Átök í Viðreisn

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Svo virðist sem átakalínur séu að teiknast upp innan Viðreisnar þessa dagana. Mikillar þreytu og vantrausts gætir í garð Benedikts Jóhannessonar formanns og sagt er að búið sé að afskrifa hann sem formann. Skuldinni vegna arfaslakra fylgismælinga flokksins í skoðanakönnunum er skellt á Benedikt og á hann sér orðið fáa talsmenn. Mikil valdabarátta á sér nú stað bak við tjöldin milli Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Þorsteins Víglundssonar um formannsstólinn. Þannig var eftir því tekið að Þorgerður talaði með mildari tón í garð íslensks landbúnaðar á dögunum þegar hún lýsti því að bregðast þyrfti við lækkuðu afurðaverði til sauðfjárbænda. Örskömmu síðar trillaði hins vegar Þorsteinn upp með stöðufærslu á Facebook þar sem hann sparkaði í tollvernd landbúnaðarvara og sagði tímabært að breyta kerfinu. Er talið að með því hafi hann beint spjótum sínum beint að Þorgerði. Gallinn er hins vegar sá að samkvæmt samþykktum Viðreisnar á ekki að halda landsfund, þar sem kosið er um formann, fyrr en haustið 2018. Það er því hætt við að átökin geti orðið langvinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.