila með blúshljómsveit.

Morðvopn valið

Diana fékk hugmynd sem myndi leysa öll hennar vandamál – að grisja fjölskyldu sína – en hún þurfti aðstoð til að hrinda áformum sínum í framkvæmd. Merkilegt nokk þá tókst henni að tala Rachel á að taka þátt í ráðabrugginu.

Saman vöfruðu þær mæðgur um netheima og könnuðu skipulega hinar ýmsu leiðir til að fremja morð og, ekki síður, komast upp með það.

Niðurstaðan varð að nota frostlög sem auðvelt væri að lauma í sykraða drykki. Neysla frostlagar veldur því að verulega hægir á starfsemi miðtaugakerfisins og hafði rannsókn mæðgnanna leitt í ljós að við líkskoðun var sjaldan kannað hvort frostlögur hefði komið við sögu.

Banvænn íþróttadrykkur

Mæðgurnar hófust handa þegar leið að apríl 2012 og varð Mark fyrsta fórnarlamb þeirra. Þær blönduðu frostlegi í Gatorade-íþróttadrykkinn hans sem hann síðan drakk grunlaus. Með tíð og tíma veiktist Mark og þann 8. apríl andaðist hann á heimili fjölskyldunnar.

Þegar bráðaliðar komu á heimilið sagði Diane þeim að Mark hefði verið veikur en með öllu aftekið að leita til læknis. Þennan dag, sagði Diane, hefði Mark fengið þrjú krampaköst – það hefði aldrei gerst áður. Dauði marks var úrskurðaður af eðlilegum orsökum og þess vegna óþarfi að kryfja líkið.

Líkið var brennt og Diane var í sjöunda himni. Eftir því var tekið í erfidrykkjunni að lítið fór fyrir sorg hjá ekkjunni en þeim mun meira áhyggjum yfir veitingum.

Nýtt heimili, nýtt fórnarlamb

Fjölskyldan flutti og Diane fékk augastað á næsta fórnarlambi. Fyrir valinu varð Shaun og með aðstoð Rachel var frostlegi blandað í gosdrykki hans. Fimm mánuðum eftir dauða Marks var Shaun allur.

Móðir hans sagði að hann hefði glímt við veikindi í gegnum tíðina. Hann hefði fengið krampaköst og stundum andnauð. Í kjölfar krufningar var dauði hans sagður af eðlilegum orsökum og móðir hans lét brenna líkið með hraði.

Mæðgurnar höfðu tvo mannslíf á samviskunni og enn höfðu ekki vaknað grunsemdir.

Diane og Mark með Shaun á milli sín.
Þegar allt lék í lyndi Diane og Mark með Shaun á milli sín.

Lögreglan fær ábendingu

Liðu nú níu mánuðir. Í júní 2013 var Sarah flutt á sjúkrahús eftir að hafa verið alvarlega veik í fjóra daga. Sarah var sett á gjörgæsludeild og fylgst náið með henni, enda gat brugðið til beggja vona um hvort hún lifði eða dæi.
Diana sýndi af sér bjartsýni og virtist hafa mestar áhyggjur af því að ástand Söruh hefði áhrif á væntanlegt frí fjölskyldunnar á Flórída.

Um þetta leyti fékk lögreglan ábendingu um að það væri ráð að kíkja nánar á Staudte-fjölskylduna, enda ekki eðlilegt að tveir fjölskyldumeðlimir væru dánir og sá þriðji berðist fyrir lífi sínu. Í samtölum sínum við starfsfólk sjúkrahússins komst lögreglan að því að Diane hefði ekki viðrað miklar áhyggjur af dóttur sinni og enn fremur að lækna grunaði að eitrað hefði verið fyrir Söruh.

Mæðgurnar handteknar

Læknaskrár Marks og Shauns voru skoðaðar og blóð sem hafði verið tekið úr Shaun við krufningu rannsakað og fannst frostlögur í því.

Diane var handtekin og bar af sér allar sakir í upphafi, en viðurkenndi að lokum að hafa eitrað fyrir Mark, Shaun og Söruh. Diane lagði á það áherslu að hún hefði verið ein að verki.

Rachel var einnig yfirheyrð og viðurkenndi sinn hlut í málinu. Í veski hennar fann lögreglan ljóð og var ein línan svohljóðandi: „Aðeins hin hljóðu verða eftir, mamma mín, litla systir mín og ég.“

Diane og Rachel voru báðar ákærðar. Yngstu dótturinni var komið fyrir á fósturheimili og Söruh, sem lifði af, var komið fyrir á vistheimili fyrir heilaskaddað fólk.
Til að gera langa sögu stutta þá fékk Diane lífstíðardóm, án möguleika á reynslulausn, í janúar 2016 og Rachel fékk tvöfaldan lífstíðardóm og tuttugu ár að auki í mars 2016. Hún getur sótt um reynslulausn eftir 41 ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

433Sport
Rétt í þessu
Morð mæðgnanna

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra
Eyjan
Fyrir 2 klukkutímum

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Högg í maga enskra stórliða

Högg í maga enskra stórliða
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Enska úrvalsdeildin segir skilið við það sem Klopp hefur talað fyrir

Enska úrvalsdeildin segir skilið við það sem Klopp hefur talað fyrir
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Þetta er ástæðan fyrir að þú átt ekki að nota símann þegar þú ert á klósettinu

Þetta er ástæðan fyrir að þú átt ekki að nota símann þegar þú ert á klósettinu
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Norski áhrifavaldurinn nú komin með athyglisverðan titil – Sjáðu nýjustu myndir hennar

Norski áhrifavaldurinn nú komin með athyglisverðan titil – Sjáðu nýjustu myndir hennar
Pressan
Fyrir 15 klukkutímum

Rúllaði Braga í bankann og vildi taka út pening – Óhugnanlegt atvik endaði með handtöku

Rúllaði Braga í bankann og vildi taka út pening – Óhugnanlegt atvik endaði með handtöku
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Eftir vonbrigðin í gær telja æðstu menn hjá Arsenal að þetta vanti

Eftir vonbrigðin í gær telja æðstu menn hjá Arsenal að þetta vanti