Bæjarbúar hugsi yfir jólatrénu í ár: Hvað fór eiginlega úrskeiðis?

Íbúar í danska bænum Aars vita ekki hvort þeir eiga að hlæja eða gráta

Óhætt er að segja að íbúar í bænum Aars í Danmörku hafi rekið upp stór augu þegar jólatrénu var komið fyrir í miðbænum um helgina. Jólatréð þykir nefnilega ekki beinlínis reisulegt eða fallegt.

Fjörugar umræður spunnust um þetta á samfélagsmiðlum um helgina og sitt sýnist hverjum. Sumir hafa lýst yfir hneykslun á trénu á meðan öðrum finnst það fyndið, jafnvel svolítið krúttlegt.

Fjölmargir hafa sent bæjarstjóranum, Mogens Kristensen, ákall um að bærinn kaupi nýtt tré svo bærinn haldi nú virðingu sinni yfir jólahátíðina.

Sjálfur segist Mogens skilja áhyggjur bæjarbúa, en hann var staddur í London þegar blaðamaður BT í Danmörku náði tali af honum. Hann hló til að byrja með en sagði svo alvarlegur að bærinn tæki málið alvarlega og það væri leitt að valda íbúum vonbrigðum.

„Þetta er á okkar ábyrgð og okkur þykir leiðinlegt að þetta tré hafi orðið fyrir valinu. Það er búið að skreyta það og það mun taka tíma að taka það niður, en ég lofa að það fer niður á morgun eða á miðvikudaginn,“ sagði hann.

Þriggja manna nefnd hefur það hlutverk að velja jólatréð á hverju ári, en þess er getið í frétt BT að nefndarmeðlimir séu allir komnir af léttasta skeiði, eða yfir sjötugt. Þeir hafa þó yfir 30 ára reynslu í þessum geira en virðast þrátt fyrir það ekki óskeikulir, eins og þetta tré ber með sér.

„Þau fóru út í skóg og fundu þetta jólatré, sem þeim sýndist vera fallegt. Það var ekki fyrr en það var komið upp að allir sáu hversu ljótt það var,“ segir Mogens.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.