Fórnaði öllu fyrir nektina

Barnsmóðir nakta göngugarpsins skilur ekki hvers vegna hann taki nektina fram yfir fjölskylduna

Skotinn Stephen Gough hefur setið í fangelsi á Skotlandi í sex ár, fyrir að fækka fötum ítrekað. Ástríða hans er að ganga nakinn um og hann hefur svo gengið langt í nektinni að konan hans fór frá honum.

Í hvert sinn sem að honum var sleppt úr fangelsi, þá fækkaði hann fötum og var samstundis fangelsaður aftur. „Hann hefur verið undanfarin sex ár í einangrun vegna þess að hann vill ekki klæðast fötum og það finnst mér óskiljanlegt. Hann fórnar alltof miklu til þess að ganga nakinn um,“ segir fyrrum maki hans, Alison Ward við breska Daily Mail.

„Skosk yfirvöld vilja finna eitthvað að Steve, hann er vandræðagripur fyrir þeim. En að halda manni læstum inni í 23 og hálfa klukkustund á dag hjálpar ekki landi sem vill vera framsækið og opið.“

Fór nakinn út á vídeóleigu

Stephen er 34 ára og á tvö börn með Alison. Þau hittust fyrst árið 1993 og ástin blómstraði. Allt lék í lyndi, þau eignuðust börn saman en hann sótti ætíð meira í að fækka fötum á almannafæri. Árið 2001 var hann oft nakinn í fjölskylduferðum. Í fyrstu segir Alison við Daily Mail að henni hafi verið nokkuð sama, hann hafi verð á guðsklæðunum á afskekktum stöðum í náttúrunni.

„En þetta stigmagnaðist mjög hratt, hann byrjaði að ganga um berrassaður á meðal ókunnugs fólks.“ Fór hann til að mynda berrassaður eitt sinn og skilaði DVD mynd. En kornið sem fyllti mælinn var þegar hann mætti nakinn til morgunverðar með foreldrum Alison. Það þoldu þau ekki enda afar íhaldssamt fólk. Þá ákvað hún að fara frá honum.

Stephen tók þá upp á að fara í langar göngur nakinn. Hann var duglegur við það að hitta börnin sín en eftir því sem þau urðu eldri fór Alison að kvarta meira undan nektinni. Að endingu setti hún honum afarkosti, að fara í föt þegar hann hitti börnin, eða að hitta þau alls ekki. Ekki stóð á svari. „Allt í lagi, þá hitti ég þau ekki,“ svaraði Steve.

Hann situr nú í fangelsi fyrir að ganga á guðsklæðunum, og börnin og Alison skilja ekki hvers vegna hann setji nektina í fyrsta sætið, en þau í annað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.