fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Leikvöllur spillta lögreglustjórans

Arturo Durazo Moreno var lögreglustjóri í Mexíkóborg – Var besti vinur forsetans sem barn og lét hann um að vinna heimanámið

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 5. október 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ef leitað er að orðinu spilling í mexíkóskri orðabók er ekki ólíklegt að við hlið þess sé andlitsmynd af Arturo Durazo Moreno, fyrrverandi lögreglustjóra Mexíkóborgar. Arturo gegndi embætti lögreglustjóra á árunum 1976 til 1982 en valdatíð hans fer seint í sögubækurnar fyrir eftirtektarverðan árangur í baráttunni gegn spillingu og glæpum.

Maðkur í mysunni

Arturo þénaði aðeins sem nemur 115 þúsund krónum á mánuði en þrátt fyrir það lifði hann hátt – svo hátt að menn töldu snemma að maðkur væri í mysunni. Hann átti tvær glæsivillur, flott safn af ýmsum verðmætum fornbílum auk þess að eiga fasteignir í Kanada og Bandaríkjunum. Arturo átti sínar skuggahliðar; hann var gjörspilltur, mokaði inn seðlum á kókaínsmygli til Bandaríkjanna og þáði mútur frá glæpamönnum sem héldu þeim utan fangelsismúranna.

Arturo var dæmdur í sextán ára fangelsi árið 1986. Honum var sleppt úr haldi af heilsufarsástæðum árið 1992.
Spilltur Arturo var dæmdur í sextán ára fangelsi árið 1986. Honum var sleppt úr haldi af heilsufarsástæðum árið 1992.

Handtekinn í Kostaríku

Það var samt ekki fyrr en nokkru eftir að Arturo lét af embætti að hann var handtekinn. Handtökuskipun hafði verið gefin út á hendur honum og þegar hann frétti af því flúði hann land og ferðaðist milli fjölmargra landa í Mið- og Suður-Ameríku. Það var árið 1984 að bandaríska alríkislögreglan, FBI, handtók hann í Kostaríku. Tveimur árum síðar var hann framseldur til Mexíkó þar sem hann var dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir spillingu, fjárkúgun og mútuþægni. Honum var sleppt úr fangelsi af heilsufarsástæðum árið 1992 eftir að hafa setið á bak við lás og slá í sex ár. Arturo lést í ágúst 2000, 76 ára gamall.

Lögreglumenn í byggingarvinnu

Meðfylgjandi eru myndir frá annarri af glæsivillum Arturos í Zihuatanejo í Guererro-héraði. Villan stendur í fallegri hlíð og þaðan er óhindrað útsýni yfir Kyrrahafið. Sagan á bak við það hvernig Arturo reisti villuna er athyglisverð. Arturo er sagður hafa fengið undirmenn sína, óbreytta lögregluþjóna, í byggingarvinnu við að byggja höllina. Þar sem höllin stendur í töluverðum bratta þurftu lögreglumennirnir að sinna líkamlega erfiðri vinnu og bera byggingarefni upp nokkurn bratta.

Arturo er sagður hafa haldið fjölmörg teiti í villum sínum þar sem hann bauð vinum og vandamönnum sínum. Það voru ekki bara vinir hans sem héldu þar til því sagan segir að Arturo hafi einnig boðið óvildarmönnum sínum og haldið þeim föngnum í höllinni. Þeim sem þorðu að slást – og höfðu betur – við tígrisdýr, sem Arturo hélt í búri í villunni, var sleppt en hinir sem þorðu því ekki – eða töpuðu – sneru ekki lifandi út af lóðinni.

Það hefur ekki verið amalegt að drekka morgunkaffið við þessar aðstæður.
Óhindrað útsýni Það hefur ekki verið amalegt að drekka morgunkaffið við þessar aðstæður.

