fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024

Skaðræðisskötuhjú: Charlene var blinduð af ást

Vegur dyggðar var Gerald framandi

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 8. janúar 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stundum er haft á orði að eplið falli ekki langt frá „eikinni“ og burtséð frá þeirri staðreynd að eikur bera ekki epli þá má til sanns vegar færa að málshátturinn eigi einkar vel við Bandaríkjamanninn Gerald Armond Gallego.

Uppruni

Ef glæpagenum er til að dreifa yfirhöfuð og erfast þá voru þau Gerald í blóð borin, hvort tveggja í föður- og móðurætt. Þegar Gerald fæddist, árið 1946, var faðir hans, Gerald Albert Gallego, í San Quentin-fangelsinu. Eftir að hafa fengið reynslulausn tók Gallego eldri upp fyrri siði og var aftur settur á bak við lás og slá.

Gallego eldri fékk enn og aftur reynslulausn sem síðar kostaði tvo lögregluþjóna lífið. Árið 1955 varð hann að lokum þess vafasama heiðurs aðnjótandi að verða fyrsti glæpamaðurinn sem geispaði golunni í nýjum gasklefa í ríkisfangelsi Mississippi sem einnig er þekkt sem Parchman Farm.

Var dæmdur til dauða.
Gallego yngri Var dæmdur til dauða.

Skal nú sjónum beint að elskulegri móður Gallegos yngri, Lorraine Pullen Bennett Gallego. Innan vébanda stórfjölskyldu hennar fyrirfundust hvort tveggja morðingjar og barnaníðingar.

Sjálf stundaði Lorraine vændi í skuggahverfum Sacramento og Gerald litli var ósjaldan notaður í sendiferðir af hórmöngurunum sem þar héldu til.

Framtíðareiginkona

Ef Gerald yngri moraði í glæpagenum (ef svo má að orði komast) þá var slíkt hið sama ekki uppi á teningnum hvað eina framtíðareiginkonu hans, Charlene Williams, áhrærði. Bernska Charlene var ævintýri líkust. Faðir hennar, Charles, var dugnaðarforkur sem hafði unnið sig upp úr starfi búðarloku í stöðu framkvæmdastjóra keðju matvöruverslana.

Charlene naut alls hins besta, óx úr grasi í einu af fínni hverfum Sacramento, var hæfileikaríkt og vel gefið einkabarn sem sýndi ótvíræða hæfileika í fiðluleik. En … svona upptalning býður oft upp á „en“ … í menntaskóla kom í ljós takmarkalítið dálæti Charlene á kynlífi, fíkniefnum og áfengi. Slíkt var dálætið að það var með naumindum að hún útskrifaðist úr menntaskóla, síðar flosnaði hún upp úr námi í háskóla og státaði, nánast á sama tíma, af tveimur skammlífum hjónaböndum.

Hvað sem öllu þessu leið var það mat flestra sem til Charlene þekktu að hún væri einfaldlega ráðvillt og fordekruð ung kona. En það hékk sennilega fleira á spýtunni.

Snemma beygist krókurinn

Sem fyrr segir varð Gallego yngri aldrei þeirrar ánægju aðnjótandi að berja föður sinn augum; Lorraine sagði að faðir hans hefði látist af slysförum og tók Gallego yngri þá sögu trúanlega.

Gallego eldri endaði ævi sína í gasklefa í ríkisfangelsi Mississippi.
Faðir Geralds Gallego eldri endaði ævi sína í gasklefa í ríkisfangelsi Mississippi.

Níu ára að aldri gat Gallego yngri (héðan í frá Gerald) gumað af eigin afrekum af refilstigum afbrota og ódáða. Illvirki bernsku hans náðu eins konar hámarki þegar hann, þrettán ára, var fangelsaður fyrir að nauðga sex ára nágrannastúlku.

Þegar Gerald var 32 ára hafði hann gengið sjö sinnum í hjónaband, tvisvar með sömu konunni, auk þess sem tvíkvæni kom við sögu nokkrum sinnum.

Handtökuskipanir á hendur honum voru allnokkrar og vörðuðu meðal annars sifjaspell, nauðgun og ýmislegt fleira af kynferðislegum toga.

Fantasíur verða að veruleika

Kaldhæðni örlaganna hagaði því þannig til að Charlene kolféll fyrir Gerald og varð hans síðasta eiginkona. Svo blinduð var hún af ást að hún meðtók „skringilegheit“ hans og gott betur því hún gerði hans fantasíur að sínum eigin. Fantasíur skötuhjúanna leiddu til smíði leynistaðar þar sem þau síðar héldu föngnum kynlífsþrælum sem sátu og stóðu eins og Gerald hugnaðist.

Blóðugur ferill turtildúfnanna hófst 11. september 1978. Þá hurfu vinkonurnar Rhonda Scheffler, 17 ára, og Kippi Vaught, 16 ára, í Sacramento er þær voru á leið í verslunarmiðstöð skammt frá heimilum þeirra. Tveimur dögum síðar fundust illa farin lík þeirra í Baxter, í um 30 kílómetra fjarlægð frá Sacramento, og höfðu vinkonurnar sætt kynferðislegri misþyrmingu, verið bundnar og barðar og að lokum skotnar í höfuðið.

Charlene gerði fantasíur Geralds að sínum eigin.
Blind ást Charlene gerði fantasíur Geralds að sínum eigin.

