Óvart skotinn í andlitið með skutli en lifði af

Brasilíumaður heppinn að vera á lífi eftir slys í veiðiferð

Veiðiferð tveggja félaga í Brasilíu endaði nærri með ósköpum eftir að annar þeirra slysaðist til að skjóta hinn í höfuðið með skutli. Skutullinn gekk inn við kjálka mannsins og út hinum megin við kinnbein eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hinn 27 ára gamli Hugo Pereira da Silva er sagður stálheppinn að vera á lífi eftir að hafa farið með félaga sínum að Rio Paranaiba-stíflunni í Araguari til að veiða fisk. Staðarfjölmiðlar sem New York Post vitnar hafa eftir viðbragðsaðilum að svo virðist sem mennirnir hafi ekki gætt að sér varðandi staðsetningu og fjarlægð og því fór sem fór.

Lögreglan hefur málið til rannsóknar vegna þess að ólöglegt er að veiða með skutli frá nóvember út febrúar á svæðinu. Málið þykir þó eilítið dularfullt því umrædd á er gruggug þessa dagana á rigningartímabili og erfitt að skutla fisk við slíkar aðstæður. Þó líklegast þyki að um slysaskot hjá félaganum, sem var að veiða hinum megin við stífluna, hafi verið að ræða þá liggur það ekki endanlega fyrir hvernig slysið bar að.

„Við vitum ekki hvort að félaginn hafi séð einhvern fisk eða hvort skotið hafi hlaupið fyrir slysni, en það endaði í það minnsta í andlitinu á manninum,“ segir yfirmaður hjá slökkviliðinu í Araguari. „Hann er mjög heppinn að skutullinn fór inn og út þarna, því þetta hefði auðveldlega getað orðið banaslys.“

Pereira gekkst undir aðgerð á sjúkrahúsi og var útskrifaður á miðvikudag.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.