10 raðmorðingjar sem ganga lausir

Bjórmaðurinn - Broskallamorðinginn - Manchester hrindarinn

Myrti vændiskonur í Ítalíu
Bartolomeo Gagliano Myrti vændiskonur í Ítalíu
Mynd: EPA

Lögregluyfirvöld víðs vegar um heim standa á gati yfir þessum málum sem sum hafa verið óleyst um áratuga skeið.

Manchester hrindarinn

Síðan árið 2007 hafa 85 lík fundist í á sem rennur nálægt næturklúbbum samkynhneigðra í Manchester borg. Mörg af þessum dauðsföllum eru sennilega sjálfsvíg en önnur eru óútskýrð og grunsamleg. Því grunar marga að raðmorðingi gangi laus í borginni sem ýti fólki út í ánna. Sér í lagi samkynhneigðum karlmönnum.

Næturhrellirinn

Ekki næturhrellirinn Richard Ramirez sem náðist árið 1985. Þessi ófundni hrellir myrti 12 manns og nauðgaði um 50 konum í Kaliforníu á árunum 1978-1986. Flest fórnarlömbin fundust á heimilum sínum. Óvíst er hvort næturhrellirinn sé enn á lífi en alríkislögreglan (FBI) leitar enn að honum og heitir fundarlaunum. Lögreglan hefur haft nokkra menn grunaða í gegnum tíðina en rannsóknin hefur ekki borið árangur.

Long Island morðinginn

Í desember árið 2010 fundust 4 lík af vændiskonum í strigapokum á strönd nálægt New York borg. Nokkrum mánuðum síðar fundust 6 lík til viðbótar á svæðinu, þar af 2 af smábörnum, sem talin eru verk sama morðingja. Líkin voru bútuð niður og af sumum fórnarlömbunum fundust aðeins líkamsleifar. Lögreglan hefur litlar sem engar upplýsingar um gerandann en grunar að um hvítan mann, ekki eldri en fimmtugan,sé að ræða. 7 önnur lík sem gætust tengst málinu hafa einnig fundist.

Edgecombe morðinginn

10 konur af afrískum uppruna hafa verið myrtar í Edgecombe sýslu í Norður Karólínu frá árinu 2005. Öll fórnarlömbin áttu við fíkniefnavandamál að stríða og voru í vændi. Árið 2011 var maður að nafni Antwan Pittman handtekinn og dæmdur fyrir morðið á einni stúlkunni. Lögreglan er þó óviss hvort hann hafi myrt hinar.

Skrímslið í Andes fjöllunum

Pedro Lopez myrti og nauðgaði hundruðum kvenna í Kólumbíu, Perú og Ekúador um margra ára skeið. Þegar hann var handtekinn árið 1980 viðurkenndi hann að fjöldi fórnarlambanna væri yfir 300. Hann sat þó aðeins inni í 14 ár og var á geðsjúkrahúsi í 3 ár eftir það. Árið 1998 var honum sleppt og óvíst er hvar hann heldur sig ef hann er á lífi. Hann er grunaður um að hafa haldið áfram fyrri iðju sinni.

Bjórmaðurinn

Árin 2006 og 2007 fundust 7 lík í indversku borginni Mumbai, öll með bjórflösku sér við hlið. Árið 2008 var Randvira Kantrole sakfelldur fyrir eitt af þessum morðum. Lögreglan reyndi að tengja hann við hin morðin en tókst ekki. Málin eru því enn óleyst.

Drápsvellirnir í Texas

Um 30 stúlkur á aldrinum 10 til 25 ára og ein kona á sextugsaldri hafa fundist nálægt Calder olíuvinnslustöðinni í Texas, síðan árið 1971 og nokkurra stúlkna er enn saknað. Flestar fundust þær nærri vatni og því er talið að um sama morðingja sé að ræða í flestum tilvikum. Tveir karlmenn hafa verið grunaðir um verknaðinn. Annars vegar Edward H. Bell sem játaði 11 morð en var ekki sakfelldur. Hins vegar Kevin E. Smith sem var sakfelldur fyrir 1 morð árið 2012.

Valentínusardagsmorðinginn

Hinn ítalski Bartolomeo Gagliano myrti vændiskonu seint á níunda áratugnum. Hann var úrskurðaður andlega vanheill og vistaður á réttargeðdeild en slapp og myrti tvær vændiskonur til viðbótar áður en hann náðist aftur. Um jólin árið 2013 fékk hann leyfi af geðdeildinni til þess að heimsækja aldraða móður sína en skilaði sér ekki aftur til baka. Ítalska lögreglan leitar hans og telur hann mjög hættulegan.

Broskallamorðinginn

Á 10 ára tímabili frá miðjum tíunda áratugnum fram til 2008 hafa fundist 45 lík ungra karlmanna í 11 fylkjum Bandaríkjanna. Allir mennirnir höfðu setið að sumbli fyrr um kvöldið og öll líkin fundust í vatni. Tveir lögreglumenn hafa rannsakað málin og grunar að um raðmorðingja sé að ræða því að nálægt líkfundarstöðunum hafa fundist spreyjaðir broskallar. Ekki eru allir jafn sannfærðir um þessa kenningu því að dauðsföllin gætu verið slys og broskallarnir tilviljun.

Grýtarinn í Mumbai og Kalkútta

Óvíst er hvort um sama manninn sé að ræða eða eftirhermumál. Gerendurnir gætu einnig verið fleiri en einn í báðum tilfellum. Á árunum 1985 til 1987 voru 12 fórnarlömb myrt í Mumbai með grjóti eða steinhellum. Morðinginn fann fólk sem svaf undir berum himni og kramdi höfuð þeirra. Sumarið 1989 voru 13 manns myrt í Kalkútta með sömu aðferð. Fórnarlömbin gætu verið fleiri en lögreglan er engu nær um gerandann eða gerendurna.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.