Morðið á Grégory litla: Loksins komin hreyfing á 30 ára gamalt óupplýst sakamál

Afbrýðisemi, öfund og blóðug hefnd - Hver drap Grégory litla?

Grégory var fjögurra ára þegar hann hvarf sporlaust frá heimili sínu í Lépanges-sur-Vologne. Síðar um kvöldið fannst hann látinn.
Myrtur Grégory var fjögurra ára þegar hann hvarf sporlaust frá heimili sínu í Lépanges-sur-Vologne. Síðar um kvöldið fannst hann látinn.

Síðdegis þann 16. október árið 1984 hvarf fjögurra ára drengur, Grégory, sporlaust frá heimili sínu í þorpinu Lépanges-sur-Vologne í austurhluta Frakklands. Móðir hans, Christine Villemin, hafði verið inni að strauja þvottinn á meðan Grégory lék sér utandyra. Þegar Christine fór að gá að syni sínum vaknaði hún upp við vondan draum. Grégory var á bak og burt og hvergi sjáanlegur.

Þetta var aðeins byrjunin á einu eftirminnilegasta óupplýsta sakamáli Frakklands. Síðar þetta sama kvöld fannst lík Grégory. Þó að líkið hafi fundist snemma gekk lögreglu bölvanlega við rannsókn málsins. Þrjátíu ár liðu og flestir töldu að lögreglu myndi aldrei takast að leysa málið. Það var svo í sumar að hreyfing komst á málið þegar lögregla handtók nokkra einstaklinga vegna gruns um að valda dauða Grégory litla.

Breska blaðið Guardian rifjaði upp þetta óhugnanlega mál á vef sínum í dag.

Grunur féll á föðurfjölskylduna

Þar kemur fram að strax í upphafi grunur fallið á föðurfjölskyldu Grégorys. Faðir hans, Jean-Marie, hafði þremur árum áður fengið stöðuhækkun og gerður að verkstjóra í verksmiðju sem framleiddi varahluti í bíla. Faðir Jean-Marie, bræður hans, frænkur og frændur, bjuggu í næsta nágrenni, en strax eftir stöðuhækkunina fór að bera á afbrýðisemi hjá einhverjum í föðurfjölskyldunni að því er virðist.

Jean-Marie og Christine fengu nafnlaus símtöl og hótanir frá einhverjum sem virtist þekkja vel til fjölskyldunnar. Bjó sá sem hringdi yfir slíkum upplýsingum að útilokað væri annað en að um náinn fjölskyldumeðlim væri að ræða. Hjónin höfðu samband við lögreglu sem bað um að þau tækju hótanirnar upp á segulband. Fljótlega eftir það hættu símtölin.

Málið reyndist Christine og Jean-Marie ákaflega erfitt. Christine var grunuð um morðið á meðan Jean-Marie skaut frænda sinn til bana, manninn sem hann grunaði um að hafa myrt son sinn.
Vongóð Málið reyndist Christine og Jean-Marie ákaflega erfitt. Christine var grunuð um morðið á meðan Jean-Marie skaut frænda sinn til bana, manninn sem hann grunaði um að hafa myrt son sinn.

Þrátt fyrir þetta hættu hótanirnar og áreitið ekki. Nafnlaus bréf fóru að berast inn á heimili fjölskyldunnar þar sem Jean-Marie, eða „stjóranum“ eins og hann var jafnan ávarpaður, var hótað. „Ég hata þig svo mikið. Daginn sem þú deyrð mun ég hrækja á gröf þína,“ sagði í einu bréfinu. Ljótasta bréfið kom daginn eftir að Grégory fannst látinn. „Ég vona að þú deyir úr sorg, stjóri. Peningarnir þínir munu ekki duga til að koma syni þínum aftur til þín. Þetta er mín hefnd, drullusokkurinn þinn.“

Rannsóknin harðlega gagnrýnd

Rannsókn málsins og meðferð þess hjá lögreglu var gagnrýnd talsvert á sínum tíma. Jean-Michel Lambert, 32 ára fulltrúi innan lögreglu fór fyrir rannsókninni, og gerði mistök strax á fyrstu stigum hennar; hugsanleg sönnunargögn glötuðust og þá fór ekki fram krufning á líki piltsins.

