fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024

Erjur milli nágranna enduðu með dauða

George þoldi ekki hávaðann – Útbjó hættulegt eitur – Leynilögreglumaður kom upp um hann

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 8. maí 2017 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Snemma árs 1988 ákváðu hjónin Parealyn og Peggy Carr að flytja saman inn í reisulegt einbýlishús í bænum Alturas í Flórída, hús sem Parealyn átti og hafði búið í í nokkur ár. Þau höfðu gengið í hjónaband nokkrum mánuðum áður og áttu bæði börn úr fyrri samböndum sem bjuggu með þeim. Þetta átti að vera hinn fullkomni staður fyrir fjölskylduna enda var Alturas lítill og rólegur bær.

Um leið og Peggy flutti inn til eiginmanns síns ásamt börnum sínum tveimur, sem líkt og börn Parealyn voru komin á unglings- og fullorðinsár, tóku nágrannar þeirra vel á móti þeim. George Trepal og kona hans, Diana, höfðu átt heima í húsinu við hliðina í nokkur ár. Þau virtust nokkuð viðkunnanleg í fyrstu; Diana var bæklunarskurðlæknir en George var hlédrægur og mikill áhugamaður um vísindi og tækni. Þau virtust kunna vel við rólegheitin í Alturas og héldu sig mikið til hlés.

Ósátt við hávaða

Fljótlega eftir að Peggy flutti inn fór að bera á kvörtunum frá hinum nýju nágrönnum sem voru ósáttir við mikinn hávaða sem kom frá heimili grannanna; unglingarnir höfðu gaman af því að spila tónlist og leika sér úti við og þessu voru George og Diana óvön. Í nokkur skipti kastaðist í kekki milli nágrannanna án þess að til handalögmála kæmi. Skömmu eftir þetta, um sumarið, barst Carr-fjölskyldunni dularfullt bréf sem innihélt hótun: „Þú og fjölskylda þín hafið tvær vikur til að flytja frá Flórída, annars deyið þið. Þetta er ekki grín.“

„Þú og fjölskylda þín hafið tvær vikur til að flytja frá Flórída, annars deyið þið. Þetta er ekki grín.“

Skyndileg veikindi

Carr-fjölskyldan varð skiljanlega hvekkt vegna bréfsins en brást þó ekki sérstaklega við. Víkur nú sögunni að haustmánuðum 1988, nánar tiltekið október það ár, þegar Peggy veiktist hastarlega. Hún þjáðist af brjóstverkjum, ógleði og doðatilfinningu í höndum og fótum. Hún var flutt á sjúkrahús þar sem hún dvaldi í nokkra daga áður en hún var send heim aftur. En ástandið batnaði ekki, heldur hélt það áfram að versna þegar heim var komið. Uppköst, lystarleysi, hárlos og stingandi sársauki í liðum fór að gera vart við sig.

Það sem vakti einna mesta athygli var sú staðreynd að Peggy var ekki sú eina í fjölskyldunni sem varð veik. Duane Dubberly, 17 ára sonur hennar, og Travis Carr, 16 ára stjúpsonur hennar, veiktust einnig. Rannsóknir lækna leiddu í ljós að þremenningarnir höfðu innbyrt eitur; þallín sem getur reynst afar banvænt, jafnvel í mjög litlum skömmtum.

Dó skelfilegum dauðdaga.
Peggy Carr Dó skelfilegum dauðdaga.

Þallín í kókflöskum

Ástand Peggy hélt áfram að versna og áður en yfir lauk sofnaði hún og lá í dauðadái í öndunarvél í fjóra mánuði. Læknar töldu engar líkur á að hún myndi jafna sig og svo fór að hún lést þann 3. mars árið 1989. Duane og Travis náðu aftur á móti bata þótt það hefði tekið þá fleiri mánuði að ná fyrri styrk.

Um leið og eitrunin var staðfest hóf lögregla rannsókn málsins af fullum krafti. Í ljós kom að þallín hafði ratað í kókflöskur sem fundust inni á heimilinu. Hvaðan kókflöskurnar komu vissi enginn og í fyrstu lék grunur á að Parealyn hefði komið eitrinu fyrir til að losna við eiginkonu sína. Parealyn þvertók fyrir þetta og þótt lögregla vissi að einhver hefði eitrað fyrir fjölskyldunni gekk henni illa að finna ástæðu. Hjónin voru vel liðin og áttu enga óvini svo vitað væri.

