Óvenjuleg sjón blasti við lögreglu: Rannsókn á pýramídasvindli vindur upp á sig

Alls fundust um tuttugu milljónir Bandaríkjadala í dýnunni. Þessi mynd tengist fréttinni ekki á neinn hátt.
Peningar Alls fundust um tuttugu milljónir Bandaríkjadala í dýnunni. Þessi mynd tengist fréttinni ekki á neinn hátt.

Óvenjuleg sjón blasti við lögreglumönnum í síðustu viku þegar þeir gerðu húsleit á heimili tuttugu og átta ára Brasilíumanns sem búsettur er í Massachusetts í Bandaríkjunum.

Lögregla hefur undanfarnar vikur rannsakað umfangsmikið pýramídasvindl og í síðustu viku var fyrrnefndur Brasilíumaður, Cleber Rene Rizerio Rocha, handtekinn.

Í dýnu á heimili hans, já, venjulegri dýnu sem alla jafna er notuð til að hvílast á, fundust tuttugu milljónir Bandaríkjadala, 2,3 milljarðar króna á núverandi gengi. Búið var að koma peningaseðlunum vandlega fyrir inni í dýnunni.

Handtakan á föstudag var í tengslum við rannsókn lögreglu á hinu svokallaða TelexFree-pýramídasvindli. Að sögn lögreglu var kerfinu upphaflega komið á til að hafa fé af brasilískum innflytjendum í Bandaríkjunum en svo virðist vera sem skipuleggjendur svindlsins hafi fært út kvíarnar svo um munar. Að sögn lögreglu er talið að hátt í milljón manns hafi orðið fyrir barðinu á svindlinu og hlaupa upphæðirnar sem fólk hefur tapað á tugum milljarða króna.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að Brasilíumaðurinn sem var handtekinn í síðustu viku sé frændi stofnanda TelexFree og hann hafi gegnt starfi einskonar sendiboða innan fyrirtækisins. Cleber hefur verið ákærður fyrir peningaþvætti en ljóst er að ekki eru öll kurl komin til grafar í málinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.