Miðill rukkaði eldri mann um fleiri milljónir fyrir að losa hann við illa anda

Á yfir höfði sér ákæru fyrir fjársvik.
Sally Wando Á yfir höfði sér ákæru fyrir fjársvik.

Lögreglan í New Jersey í Bandaríkjunum rannsakar nú mál konu og sonar hennar, en mæðginin eru sökuð um að hafa eldri mann að féþúfu.

Forsaga málsins er sú að konan, Sally Wando, sem starfar sem miðill, bauðst til að aðstoða manninn við að „hreinsa sál hans“. Fyrsta stig meðferðarinnar átti að kosta fimm þúsund Bandaríkjadali, rúma hálfa milljón króna, og mælti Sally síðan með því að maðurinn keypti sér þrepaskipta meðferð, alls fjórtán skipti, sem kostaði samtals tæpa 150 þúsund Bandaríkjadali, tæpar sextán milljónir króna.

Sally bað manninn síðan að millifæra peningana inn á reikning í eigu sonar hennar sem rekur bílasölu. Í frétt AP, sem fjallar um málið, kemur fram að mæðginin neiti sök og peningarnir hafi verið millifærðir inn á reikning sonarins vegna bílaviðskipta. Lögregla tekur þær skýringar ekki trúanlegar og eiga Sally og sonur hennar meðal annars yfir höfði sér ákæru fyrir fjársvik.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.