Brjálaður Bandaríkjamaður smíðaði eldflaug: Fer í loftið á laugardag

Það verður spennandi að sjá eldflaugaskotið á laugardag.
Mike Hughes Það verður spennandi að sjá eldflaugaskotið á laugardag.

Óhætt er að segja að Bandaríkjamaðurinn Mike Hughes sé stórhuga. Þessi 61 árs gamli limmósínubílstjóri, sem búsettur er í Arizona, hefur varið síðustu árum í að smíða eldflaug sem hann ætlar að fljúga um loftin blá.

Smíði eldflaugarinnar er nánast tilbúin en á laugardag hyggst hann fljúga eldflauginni yfir draugabæinn Amboy í Kaliforníu. Hughes áætlar að hann nái um 700 kílómetra hraða, eða þar um bil og munu fljúga um tvo kílómetra í það heila.

Hughes undirbýr sig nú fyrir skotið af kappi en enn á eftir að hnýta nokkra lausa enda. Hann á til dæmis eftir að útvega sér öryggisbúning svo hann komist nú heill frá þessum ósköpum og kaupa birgðir af kattamat ef allt fer á versta veg.

Hughes viðurkennir að hann sé eilítið smeykur. „Ef maður er ekki dauðhræddur, þá er maður fáviti,“ segir Hughes við bandaríska fjölmiðla og bætir við að lokamarkmið hans sé að smíða eldflaug sem mun skjóta honum út í geim. Hughes trúir því að jörðin sé flöt og gæti hann því átt von á einhverju óvæntu ef markmiðið um geimferðina tekst.

„Ég hef gaman af því að gera brjálaða hluti sem enginn annar gerir,“ segir Hughes og er eflaust hægt að flokka eldflaugaskot undir þá skilgreiningu. Þetta er þó ekki fyrsta eldflaugin sem Hughes smíðar því hann smíðaði og flaug lítilli eldflaug í Arizona fyrir nokkrum árum. Eldflaugin fór að vísu ekki mjög langt en nógu langt til að hann héldi þróunarvinnunni áfram.

Hughes reiknar með að eldflaugin nái 550 metra hæð, en þegar hann kemst í þá hæð munu fallhlífar taka við og koma honum til jarðar á öruggan hátt – ef allt fer á besta veg.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.