fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024

Faðir myrðir fimm

Fjöllyndur faðir myrðir eiginkonu sína og börn – Fjarvistarsönnunin hélt ekki vatni

Kolbeinn Þorsteinsson
Laugardaginn 28. maí 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vincent Brothers var í ágætisstarfi sem aðstoðarskólastjóri við Fremont-grunnskóla í Bakersfield í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Eiginkona hans, Joanie, var vel þokkuð og áttu þau þrjú börn; Marques, fjögurra ára, Lindsey, tæplega tveggja ára, og Marshall, hálfs árs.
En hjónaband Vincents og Joanie hafði ekki farið varhluta af erfiðleikum. Joanie ól Marques árið 1998 og var Vincent víðs fjarri við það tækifæri, en Joanie og Vincent gengu ekki í hjónaband fyrr en árið 2000. Hjónabandið varð skammlíft og þau sögðu skilið við hvort annað mánuði eftir að hafa heitið hvort öðru ævarandi tryggð. Síðar sama ár fæddist Lindsey og virtist sem Vincent léti sig það litlu varða og lét ekki sjá sig við það tækifæri.

Haltu mér – slepptu mér

Hjónabandið var ógilt árið 2001 og bar Vincent við sígildum ósættanlegum ágreiningi en Joanie bar við brigslum, að sögn vegna þess að á þeim tíma sem þau gengu í hjónaband hafði hún enga vitneskju haft um þá staðreynd að Vincent hafði verið kvæntur í tvígang fyrir.
Vinir og vandamenn Joanie töldu þó fullvíst að Joanie elskaði Vincent og vildi ekkert fremur en að þau gætu verið fjölskylda. Og Joanie og Vincent áttu í sambandi með hléum og í janúar 2003 gengu þau aftur í hjónaband og Marshall leit skömmu síðar dagsins ljós.
Reyndar hafði Vincent komist upp á kant við Ernestine, tengdamóður sína, og flutt út af heimili hjónanna í apríl 2003, en engu að síður virtist sem flest allt væri í lukkunnar velstandi.
Sunnudaginn 6. júlí, 2003, sóttu Ernestine og Joanie messu ásamt börnunum þremur. Í huga Joanie var þetta sérstakur dagur því hún sýndi safnaðarmeðlimum Marshall litla í fyrsta skipti þann dag. Vincent var fjarri góðu gamni, hafði farið í fjögurra daga ferð til Ohio til að heimsækja ættingja sína.

Ekkert svar

Að messu lokinni fengu Joanie, Ernestine og börnin sér hádegisverð með vinum sínum, þeirra á meðal bestu vinkonu Joanie, Kelsey Spann, og héldu síðan heim með það fyrir augum að hvíla sig fyrir kvöldmessu – messu sem þeim entist ekki líf til að sækja.
Tveimur dögum síðar, eftir árangurslausar símhringingar, ákvað Kelsey að renna við heima hjá Joanie enda ekki henni líkt að svara ekki símanum. Að utan virtist allt vera með felldu heima hjá Joanie, en þrátt fyrir að Kelsey aflæsti útidyrunum með lykli sem Joanie hafði láta hana fá tókst henni ekki að hnika hurðinni.
Kelsey fór þá aftur fyrir húsið og komst inn bakdyramegin. Henni mætti ófögur sjón og hringdi hún í snarhasti í lögregluna sem kom á staðinn innan örfárra mínútna – rétt upp úr klukkan 19 – sem fannst sem hún væri komin í hryllingshús.

