Fólkið sem horfir á aftökur

Aftökur í Bandaríkjunum þurfa að fara fram í vitna viðurvist - Þetta er fólkið sem býður sig fram

Hjónin Larry og Teresa Clark.
Horfa á aftökur Hjónin Larry og Teresa Clark.

Teresa Clark hefur horft á þrjá ókunnuga einstaklinga deyja fyrir framan nefið á sér. Í fyrsta skipti sem hún varð vitni að aftöku hélt hún í hönd Larry, eiginmanns síns, en eftir fyrstu aftökuna var hún rólegri. Teresa og Larry eru í hópi þeirra Bandaríkjamanna sem bjóða sig fram til að verða vitni að aftökum.

Gert samkvæmt lögum

Fjallað er um þetta á vef breska ríkisútvarpsins, BBC. Lögum samkvæmt þurfa aftökur í Bandaríkjunum að fara fram í vitna viðurvist. Með öðrum orðum þurfa ávallt einhverjir óbreyttir borgarar að horfa á aftökurnar, einstaklingar sem hafa engin tengsl við glæpinn sem framin var eða þann einstakling sem verður tekinn af lífi. Teresa og Larry sinna þessu starfi í Virginíuríki í Bandaríkjunum.

„Aftökurnar verða að fara fram í vitna viðurvist“

Bað Teresu um að koma með

Dag einn fyrir mörgum árum bauðst Larry að verða vitni að aftöku. Hann fór einn en sagði svo við eiginkonu sína, þegar hann kom heim, að hún þyrfti að koma með næst. Hún ákvað að slá til og árið 1998 horfði hún á aftöku Douglas Buchanan, sem var dæmdur til dauða fyrir morðið á föður sínum, stjúpmóður og tveimur stjúpbræðrum.

Sjálfboðaliðar eins og Teresa og Larry eru vitni sem lögum samkvæmt þurfa að vera viðstödd aftökur, sem fyrr segir. „Aftökurnar verða að fara fram í vitna viðurvist,“ segir Robert Dunham, framkvæmdastjóri Death Penalty Information Center í Bandaríkjunum, í viðtali við BBC.

„Svolítið skrýtið“

Teresa rifjar upp fyrstu aftökuna og segir að hún og eiginmaður hennar hafi verið flutt í Greensville-fangelsið í Jarratt í Virginíu. Eftir að hafa varið smá tíma með blaðamönnum, sem áttu að fjalla um aftökuna, voru þau leidd inn í lítið herbergi þar sem þau fylgdust með því sem fram fór. Stór gluggi var í herberginu og voru gluggatjöld fyrir. Skömmu síðar var dregið frá og þá blasti aftökuherbergið við, ef svo má segja. Örfáum andartökum síðar var hafist handa við aftökuna.

„Ég hef margoft hugsað um þetta augnablik og spilað það í höfðinu.“

„Þetta er svolítið skrýtið, að horfa á einhvern horfa á þig um það leyti sem viðkomandi er að búa sig undir að deyja,“ segir Teresa. Eftir aftökuna er fanginn úrskurðaður látinn, dregið er fyrir gluggann og vitnunum þakkað fyrir þjónustuna áður en þau eru send heim.

Myndi kjósa stólinn

Frank Weiland, 77 ára, er íbúi í Arkansas í Bandaríkjunum en yfirvöld þar standa frammi fyrir því að taka sjö fanga af lífi á aðeins ellefu dögum. Weiland hefur boðist til að verða vitni að fjórum aftökum þar sem hörgull var á fólki sem vildi bjóða sig fram í verkið. Hann varð síðast vitni að aftöku árið 2006 þegar Brandon Hedrick kaus rafmagnsstólinn fram yfir banvæna sprautu.

„Þau sögðu að hann hefði verið hræddur við nálar,“ segir Frank við BBC. Aftakan gekk vel, að minnsta kosti virtist Brandon ekki þjást. „Í sannleika sagt myndi ég frekar kjósa stólinn,“ segir hann. Hann segir að það taki á taugarnar að verða vitni að svona löguðu.

„Ég hef margoft hugsað um þetta augnablik og spilað það í höfðinu. Ég veit ekki af hverju en ég hef gert það,“ segir hann. Undir þetta tekur Teresa sem rifjar upp óhugnanlegt atvik eftir fyrstu aftökuna sem hún varð vitni að.

„Ég sat í bílnum og var á rauðu ljósi. Mér var litið í baksýnisspegilinn og ég get svo svarið fyrir það, ég sá manninn sem verið var að taka af lífi,“ segir hún. Hún segir að hún muni ekki skorast undan verði leitað til hennar aftur. Þegar öllu er á botninn hvolft séu þetta einstaklingar sem hafa verið dæmdir til að hljóta sömu örlög og fórnarlömb þeirra. „Þetta er fólk sem veit hvaða örlög bíður þeirra. Það fær tækifæri til að kveðja svo ég get ekki sagt að ég finni til með því.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.