Mynd: Brian Fey

Ótrúlegar sögur af stjórnarháttum

Þar með er ekki öll sagan sögð því sögur af stjórnarháttum lögreglustjórans eru æði skrautlegar. Þannig er hann sagður hafa breytt skrifstofubyggingu sinni í hálfgert hóruhús þar sem vændiskonur komu og fóru. Fjárhagur lögreglunnar í Mexíkóborg var rjúkandi rúst eftir hann og er það ekki síst vegna þess að peningar frá ríkinu fóru beint í vasa hans. Það endaði með því að lögregluþjónar óku um götur borgarinnar á eigin bílum og þurftu sjálfir að leggja út fyrir lögreglubúningi. Arturo leitaði allra leiða til að bæta eigin fjárhagsstöðu. Bílar voru reglulega dregnir burt – jafnvel þótt þeim hefði verið lagt löglega og Arturo stakk sektargreiðslum í vasann þegar eigendur komu að vitja bifreiða sinna.

Í embættistíð Arturos gerðu kólumbískir bankaræningjar bankastofnunum í Mexíkóborg lífið leitt. Lögregla rannsakaði málið og komst að því hverjir voru að verki. En í stað þess að leiða þá fyrir dómara og rétta yfir þeim komst Arturo að samkomulagi við þá um að fá sinn skerf af kökunni – gegn því að þeir héldu áfram að ræna banka. Og um leið og Arturo fékk illan bifur á þessu samstarfi lét hann koma mönnunum fyrir kattarnef.

Mynd: Brian Fey

Vann heimanámið fyrir forsetann

Valdatíð Arturos tók enda árið 1982 þegar kjörtímabili forsetans, Lopez Portillo, lauk. Arturo og Lopez voru æskuvinir en þeir kynntust þegar Arturo, sem var kallaður El Negro, tók að sér að vernda Lopez á skólalóðinni fyrir eineltisseggjum. Viðurnefnið El Negro hlaut Arturo fyrir að veigra ekki fyrir sér að slást við óvini sína og velta sér upp úr drullunni í leiðinni. Í staðinn fyrir verndina vann Lopez heimavinnuna fyrir Arturo samviskusamlega. Þegar Lopez var kjörinn forseti árið 1976 var eitt af hans fyrstu verkum að skipa Arturo, æskuvin sinn, í embætti lögreglustjóra Mexíkóborgar. Lopez lét sem kunnugt er af embætti árið 1982 og í kjölfarið ákvað Arturo að flýja enda voru pólitískir andstæðingar farnir að sauma hressilega að honum.

Á árunum eftir að Arturo var sakfelldur og dæmdur í fangelsi ákváðu yfirvöld í Mexíkó að opna eins konar minningarvarða um spillingu í landinu í annarri af glæsivillum lögreglustjórans. Örlög hinnar villunnar, sem meðfylgjandi myndir eru af, urðu þó önnur og verri. Farið var ránshendi um villuna þar sem flestöllu nýtilegu var stolið. Villan er nú í niðurníðslu og í raun ekkert annað en minnisvarði um svartan blett á sögu Mexíkóborgar.

Fór sínar eigin leiðir í valdatíð sinni.
Arturo Fór sínar eigin leiðir í valdatíð sinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Átján rafmyntaverum lokað í Svíþjóð – Lugu að skattinum til að spara milljarða

Átján rafmyntaverum lokað í Svíþjóð – Lugu að skattinum til að spara milljarða
Eyjan
Fyrir 2 klukkutímum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Pressan
Fyrir 3 klukkutímum

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið

Hrútur varð hjónum að bana – Nágrönnum mjög brugðið
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Pétur Theódór snýr aftur heim til Gróttu eftir erfið meiðsli

Pétur Theódór snýr aftur heim til Gróttu eftir erfið meiðsli
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Katrín með forskot á Baldur – Halla Hrund sækir í sig veðrið

Katrín með forskot á Baldur – Halla Hrund sækir í sig veðrið
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum
Hartman í Val
Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum

Kúrekar og jakkafatalakkar Alþingis – „Fólkið í fínu fötunum, með fínu skoðanirnar og fínu brosin“

Kúrekar og jakkafatalakkar Alþingis – „Fólkið í fínu fötunum, með fínu skoðanirnar og fínu brosin“
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Svona hafa síðustu leikir Stjörnunnar og Vals farið – Hvað gerist í kvöld?

Svona hafa síðustu leikir Stjörnunnar og Vals farið – Hvað gerist í kvöld?
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Arteta sagður skoða þessa tvo framherja fyrir sumarið

Arteta sagður skoða þessa tvo framherja fyrir sumarið