Fimm fórnarlömb

Fyrsta líkið sem varð á vegi lögreglu var lík Ernestine, hún hafði verið skotin tvívegis í andlitið af stuttu færi og lá á ganginum fyrir framan svefnherbergi sitt. Í öðru svefnherbergi lágu lík Joanie og barnanna og virtist sem þau hefðu verið myrt þar sem þau lágu og hvíldu sig fyrir kvöldmessuna sunnudaginn áður.
Joanie lá á grúfu, hafði verið skotin og stungin í höfuð, bringu og bak. Lindsey lá á gólfinu við rúmbríkina, í bláa sunnudagskjólnum, og hafði verið skotin einu sinni í bakið.
Marques lá við hlið móður sinnar og taldi lögreglan að hann hefði vaknað fyrir morðin. Augu hans voru galopin og hann hafði bitið svo fast í hægri hönd sína að náði inn að beini.
Marshall var ekki að sjá við fyrstu sýn og vonaði lögregla að honum hefði verið þyrmt. Sú von varð að engu er lík hans fannst undir kodda. Hann hafði verið myrtur með einu skoti í bakið.

Fölsuð undirskrift

Lögreglan fann Vincent á heimili móður hans í Norður-Kaliforníu og færði honum tíðindin. Þegar þar var komið sögu var hann sá eini sem grunaður var um aðild að morðunum, en hann hafði lagt í ferðalag fjórum dögum fyrir morðin og lögregla gat ekki með góðu móti borið brigður á fjarvistarsönnun hans að svo komnu máli.
En síðar hljóp á snærið hjá lögreglu er nágranni Joanie upplýsti lögreglu um að hann hefði séð Vincent við hús Joanie um svipað leyti og morðin voru framin. Þegar lögreglan fór í saumana á skrá yfir notkun Vincents á bílaleigubíl, sem hann hafði leigt til ferðalagsins, kom í ljós að sú vegalengd sem hann hafði ekið var miklum mun lengri en frá Ohio til Kaliforníu og til baka.

Bróðirinn bendlaður við málið

Vincent lagði fram, til staðfestingar fjarvist sinni, nokkrar kvittanir fyrir kaupum í Norður-Kaliforníu sem átt höfðu sér stað á morðdaginn. En lögreglan lét ekki blekkjast og rannsókn á kreditkortakvittununum og upptökum úr öryggismyndavélum viðkomandi verslana leiddi í ljós að bróðir Vincents, Melvin, hafði notað kortin og falsað undirskrift Vincents. Þegar gengið var á Melvin gafst hann upp á lygunum og játaði að hafa, að beiðni Vincents, notað kreditkortið.
Að sögn ákæruvaldsins hafði Vincent ekki verið við eina fjölina felldur í ástamálum og myrt fjölskyldu sína til að losna við þá fjárhagslegu byrði sem henni fylgdi.
Vincent Brothers var, 15. maí 2007, sakfelldur fyrir fimm morð og 27. september sama ár var kveðinn upp yfir honum dauðadómur og bíður hann nú örlaga sinna á dauðadeild San Quentin-fangelsisins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 9 klukkutímum

Hversu oft þværðu ræktarfötin? – Þessu flaska flestir á

Hversu oft þværðu ræktarfötin? – Þessu flaska flestir á
EyjanFastir pennar
Fyrir 9 klukkutímum

Svarthöfði skrifar: Skortir heimildarmynd

Svarthöfði skrifar: Skortir heimildarmynd
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Jói Kalli framlengir við KSÍ og mun áfram aðstoða Hareide

Jói Kalli framlengir við KSÍ og mun áfram aðstoða Hareide
Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

Ásdís Rán segist hafa verið óskipaður sendiherra Íslands

Ásdís Rán segist hafa verið óskipaður sendiherra Íslands
Fókus
Fyrir 11 klukkutímum

Smellti í nektarmynd til að sýna brúnkusprautunina

Smellti í nektarmynd til að sýna brúnkusprautunina
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Ósáttir með byrjunina en fullir sjálfstrausts – „Við þurfum að bæta okkar leik“

Ósáttir með byrjunina en fullir sjálfstrausts – „Við þurfum að bæta okkar leik“
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Ummæli Mourinho um hetju helgarinnar eldast ansi vel

Ummæli Mourinho um hetju helgarinnar eldast ansi vel
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Rúmlega 100 sýnendur taka þátt á Verk og vit

Rúmlega 100 sýnendur taka þátt á Verk og vit