„Stúdentar, ekki vantar kröfurnar og frekjuna“

Grein Stefaníu Jónsdóttur í Morgunblaðinu vekur athygli

Mynd: © DV ehf / Stefán Karlsson

„Stúdentar, ekki vantar kröfurnar og frekjuna, auðvitað má ekki fara fram á námsárangur, sum ykkar dingla þarna allt of lengi,“ skrifar Stefanía Jónsdóttir frá Sauðárkróki í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag og nefnist Mál að linni. Þar fer hún hörðum orðum um nokkra þjóðfélagshópa og einstaklinga og þar á meðal námsmenn sem hún segir alltof mikið gert úr.

„Það er byggt undir ykkur og veitt lán, bara ekki sjálfsagður hlutur. Þið hafið það betra en verkafólkið sem nær veri að huga að, fólk sem skapar verðmæti og borgar þetta allt. Það er hættulegt þjóðum sé menntunin misnotuð eins og hér. Stór hluti ykkar hefur ekkert þarna að gera, svo farið bara að vinna. Þegar sýnt er frá Háskólanum undrast ég að þetta sé frá æðstu menntastofnun landsins. Þarna sitjið þið í hópum, slafrið í ykkur æti og drykk, með tölvurnar, og gasprið. Þetta er ef til vill framhaldið frá upphafinu, það er dagheimilinum,“ skrifar Stefanía en grein hennar Konur, sem birtist í Morgunblaðinu í september fyrir ári, vakti einnig mikla athygli líkt og þessi.

Í dag er hún er afar ósátt við stúdenta, Pírata og femínista sem hún kallar „dekurrófurnar“.

„Því gerið þið ekki gagn, samanber að taka fyrir og hjálpa ungum stúlkum í neyslu, sem verið er að misnota og kvelja af glæpalýð,“ skrifar Stefanía um femínista. „Þó það væri bara að opna umræðurnar. Auðvitað ekki, ykkar eigin fórnarlambaleikur og sjálfhverfa leyfir það ekki,“ skrifar Stefanía en bent skal á rekin eru athvörf fyrir konur sem beittar hafa verið ofbeldi, þar á meðal Kvennaathvarfið og Kristínarhús.

„Fegurðarsamkeppni, hverjum kemur við hvort stúlkur vilja taka þátt, hættið að niðurníða aðra, og þingkona tekur þátt í þessari afskiptasemi. Ja, svei. Jafnréttisbarátta á að vera einstaklingsbundin, ekki kynbundin. Þið beitið hótunum, það gera þeir sem ekki treysta sjálfum sér. Ég er ekki fórnarlamb sem þarf í stríð við hitt kynið, það er dásamlegt að vera kona sem hefur sitt fram án stríðs. Síðasta hótun ykkar snýr að Háskólanum. Jón Baldvin er einn af orðhákunum sem kunna að koma sér á jötuna, og vera þar, ekki í áliti hjá mér, en það er fráleitt að fara eftir hótunum ykkar. Það er ekki hægt að hafa þannig þjóðfélag að öfgahópar valti yfir aðra,“ skrifar Stefanía.

Þá segist hún ekki vilja borga þingflokki Pírata laun ef þeir ætli að beita ofbeldi á þingi í nafni lýðræðis. „Sameiginlegt með þessum þremur hópum, er skortur á lífsgreind,“ skrifar Stefanía sem lýkur máli sínu með skilaboðum til þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Brynjars Níelssonar. „Því talar þú til þjóðarinnar að hún sé smáborgari, við höldum þér uppi og hver ert þú? Snobb er í sæng með heimsku, svo ekki vera þetta snobbhænsni.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.