Sex ára fangelsi eftir óheppilegt atvik á strippstað

Var dæmdur í sex og hálfs árs fangelsi vegna málsins.
Rorn Sorn Var dæmdur í sex og hálfs árs fangelsi vegna málsins.

Hinn þrjátíu og fjögurra ára gamli Rorn Sorn, karlmaður í Flórída í Bandaríkjunum, þarf að dúsa í fangelsi næsta sex og hálfa árið eftir óheppilegt atvik á salerni strippstaðar í desember síðastliðnum.

Málavextir voru þeir að Sorn var staddur inni á salerni staðarins þegar hann hugðist taka sjálfsmynd, eða svokallaða selfí. Sorn var vopnaður skammbyssu en eitthvað varð til þess að skot hljóp úr byssunni og í vegginn. Kúlan fór í gegnum vegginn og endaði inni á kvennasalerninu.

Enginn slasaðist í atvikinu en þar sem Sorn hafði ekki skotvopnaleyfi, í ljósi þess að hann hafði áður verið dæmdur fyrir ofbeldisbrot, var hann sakfelldur fyrir ólöglegan vopnaburð. Sú staðreynd að skot hljóp úr byssunni var ekki til að hjálpa málstað hans.

Í frétt AP kemur fram að atvikið hafi átt sér stað á strippstaðnum Lust í St. Petersburg. Öryggisvörður handsamaði Sorn þegar hann var á leið út af staðnum og kom lögreglan í kjölfarið. Við leit á honum fannst skammbyssa, byssukúlur og fíkniefni. Sorn þessi hefur áður hlotið dóm fyrir innbrot og tilraun til manndráps.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.