Þrátt fyrir þetta var Bernard Laroche, frændi Jean-Marie, handtekinn í nóvember 1984 vegna málsins. Sérfræðingar innan lögreglu töldu fullsannað að rithönd hans væri að finna á tveimur þeirra hótunarbréfa sem bárust inn á heimili hjónanna. Mágkona hans, hin fimmtán ára gamla Bolle, sagði lögreglu að hún hefði verið með Bernard þegar hann sótti Grégory þennan örlagaríka dag. Hann hefði ekið honum að á einni, skammt frá heimili piltsins, og komið aftur einn. Tveimur dögum síðar dró Bolle framburð sinn til baka og þá taldi Lambert sig ekki hafa nægar sannanir í höndunum fyrst vitnisburður Bolle var fyrir bí. Lambert fyrirskipaði að Bernard skyldi sleppt.

Grunur féll á Christine

Rannsókn málsins hélt áfram en eitthvað varð til þess að Lambert grunaði móður Grégory, Christine, um að myrða drenginn. Þrjú vitni sögðust hafa séð Christine á pósthúsi þorpsins daginn áður en Grégory lést, en þann sama dag var einmitt eitt hótunarbréfanna sett í póst. Sérfræðingar lögreglu töldu 80% líkur á að Christine hefði skrifað bréfið, en þetta og fleira til varð til þess að Lambert grunaði Christine um morðið.

Á þessum tímapunkti virðist faðir Grégory, Jean-Marie, hafa verið búinn að fá sig fullsaddan af málinu. Hann hafði hótað því að drepa frænda sinn, fyrrnefndan Bernard sem hafði verið sakaður um morðið en sleppt. Hann lét verða af hótun sinni, náði í veiðiriffil sinn og skaut Bernard til bana. Hann gaf sig strax fram við lögreglu og sat í fangelsi allt til ársins 1987 að honum var sleppt. Á sama tíma var Christine ákærð vegna málsins í júlí 1985, en henni var síðan sleppt eftir að hafa farið í ellefu daga hungurverkfall. Þrátt fyrir að hafa verið sleppt var Christine ekki hreinsuð af ásökununum fyrr en átta árum síðar, eða árið 1993.

Hreyfing kemst á málið

Rannsókn málsins var formlega hætt árið 2001, en árin 2008 og 2010 hófst rannsókn aftur án þess að nokkrar handbærar nýjar upplýsingar kæmu fram. Árið 2004 var hjónunum, Christine og Jean-Marie, dæmdar bætur vegna glappaskota lögreglu við rannsókn málsins. Það var svo í sumar að hreyfing kom loks á málið og leiddi rannsókn lögreglu til þess að ákæra hefur nú verið gefin út á hendur frænda og frænku Grégory litla, Marcel og Jacqueline Jacob, 72 og 73 ára. Þá var Bolle, sem var fimmtán ára þegar morðið var framið, einnig ákærð vegna gruns um að tengjast málinu.

Lögregla fór yfir ógrynni af gögnum við rannsóknina og skoðað meðal annars tvö þúsund handskrifuð bréf auk þess að hlusta á gamlar hljóðupptökur þar sem Jean-Marie var hótað. Telur lögregla að Marcel og Jacqueline hafi verið á bak við bréfaskriftirnar, en ekki þykir útilokað að Bernard, sem faðir Grégorys skaut til bana, hafi einnig tengst málinu og jafnvel orðið drengnum að bana. Þá voru yfir hundrað vitni yfirheyrð. Lögmaður Marcel og Jacqueline segir að þau neiti sök og þau tengist þessu hryllilega máli ekki á neinn hátt. Lögregla búi ekki yfir neinum handbærum sönnunum gegn þeim. Að sama skapi segir lögmaður Christine og Jean-Marie að hjónin séu vongóð um að morðingi sonar þeirra hljóti senn makleg málagjöld.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.