fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

20 ára morðgáta

Sami maður myrti þrjár konur í Yonkers – Málið leystist fyrir tilviljun

Kolbeinn Þorsteinsson
Mánudaginn 1. maí 2017 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í nærri tvo áratugi tókst Francisco Acevedo, bandarískum raðmorðingja, að smeygja sér undan réttlætinu. Eins og oft vill verða réð tilviljun ein að upp komst að hann hafði myrt þrjár konur í borginni Yonkers í New York-fylki.

Í janúar 2009 var Francisco stöðvaður, drukkinn undir stýri og fékk eins til þriggja ára dóm fyrir brotið. Hann hóf afplánun en til að geta afplánað á skilorði gaf hann lífsýni af fúsum og frjálsum vilja. Lífsýnið réð úrslitum við rannsókn á morðunum á konunum þremur og þann 17. janúar, 2012, fékk Francisco 75 ára til lífstíðardóm fyrir ódæði sín.

Fyrsta fórnarlamb Franciscos Aceveda.
Maria Ramos Fyrsta fórnarlamb Franciscos Aceveda.

Lífsýni ókunnugs manns

Morðin þrjú sem Francisco var dæmdur fyrir framdi hann árin 1989, 1991 og 1996. Fórnarlömbin, sem voru öll konur, fundust kyrkt, nakin, bundin á höndum og fótum og lágu á bakinu, og sökum þeirra líkinda tengdi lögreglan morðin einum og sama ódæðismanninum.

Að auki áttu lík kvennanna eitt sameiginlegt; lífsýni úr einni og sömu manneskjunni fannst á þeim öllum. Úr hverjum lífsýnið var hafði lögreglan þó ekki grænan grun og hafði, áður en Francisco var handtekinn, í gegnum árin rannsakað vel yfir hundrað manns sem hún grunaði um morðin.

Barin til bana af Francisco.
Tawanda Hodges Barin til bana af Francisco.

Eina vitnið

Kimberly Moore, 30 ára frá Greenburgh, fannst andvana 24. maí, 1996, á móteli við Yonkers-breiðgötu. Þegar réttað var yfir Francisco, árið 2011, vóg vitnisburður Carlos nokkurs Gonzalez þungt hvað varðaði morðið á Kimberley.

Carlos hafði á sínum tíma unnið í gestamóttöku áðurnefnds mótels og var eina manneskjan sem séð hafði Francisco í félagsskap við einhverja hinna myrtu kvenna.

Kimberley hafði leigt herbergi á mótelinu og Carlos bar fyrir dómi að hann hefði séð hana og Francisco ganga saman upp á herbergi. Carlos hafði ekki séð Francisco yfirgefa staðinn en sagði að það gæti hafa gerst þegar hann fékk sér snæðing um sex leytið um kvöldið.

Þegar Kimberley skráði sig ekki út af mótelinu á umsömdum tíma kannaði Carlos málið. Hann bankaði en fékk engin svör og fór því inn í herbergið: „Ég danglaði fætinum ítrekað í rúmið og sagði „Kominn tími til að fara“. Hún svaraði mér engu. Ég svipti rúmteppinu af. Hún var blóðug í framan, á enninu. Ég varð hræddur.“

Fannst látin á mótelherbergi.
Kimberley Moore Fannst látin á mótelherbergi.

Sýknaður af nauðgun

En áður en Francisco myrti Kimberley Moore hafði hann í tvígang látið til skarar skríða. Þann 5. febrúar, árið 1989, myrti hann Mariu Ramos, 26 ára, og 28 mars, árið 1991, hlaut Tawanda Hodges, 28 ára, sömu örlög. Lík Mariu og Tawanda, sem ku hafa verið vændiskonur frá norðurhluta Bronx, fundust á svipuðum slóðum; nærri Ludlow-strætis brúnni. Ekki þótti sannað að Francisco hefði nauðgað fórnarlömbum sínum og var hann síðar sýknaður af nauðgunarákæru í öllum tilfellum.

Stuttur tíu ára dómur

Francisco var enginn nýgræðingur hvað ofbeldi áhrærði. Árið 1986 stundaði hann hann verkamannavinnu í bænum Berlin í Connecticut. Þann 3. júlí tók hann stúlku upp í pallbíl fyrirtækisins sem hann vann hjá og ók á afskekktan stað þar í grennd.

Hann batt hendur stúlkunnar fyrir aftan bak, batt fyrir augu hennar og misþyrmdi henni kynferðislega. Að því loknu ók hann á brott, en stúlkan lá eftir fjötruð. Bíll Franciscos bilaði skammt frá borginni Meriden, í um ellefu kílómetra fjarlægð frá Berlin, og ákvað Francisco þá að fara fótgangandi til baka til Berlin og endurtaka leikinn. Eftir að hafa misnotað stúlkuna enn frekar féll Francisco í svefn og tókst henni þá að flýja. Síðar játaði Francisco sig sekan og fékk tíu ára dóm. Eitthvað skruppu tíu árin saman því Francisco losnaði úr fangelsi átta mánuðum áður en lík Mariu Ramos fannst árið 1989.

Að auki var Francisco ákærður fyrir að ganga í skrokk á eiginkonu sinni árið 1997, ákæran var síðan felld niður, og árið 1998 fékk hann níu mánaða dóm fyrir heimilisofbeldi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Gætu neyðst til að selja vonarstjörnuna í sumar vegna fjárhagsvandræða

Gætu neyðst til að selja vonarstjörnuna í sumar vegna fjárhagsvandræða
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Klopp svartsýnn og biðst afsökunar

Klopp svartsýnn og biðst afsökunar
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Pétur Einarsson látinn

Pétur Einarsson látinn
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun

Stórstjarnan plataði alla með nýrri mynd: Margir voru áhyggjufullir – Sjáðu svakalegan mun