fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Voveiflegur atburður í Watervale

Hjónaband Florence og Marks var í rúst – Hún vildi skilnað, hann ekki

Kolbeinn Þorsteinsson
Sunnudaginn 10. júlí 2016 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var á svölu, misturþungu haustkvöldi, 24. október 2003, sem hjónin Florence og Mark Unger stóðu á þaki húsbáts á Lower Herring-vatni í Watervale í Michigan í Bandaríkjunum. Ekki var um eiginlegan húsbát að ræða þar sem honum hafði verið komið fyrir á þurru landi rétt við vatnsborðið og bústaður sem þau höfðu leigt var skammt undan.

Hjónaband þeirra stóð, að sögn vina, á brauðfótum; Florence var búin að sækja um skilnað og hafði verið í verulegu andlegu ójafnvægi vikuna á undan vegna deilna þeirra hjóna. Engu að síður hafði hún fallist á að fara í helgarferð með Mark og tveimur sonum þeirra til Watervale. Þar var að finna dvalarstað sem fyrr meir, þegar allt lék í lyndi, hafði verið þeim vé í amstri dagsins.

Þetta þokudrungaða kvöld gerðist voveiflegur atburður sem ekki var til lykta leiddur fyrr en í júlí árið 2006. En Florence var ekki til frásagnar um nokkuð sem atburðinn varðaði.

Lík við vatnsbakkann

Síðar sagði Mark þeim sem rannsökuðu málið að hann hefði skilið konu sína eftir á þaki húsbátsins og farið í bústaðinn til að líta eftir sonum þeirra.

Þegar hann sneri aftur var Florence hvergi að sjá en það vakti ekki með honum ugg; ályktaði hann að Florence hefði farið í heimsókn til Linn og Maggie Duncan, eigenda dvalarstaðarins, en þau bjuggu í grenndinni.

Mark tók því á sig náðir en þegar hann vaknaði næsta morgun var Florence hvergi sjáanleg og þá fyrst varð hann áhyggjufullur. Hann hringdi í Duncan-hjónin og þau fundu blóðugt lík Florence, íklætt dökkum hlaupagalla, þar sem það maraði í þrjátíu sentimetra djúpu vatni við bakka Lower Herring-vatns.

Grunsemdir vakna

Frá upphafi taldi lögreglan ýmislegt grunsamlegt við málið allt. Florence hafði fallið 12 metra niður á steypt plan, sem var þakið blóðblettum, en á einhvern undarlegan hátt tekist að skríða meira en metra, klifra yfir steyptan kant og enda í vatninu.

Sú kenning fékk vængi að Mark hefði misst stjórn á sér og ýtt Florence yfir rekkverkið á þaki húsbátsins og síðan dregið hana meðvitundarlausa yfir í vatnið. Þar hefði hann lokið verkinu og sviðsett morðið sem slys.

Nokkrir sem til þekktu, þar á meðal faðir Florence, upplýstu að hún hefði verið myrkfælin í meira lagi og því ólíklegt að hún hefði verið sátt við að vera ein á þakinu í kolniðamyrkri.

Undarleg hegðun

Að sögn Linn Duncan hegðaði Mark sér undarlega eftir að lík Florence fannst. Eftir að Linn færði honum tíðindin rauk Mark beint að líkinu þó að hann hefði engan veginn, þar sem hann stóð, getað séð nákvæmlega hvar það var. Einnig var eftir því tekið að þegar Mark hringdi í ættingja og vini til að færa þeim þessa harmafregn þá snökti hann í um það bil mínútu, en varð síðan rósemdin uppmáluð.

Mark Unger var ákærður fyrir morð í maí 2004, en það liðu nærri tvö ár áður en réttarhöld hófust. Við réttarhöldin fullyrtu verjendur hans að hann hefði aldrei getað gert Florence mein, hann hefði elskað hana út af lífinu. Þeir bentu á að handriðið á þaki húsbátsins hefði verið fúið, 25 sentimetrum lægra en reglur kváðu á um og þakið sjálft nánast mosavaxið. Florence hefði einfaldlega runnið til og steypst yfir handriðið.

Drukknun eða ekki?

Eins og við var að búast kölluðu verjendur og sækjendur til sérfræðinga í áverkum; læknir sem krufði líkið af Florence sagði banamein hennar vera höfuðáverka en viðurkenndi þó að drukknun væri möguleg. Annar læknir, sem fór ítarlega yfir krufningarskýrsluna, fullyrti, sækjendum til mikillar ánægju, að Florence hefði drukknað.

Hvað sem þessum vangaveltum líður þá kom nýr vinkill í ljós; Florence hafði átt í ástarsambandi við Glenn nokkurn Stark, vin Marks, og höfðu þau, örfáum dögum fyrir dauða Florrence, notið ásta.

Verjandi Marks sagði að skjólstæðingur sinn hefði ekki komist að framhjáhaldi eiginkonu sinnar fyrr en eftir dauða hennar, svo ekki gæti það talist ástæða til morðs.

Stórskuldugur spilafíkill

Florence hafði ekki flíkað ástarsambandi hennar og Glenns en hafði ekki farið í launkofa með þau vonbrigði sem hún hafði orðið fyrir hvað hjónaband hennar og Marks áhrærði.

Mark var fyrrverandi veðlánamiðlari og hafði einnig átt góðu gengi að fagna sem íþróttaþulur í útvarpi. Heldur hafði sigið á ógæfuhliðina hjá honum því hann átti að baki meðferð vegna áfengis- og eiturlyfjafíknar og var skuldum vafinn vegna spilafíknar.

Í júní 2006, í níundu viku réttarhaldanna yfir Mark Unger, komst kviðdómur að þeirri niðurstöðu að Mark væri sekur um morð að yfirlögðu ráði. Það hafði tekið kviðdóm 26 klukkustundir á fjögurra daga tímabili að komast að þeirri niðurstöðu.

Dómari í málinu fyrirskipaði að Mark skyldi vera í varðhaldi þar til dómur yrði kveðinn upp, sem gert var 19. júlí. Mark Unger fékk lífstíðardóm án möguleika á reynslulausn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 klukkutímum

Ert með ofnæmi fyrir hundum? Þá gætirðu líka verið með lítt þekkt kynlífsofnæmi

Ert með ofnæmi fyrir hundum? Þá gætirðu líka verið með lítt þekkt kynlífsofnæmi
Pressan
Fyrir 2 klukkutímum

Tannlæknir deilir ofureinföldu „tannbjörgunarráði“ fyrir kaffidrykkjufólk

Tannlæknir deilir ofureinföldu „tannbjörgunarráði“ fyrir kaffidrykkjufólk
Pressan
Fyrir 3 klukkutímum

Hversu oft á að þvo handklæði og sængurver?

Hversu oft á að þvo handklæði og sængurver?
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Stuðningsmenn Liverpool brjálaðir yfir þessari ákvörðun Klopp í kvöld

Stuðningsmenn Liverpool brjálaðir yfir þessari ákvörðun Klopp í kvöld
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi
Fókus
Fyrir 16 klukkutímum

Styttist í barnamenningarhátíð í Reykjavík – Vegleg dagskrá og börnin í aðalhlutverki

Styttist í barnamenningarhátíð í Reykjavík – Vegleg dagskrá og börnin í aðalhlutverki