Tvíburamorð

Leslie og Thomas skildu – Fjórum dögum síðar dundi ógæfan yfir

Myrti tvíburasyni sína.
Leslie Demeniuk Myrti tvíburasyni sína.

Það var ófögur sjón sem mætti Chuck Mulligan, reynslubolta úr lögreglunni í St. Johns-sýslu í Suður-Flórída, í íbúð í St. Augustine í Flórída, þann 17. mars 2001.

Chuck hafði fengið skilaboð frá Neyðarlínunni um að eitthvað væri að í áðurgreindri íbúð, að þar væri kona sem fullyrti að hún hefði skotið syni sína.

Þegar Chuck bar að garði var allt harðlæst og því braust hann inn: „Inni fann ég meðvitundarlausa konu, hún lá í rúminu og hélt á Magnum .357-skammbyssu. Ég fann megna áfengislykt af henni og hún sýndi engin viðbrögð.“

Aftökur

Eftir að hafa tekið byssuna úr höndum konunnar kannaði Chuck íbúðina betur.

„Einn drengur lá í rúmi sínu og hafði verið skotinn í ennið, eins og um aftöku hefði verið að ræða. Annar drengur, sem reyndist vera tvíburabróðir hins, lá á grúfu á ganginum, blóð hafði streymt úr sári fyrir aftan annað eyrað. Ég mun aldrei gleyma þessari sýn,“ sagði Chuck síðar.

Hann kom konunni til meðvitundar og sagði við hana: „Strákarnir þínir eru dánir, þú skaust þá, hvernig gastu gert þetta?“

Konan, Leslie Demeniuk, átti eftir að heyra þessa spurningu ótal sinnum næstu fjögur árin og hálfu betur.

Barnshafandi eftir stutt kynni

Fjórum dögum áður höfðu Leslie og eiginmaður hennar, Thomas Demeniuk, skilið, eftir til þess að gera stutt hjónaband. Thomas var í sjóher Bandaríkjanna og eftir að Leslie varð barnshafandi, árið 1997, eftir stutt kynni, fannst honum að hann yrði að gera hið rétta: „Sem dáta fannst mér að ég yrði að axla mína ábyrgð.“

En hjónabandið var enginn dans á rósum og Leslie þótti sopinn góður og glímdi við þunglyndi. Thomas hafði margoft á orði við hana að ef hún segði skilið við áfengið þá hyrfi þunglyndið, „… en það er enginn hörgull á læknum sem fullvissa mann um að maður þjáist af krónísku þunglyndi og skrifa upp á gleðipillur fyrir mann.“

Létt forræðisdeila

Thomas fór í kjölfar skilnaðarins fram á forræði yfir tvíburadrengjunum, James og John, en átti aldrei möguleika vegna starfa sinna í sjóhernum sem kröfðust tíðra fjarvista. Leslie hins vegar yrði alltaf til staðar og var það mat yfirvalda að drengjunum yrði betur borgið hjá móður sinni. Thomas og Leslie ákváðu þó drengjanna vegna að finna milliveg.

Sá sem sá um málamiðlun fyrir þau hjónin átti ekki orð yfir hve indæl þau voru og Leslie tókst fullkomlega að fela þá staðreynd að hún var vansæl, í ójafnvægi og bitur og leitaði í hvort tveggja áfengi og lyf til að komast í gegnum daginn.

Lyf, viskí og bjór

Við réttarhöldin, sem hófust í janúar 2006, byggðu verjendur Leslie mál sitt á því að lyfjakokteill í bland við viskí og bjór hefði svipt hana allri skynsamlegri hugsun þennan örlagaríka dag í mars 2001. „Eina skýringin á þessum óhugnanlega verknaði er að hún hafi talið að hún væri að bjarga strákunum. Að þeir væru á leið til betri staðar,“ sagði lögfræðingur Leslie.

Aðstoðarsaksóknari gaf ekki mikið fyrir þennan skilning verjenda Leslie. „Hún [Leslie] setti hlaupið að höfði James meðan hún horfði á sjónvarpið og hleypti af,“ sagði aðstoðarsaksóknarinn.

Að yfirlögðu ráði

Haft var á orði að Leslie hefði myrt syni sína að yfirlögðu ráði; hún hefði náð í byssuna inn í skáp, haft fyrir því að finna skotin í hana og síðan hlaðið hana. Að auki hefði hún hringt margoft í Thomas þennan dag og hótað að gera slæmt, og hringt í hann strax að loknum morðunum.

Eftir sex daga vitnaleiðslur tók það kviðdóm aðeins þrjár klukkustundir að kveða upp úrskurð sinn.
Leslie Demeniuk var sakfelld fyrir tvö morð og fékk lífstíðardóm án möguleika á reynslulausn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.