Ótrúleg atburðarás: Fjórum milljónum króna ríkari eftir að hafa borðað á Krispy Kreme

Hver segir að það geti ekki borgað sig að borða kleinuhringi?

Er fjórum milljónum króna ríkari eftir að hafa borðað á Krispy Kreme.
Daniel Rushing Er fjórum milljónum króna ríkari eftir að hafa borðað á Krispy Kreme.

Óhætt er að segja að dagur einn í desember árið 2015 hafi verið viðburðaríkur í lífi Bandaríkjamannsins Daniel Rushing. Rushing þessi var handtekinn í Orlando þennan örlagaríka dag fyrir glæp sem hann framdi ekki.

Áður en að handtökunni kom hafði Rushing skutlað vini sínum, sem glímir við krabbamein, á sjúkrahús. Og seinna um daginn skutlaði hann öðrum vini sínum heim, en báðir höfðu þeir verið í kirkju skömmu áður. Eftir að hafa komið við í verslun 7-Eleven var Rushing stöðvaður af lögreglu. Í ljós kom að hann hafði ekið aðeins of hratt.

Við athugun lögreglumanns kom í ljós að Rushing hafði skotvopnaleyfi og var hann með skammbyssu á sér þegar hann var stöðvaður. Lögregluþjónninn bað hann að stíga út úr bílnum og heimilaði Rushing honum í kjölfarið að framkvæma leit í bílnum – enda taldi Rushing sig ekki hafa neitt að fela. Við leit í bílnum kom lögregluþjónn auga á dularfulla kristala á gólfinu sem minntu á metamfetamín. Lögregluþjónninn framkvæmdi próf á kristölunum og gáfu niðurstöðurnar til kynna að um metamfetamín væri að ræða.

Rushing hélt staðfastlega fram sakleysi sínu en það breytti ekki þeirri staðreynd að hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Sagði hann við lögreglu að hann hefði aldrei reykt svo mikið sem eina sígarettu, hvað þá neytt fíkniefna. Rushing reyndi að segja lögreglumanninum að hann hefði borðað kleinuhringi frá Krispy Kreme í bílnum og kristallarnir væru ekkert annað en glassúr.

Svo fór að Rushing var handtekinn og þurfti hann að dúsa í fangaklefa lögreglu í tíu klukkustundir áður en honum var sleppt. Þá fékkst það staðfest að Rushing sagði satt allan tímann og prófið hafi einfaldlega gefið ranga niðurstöðu. Í kjölfarið stefndi hann lögreglunni og krafðist miskabóta. Málið var leyst með samkomulagi á dögunum sem felur í sér að Rushing fær 37.500 dali, jafnvirði tæplega fjögurra milljóna króna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.