Innflutningur á drykkjarvörum í uppnámi vegna séríslenskrar kröfu um lóðrétt strikamerki

Félag atvinnurekenda og evrópsk samtök áfengisframleiðenda mótmæla órökstuddri breytingu sem á að taka gildi 1. júní

Dósin til hægri uppfyllir kröfur nýju reglugerðarinnar, en ekki flaskan til vinstri. Enn er óljóst af hverju umhverfisráðuneytið telur nauðsynlegt að gera kröfu um að strikamerki séu lóðrétt, segir FA.
Lárétt eða lóðrétt? Dósin til hægri uppfyllir kröfur nýju reglugerðarinnar, en ekki flaskan til vinstri. Enn er óljóst af hverju umhverfisráðuneytið telur nauðsynlegt að gera kröfu um að strikamerki séu lóðrétt, segir FA.
Mynd: atvinnurekendur.is

Ný reglugerð um drykkjarvöruumbúðir, sem taka á gildi 1. júní, getur sett innflutning á drykkjarvörum í uppnám segja Félag atvinnurekenda(FA) en í reglugerðinni, sem samin er í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, er gerð sú krafa að strikamerki á drykkjarvöruumbúðum verði lóðrétt en ekki lárétt.

„Þetta skapar viðskiptahindrun, sem að mati FA er algjörlega órökstudd. Félagið hefur andmælt breytingunni og slíkt hið sama hafa evrópsk samtök áfengisframleiðenda gert,“ segir í frétt á vef FA.

Frá og með næstu mánaðamótum er áætlað að ný reglugerð um söfnun, endurvinnslu og skilagjald á einnota drykkjarvöruumbúðir taki gildi. Reglugerðin er nú í kynningarferli á Evrópska efnahagssvæðinu.

Kostnaður við endurmerkingu mun lenda á neytendum

FA segir að kostnaður við við hina furðulegu kröfu um lóðrétt strikamerki á drykkjarvöruumbúðum muni klárlega lenda á neytendum.

„Strikamerki á drykkjarvöruumbúðum í dag eru ýmist lóðrétt eða lárétt; t.d. eru flestar léttvínsflöskur og flöskur með sterku áfengi með láréttu strikamerki en það er mismunandi með bjórtegundir og gosflöskur. Á þeim tegundum sem eru innfluttar sér erlendi framleiðandinn um að setja strikamerkið á vöruna. Vegna smæðar markaðarins er nánast útilokað að erlendir framleiðendur myndu fást til að sérmerkja þær vörur sem flytja ætti til Íslands svo krafa reglugerðarinnar yrði uppfyllt. Þá yrðu innflytjendur að endurmerkja allar flöskur með ærnum tilkostnaði og vinnu. Ljóst er að sá kostnaður myndi að endingu lenda á neytendum með hærra vöruverði,“ segir á vef FA sem bendir á að sambærilega kröfu sé ekki að finna í Evróputilskipun eða Evrópureglugerð. Um sé að ræða „séríslenska kröfu“ sem skapa muni viðskiptahindrun á markaði.

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Mynd: Kristín Bogadóttir

Krafan er órökstudd

FA hefur sent umhverfis- og auðlindaráðuneytinu formlegt erindi og farið fram á að reglugerðinni verði breytt. „Að okkar mati er afar gagnrýnivert að ráðuneytið hefur ekki rökstutt með neinum hætti þörfina á þessari nýju kröfu,“ er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA.

„Krafa sem þessi er hvergi annars staðar í gildi á EES-svæðinu. Hún er gríðarlega íþyngjandi fyrir íslensk fyrirtæki, skapar viðskiptahindrun og mun að öllum líkindum hafa í för með sér hærra vöruverð fyrir neytendur. Þetta er enn eitt dæmið um að stjórnsýslan setur reglur út í loftið án þess að velta fyrir sér eitt augnablik áhrifunum á atvinnulífið.“

Mótmæla harðlega

Reglugerðin er í umsagnarferli á EES-svæðinu til 23. maí. Evrópusamtök áfengisframleiðenda, Spirits Europe, hafa þegar mótmælt umræddu ákvæði hennar harðlega. Þau segja það skapa viðskiptahindrun, þörfin á því sé óútskýrð og önnur ríki EES séu ekki í neinum vandræðum með að leyfa hvort heldur er lárétt eða lóðrétt strikamerki á drykkjarvöruumbúðum. Í umsögn samtakanna kemur fram að stór alþjóðlegur áfengisframleiðandi meti það svo að fyrirtækið þurfi að breyta 85% af flöskumiðum sínum til að geta selt vörur sínar til Íslands, taki reglugerðin gildi.
Samtök skoskra viskíframleiðenda, Scottish Whisky Association, hafa sömuleiðis komið á framfæri andmælum vegna reglugerðarinnar.

Gildistöku frestað en óvíst hvort krafan verður felld út

Í ljósi þess að aðeins líður vika frá því að frestur aðila í EES-ríkjum til að gera athugasemdir við reglugerðina rennur út og þar til hún á að taka gildi, hefur umhverfis- og auðlindaráðuneytið ákveðið að fresta gildistökunni, samkvæmt upplýsingum sem FA hefur aflað sér. Hins vegar hefur ráðuneytið ekki gefið svör um það hvort reglugerðinni verði breytt og hin séríslenska krafa um lóðrétt strikamerki tekin út úr henni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.