Dularfullt atvik rifjast upp

Lögregla dró þá ályktun að einhver í hinum 600 íbúa bæ hefði eitrað fyrir fjölskyldunni. Parealyn hafði rifjað upp atvik í samtali við lögreglu, sem átti sér stað nokkrum árum fyrr, og varðaði dularfullan dauða tveggja hunda sem hann átti. Báðir veiktust illa, misstu hár úr feldi sínum og drápust skömmu síðar. Parealyn sagði að þetta hefði gerst skömmu eftir að George kvartaði undan því að hundarnir hefðu elt ketti í hans eigu.

Lögreglan fór að kanna þennan dularfulla nágranna betur og rannsókn á forsögu hans leiddi í ljós að hann hafði hlotið fangelsisdóm fyrir aðild að framleiðslu á metamfetamíni. George hafði séð um blöndun efnanna og virtist hafa þekkinguna sem þurfti til að útvega hið hættulega efni, þallín, sem varð Peggy að bana. Þallín hafði áður verið notað í rottueitur en efnið hafði verið bannað um tíu árum fyrr.

Lögreglu skorti hins vegar bein sönnunargögn í málinu gegn George og þurfti frekari gögn til að fá húsleitar- og handtökuheimild.

Leynilögreglumaður fer í málið

Lögregla brá því á það ráð að fylgjast með George og afla upplýsinga um hann. Í ljós kom að George og Diana voru bæði meðlimir í Mensa, félagsskap fólks með afburðagreind, og brá lögregla á það ráð að fá leynilögreglumann, Susan Goreck, til að koma sér í samband við George. Hún kom sér í kynni við George og Diönu í gegnum Mensa, ávann sér traust þeirra og vingaðist við þau.

George og Diana höfðu auglýst viðburð á heimili sínu, svokallaða morðhelgi fyrir meðlimi Mensa, þar sem áhugasamir gátu komið saman og leyst morðgátu sem George bjó til. Hvort tilviljun hafi ráðið því að nágrannar, eitur og matur kom við sögu í morðgátunni skal ósagt látið. Susan tók þátt í þessari þemahelgi og varð fljótt orðin góð vinkona hjónanna.

## Sneru á nágrannann
Susan aflaði mikilvægra upplýsinga og komst meðal annars að því að George og Diana hugðust flytja frá Alturas. Susan villti á sér heimildir, sagðist vera að skilja við eiginmann sinn og sagðist vanta húsaskjól og spurði hvort George vildi leigja henni húsið í Alturas meðan hún fyndi sér aðra eign. George tók vel í þá beiðni og leigði henni húsið með öllu innbúinu. Þetta var í desember 1989. Þarna var lögregla búin að snúa á George því þar sem Susan var orðin löglegur leigjandi átti lögregla auðvelt um vik að framkvæma húsleit. Og það var þar sem lögregla fann þallín í þó nokkuð miklu magni í bílskúr á heimilinu. Húsleit var framkvæmd á nýjum dvalarstað George og þar fundust meðal annars bækur um eitur og eintak af bók Agöthu Christie, The Pale Horse, sem fjallar einmitt um lyfjafræðing sem drepur fólk með því að setja þallín í mat og lyf.

Ákæra var gefin út í málinu og var George sakfelldur fyrir morð af fyrstu gráðu og tilraun til manndráps. Svo virðist vera sem hann hafi laumast inn á heimili fjölskyldunnar og komið kókflöskunum, með eitrinu í, fyrir í eldhúsinu. George var dæmdur til dauða árið 1991 og bíður hann þess enn að vera tekinn af lífi. Eiginkona hans, bæklunarskurðlæknirinn Diana Carr, var ekki ákærð þar sem hún var ekki talin hafa haft vitneskju um gjörðir eiginmanns síns.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Upptaka af lýsandanum fer eins og eldur í sinu – Hlustaðu á hvað hann gerði í beinni

Upptaka af lýsandanum fer eins og eldur í sinu – Hlustaðu á hvað hann gerði í beinni
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu
Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Miklar breytingar á enska bikarnum um næstu helgi – Ekki spilað í deildinni um sömu helgi

Miklar breytingar á enska bikarnum um næstu helgi – Ekki spilað í deildinni um sömu helgi