Morð á morð ofan

Næst létu Gerald og Charlene til skarar skríða 24. júní, 1979, í Reno í Nevada. Þá hurfu Brenda Judd, 14 ára, og Sandra Colley, 13 ára. Talið var að þær hefðu einfaldlega strokið að heiman, en 1982 varð ljóst að þær höfðu lent í klónum á Gerald og Charlene; Gerald hafði misþyrmt þeim kynferðislega og á meðan hann hvíldist neyddi Charlene þær til að viðhafa kynferðislega tilburði hvor með annarri. Gerald banaði þeim báðum með skóflu og dysjaði í grunnri gröf. Líkamsleifar þeirra fundust ekki fyrr en 1999.

Tíu mánuðum síðar, 24. apríl 1980, hlutu Karen Chipman og Stacey Redican sömu örlög og Brenda og Sandra. Karen og Stacey hurfu í verslunarmiðstöð í Reno og fundust lík þeirra þremur mánuðum síðar. Þeim hafði verið misþyrmt kynferðislega og þær síðan barðar til dauðs.

Rætt við Gerald og Charlene

Linda Aguilar, 21 árs, varð á vegi skötuhjúanna 8. júní 1980. Linda, sem var gengin fjóra mánuði, var á heimleið, fótgangandi, í Port Orford í Oregon, þegar Gerald bauð henni far sem hún þáði með þökkum. Lík hennar fannst 22. júní; höfuðkúpan var brotin, úlnliðir og ökklar bundnir með nælonbandi og ljóst að hún hafði verið grafin lifandi.

Tæpum tveimur mánuðum síðar, 17. júlí, var Virginia Mochel, 34 ára, tveggja barna móðir og barþjónn, numin á brott á bílastæði fyrir utan krá í Sacramento. Lögregla leit hvarf hennar strax alvarlegum augum og ræddi meðal annars við kollega hennar á kránni. Sá bar að umrætt kvöld hefði ókunnugt par, Stephen og Charlene Styles, átt þar viðkomu.

Lögreglan fann Stephen og Charlene sem viðurkenndu að hafa komið á krána en sögðust ekkert vita um afdrif Virginiu; þau sjálf hefðu verið að veiða umræddan dag. Lík Virginiu fannst síðar og höfðu hendur hennar verið bundnar saman með fiskilínu. Síðar kom í ljós að Gerald hafði komist yfir skilríki lögreglumanns, Stephen Styles að nafni, og notað sem dulnefni þegar hentaði.

Kæruleysi eða kjarkur

Þrátt fyrir að sjónir lögreglunnar hefðu nú, að litlu leyti reyndar, beinst að Gerald og Charlene voru þau ekki á því að láta af iðju sinni. Þau höfðu þó hægt um sig um nokkurra mánaða skeið en aðfaranótt 2. nóvember hófust þau handa.

Illvirki bernsku hans náðu eins konar hámarki þegar hann, þrettán ára, var fangelsaður fyrir að hafa kynmök við sex ára nágrannastúlku.

Annaðhvort voru þau kærulaus eða of kjörkuð því þau réðust til atlögu, klukkan 1.30, fyrir utan háskóladansleik í Sacramento. Þar neyddu þau Craig Miller, 22 ára, og kærustu hans, Beth Sowers, 21 árs, inn í bíl sinn.

Vinur Craigs og Beth sá þau þar sem þau sátu í bílnum og heldur skuggalegan náunga í farþegasætinu frammi í. Umræddur vinur hugðist eiga við þau orð en uppskar löðrung frá Charlene og bílnum var síðan ekið á brott. Vinur Craigs og Beth hafði þó rænu á að leggja bílnúmerið á minnið og kom það að góðum notum þegar lík Craigs fannst daginn eftir. Lík Beth fannst ekki fyrr en um þremur vikum síðar.

Málalyktir

Bifreiðin kom lögreglunni á slóð Geralds og Charlene sem tókst þó fyrir einhverja slembilukku að stinga af. Þann 3. nóvember fékk Gerald Charlene til að hringja í foreldra sína og sníkja peninga. Hálfum mánuði síðar hringdi Charlene aftur í foreldra sína, þá komin til Omaha ásamt Gerald, í sömu erindagjörðum. Þann 17. nóvember hugðist parið sækja peningasendingu á skrifstofu Western Union og lenti þá í fyrirsát fulltrúa alríkislögreglunnar.

Í eitt og hálft ár þögðu Gerald og Charlene þunnu hljóði en að lokum bugaðist Charlene og eftir að hafa samið við yfirvöld sagði hún alla sólarsöguna. Fyrir vikið hljóðaði dómur yfir henni upp á sextán og hálft ár. Gerald Armond Gallego var hins vegar dæmdur til dauða í apríl 1983. Hann upplifði þó aldrei að verða tekinn af lífi því krabbamein í endaþarmi dró hann til dauða í júlí árið 2002.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Ivan Toney sagður gera kröfu um að þéna meira en Bruno

Ivan Toney sagður gera kröfu um að þéna meira en Bruno
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni
Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Svíi dæmdur fyrir að skjóta Gabríel

Svíi dæmdur fyrir að skjóta Gabríel
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Var agndofa þegar Schweinsteiger lýsti framkomu Mourinho hjá United – „Mér var bara sparkað út úr klefanum“

Var agndofa þegar Schweinsteiger lýsti framkomu Mourinho hjá United – „Mér var bara sparkað út úr klefanum“