Húsin í þessum bæ innihalda mikið magn af demöntum

Mynd: Hiroshi Higuchi

Bærinn Nördlingen í Bæjaralandi í Þýskalandi lætur við fyrstu sín ekki mikið yfir sér. Húsin í þessum 19 þúsund manna bæ eru þó um margt sérstök því í veggjum margra þessara húsa er að finna demanta. Já, ágætu lesendur. Í húsunum er að finna demanta og það í mjög miklu magni meira að segja.

Harður árekstur

Allt saman á þetta sér þó eðlilegar skýringar, eða því sem næst, því fyrir 14,5 milljónum ára lenti gríðarstór loftsteinn á svæðinu þar sem bærinn stendur í dag. Gígurinn sem myndaðist í kjölfar þessa mikla áreksturs er 24 kílómetrar í þvermál.

Eins og Illugi Jökulsson rithöfundur og blaðamaður fjallaði um í grein sinni á Pressunni árið 2014, er talið að þegar loftsteinninn lenti af fullum krafti á granít-lagi hafi í hitasvækjunni myndast 72.000 tonn af demöntum, sem flestir voru agnarsmáir.

Þá má finna í flestöllum húsum í Nördlingen en þeir eru of smáir til að borgi sig að hreinsa þá úr berginu sem þeir eru fastir í. Kannski sem betur fer því þá væri líklega ekki mikið eftir af húsunum í bænum.

Einstakt en ekki einsdæmi

Breska ríkisútvarpið, BBC, fjallaði um demantabæinn Nördlingen á dögunum en í umfjöllun þess kom fram að demantarnir væru flestir ekki mikið meira en 0,2 millimetrar í þvermál og varla greinanlegir með auganu.

Horst Lenner, umsjónarmaður í kirkjuturni Nördlingen, segir við BBC að í kirkjunni sé mikið magn demanta að finna. Þegar sólin skín glitrar fallega á kirkjutröppurnar og er endurkastið frá demöntunum í grjótinu sem notað var.

Þegar hafist var handa við að byggja bæinn, sem á rætur sínar að rekja til 10. aldar, vissi enginn að á svæðinu væri demanta í tonnavís að finna í jarðveginum. Þá vitneskju fengu menn ekki fyrr en löngu síðar, eða eftir að búið var að reisa meginþorra þeirra húsa sem enn standa í bænum. „Öll húsin innan borgarveggjanna eru úr þessum jarðvegi sem myndaðist,“ segir Roswitha Feil, íbúi í bænum, og vísar til þess þegar loftsteinninn skall á jörðinni fyrir 14,5 milljónum ára.

Segja má að Nördlingen og svæðið í kringum bæinn sé einstakt hvað varðar það magn demanta sem þar fyrirfinnast, en þó ekki einsdæmi. Loftsteinar hafi skapað svipaðar aðstæður annarsstaðar á jörðinni, til dæmis í Síberíu.

Þó að bæjarbúar séu umkringdir gríðarlegu magni af einni verðmætustu náttúruafurð heims kippa þeir sér lítið upp við það. „Við sjáum þessi hús á hverjum degi, þau eru ekkert sérstök fyrir okkur,“ sagði einn bæjarbúi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.