Okrað á ferðamönnum með íslensku nasli: Algengt kílóverð á sambærilegri vöru 8 þúsund krónur

Kílóið af túristaharðfiski á 26 þúsund krónur

Kílóverðið á þessum harðfisksbitum sem augljóslega eru markaðssettir fyrir erlenda ferðamenn er rúmar 26 þúsund krónur.
Fokdýr fiskur Kílóverðið á þessum harðfisksbitum sem augljóslega eru markaðssettir fyrir erlenda ferðamenn er rúmar 26 þúsund krónur.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Munað getur 105 prósentum á kílóverði á íslenskum harðfiski þar sem verðmunurinn er einungis útskýrður með því að sumum er pakkað í umbúðir sem eiga að höfða til erlendra ferðamanna en hinum ekki. Kílóverðið á harðfisksbitunum Icelandic Dry Fish, sem seldir eru í 30 gramma dósum, í verslunum 10-11 er 26.633 krónur. Algengt kílóverð á sambærilegum bitaharðfiski í verslunum er um átta þúsund krónur.

Græðgin má ekki heltaka okkur

Fjölmörg dæmi eru um að dæmigerðum íslenskum vörum sé umpakkað í erlendar umbúðir og þær seldar með gríðarlegri álagningu. Formaður Neytendasamtakanna segir að Íslendingar þurfi almennt að fara að hugsa sig gang varðandi okur á ferðamönnum og gæta sín á að láta græðgina ekki heltaka sig. Orðspor okkar sé undir.

Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, segir að Íslendingar verði að passa sig á því að okra ekki á ferðamönnum.
Ekki geðfellt Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, segir að Íslendingar verði að passa sig á því að okra ekki á ferðamönnum.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Við höfum séð þetta í ýmsum vörutegundum að vara er sett í aðrar umbúðir með erlendum merkingum og seld á miklu hærra verði. Almennt teljum við náttúrlega ekki til fyrirmyndar að gera svona. Við, Íslendingar, þurfum að hugsa okkar gang. Græðgin má ekki alveg heltaka okkur gagnvart þessum túrisma,“ segir Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna.

Hann segir Íslendinga verða að gæta sín.

„Við megum ekki verða einhvers konar kúrekar þegar kemur að þessum ferðaiðnaði. Ég hef áhyggjur af því að við séum þegar farin að geta okkur misjafnt orð sem þjóð sem geri út á okur á útlendingum. Það er ekkert sniðugt og mér finnst ekki mjög geðfellt að okra á túristum.“

DV fjallaði um þetta tvöfalda verðlag í fyrra þar sem kom í ljós að það getur verið allt að 120 prósentum dýrara fyrir erlenda ferðamenn að kaupa sælgæti og aðra neysluvöru sem beint er sérstaklega að þeim í minjagripa- og matvöruverslunum í hjarta miðbæjarins en sambærilegar vörur í hefðbundnum matvöruverslunum.

Dæmi um slíkt var 150 gramma poki af Freyjumöndlum sem seldar eru sem Icelandic Lava Sparks í lundabúðum á 990 krónur en hefðbundnar kostuðu þá 249 krónur í Hagkaupum.

Mýmörg dæmi eru um að hefðbundnu íslensku sælgæti sé umpakkað og það selt dýrum dómum í ferðamannabúðum.
Möndlur sem Lava Sparks Mýmörg dæmi eru um að hefðbundnu íslensku sælgæti sé umpakkað og það selt dýrum dómum í ferðamannabúðum.
Mynd: SMJ

DV barst ábending um Icelandic Dry Fish harðfiskbitana frá viðskiptavini 10-11 sem blöskraði álagningin. 30 gramma dós kostaði 799 krónur og merkt kílóverð sem fyrr segir 26.633 krónur, sem gerir þetta líklega að dýrasta harðfiski Íslands. Harðfiskur hefur aldrei verið ódýr, enda fer mikið hráefni í að búa til þetta íslenska hnossgæti. Það vakti athygli blaðamanns að í verslun 10-11 var einnig hægt að fá venjulegan bitaharðfisk frá öðrum framleiðendum í hefðbundnum íslenskum umbúðum, en kílóverðið á honum var á bilinu 11–12 þúsund krónur. Túristaálagningin á útlensku umbúðunum var því augljós.

Eins og dæmin sýna þá er engu líkara en sé að myndast tvöfalt hagkerfi hér á landi. Eitt þar sem gríðarleg álagning er á neysluvöru og annan varning sem beint er sérstaklega að erlendum ferðamönnum og síðan annað með sömu vörur í öðrum umbúðum fyrir Íslendinga. Ólafur bendir réttilega á að þetta þekkist víða og Íslendingar kannist við það sjálfir að á ferðamannastöðum þar sem gert sé út á útlendinga sé annað og hærra verð í ferðamannagötum en í hliðargötum eða hverfum þar sem innfæddir versla.

„Þetta er greinilega að verða eitthvað svipað hér og er einfaldlega ekkert sniðugt og kemur óorði á okkur Íslendinga. Menn verða að passa sig, gera hlutina af skynsemi en ekki af græðgi.“

Ólafur bendir á að þetta vandamál við túrismann geti einnig orðið vandamál fyrir íslenska neytendur. „Við sjáum til dæmis að verðlag á veitingahúsum á Íslandi er að verða háskalega hátt og það er auðvitað út af túrismanum, svo við verðum að gæta okkar.“

30 gramma dós af þessum harðfiski kostar 799 krónur. Bragðprófun blaðamanns leiddi í ljós að þetta er bara venjulegur harðfiskur.
Dýrir molar 30 gramma dós af þessum harðfiski kostar 799 krónur. Bragðprófun blaðamanns leiddi í ljós að þetta er bara venjulegur harðfiskur.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.