Ársaðild kostar 4.800 krónur og þú getur skráð þig í dag

Hvetja Íslendinga til að sækja um laus störf - Góð laun í boði

Costco hefur afar marga vöruflokka, en lítið úrval innan þeirra.
Kauptún Costco hefur afar marga vöruflokka, en lítið úrval innan þeirra.

Aðeins þeir sem hafa samning við Costco fá að versla í versluninni, sem opnar í Kauptúni í Garðabæ, seint í maí. Ársaðild kostar 4.800 krónur fyrir einstaklinga en 3.800 fyrir fyrirtæki. Aðild veitir aðgang að vöruhúsum fyrirtækisins um heim allan. Þeir sem vilja skrá sig, og njóta sérstakra afsláttarkjara, geta gert það í dag, eða nær alla daga fram að opnun versluninarinnar.

Stjórnendur Costco héldu kynningarfund á Hótel Nordica í hádeginu og fór þar yfir þróun fyrirtækisins, stefnu þess og hugmyndafræði.

Hér eru dæmi um vörur sem verða til í Costco.
Vestki og sólgleraugu Hér eru dæmi um vörur sem verða til í Costco.

Á meðal þess sem kom fram er að Costo hefur um 3.800 vörutegundir til sölu hverju sinni. Vöruflokkarnir eru ótal margir og vörurnar eru seldar í miklu magni en á kostnað úrvalsins innan hvers vöruflokks. Flestar vörur fyrirtækisins munu standa á vörubrettum í risastóru verslunarhúsinu í Kauptúni.

Margir vöruflokkar - lítið úrval

Óhætt er að segja að Costco selji allt milli himins og jarðar. Skrifstofuvörur, raftæki, hjólbarðar og bílavörur, verkfæri, fatnaður, eldhúsvörur, heimilistæki, húsgögn, skartgripir, íþróttavörur, leikföng, jólaskraut, gleraugu og dekk er á meðal þess sem þar verður að finna. Að auki mega viðskiptavinir búast við því að finna hátt í 2.000 vörutegundir af mat; þar á meðal mat sem framleiddur er á Íslandi.

Kirkland Signature er eitt þekktasta vörumerki í heimi. Það er í eigu Costco.
Krikland Kirkland Signature er eitt þekktasta vörumerki í heimi. Það er í eigu Costco.

Costco stílar inn á magnkaup. Þannig eru vörurnar, svo sem matvörur, seldar í mjög stórum einingum. Costco stólar fyrir vikið einnig á að smærri verslanir muni stunda við þá viðskipti, væntanlega á kostnað annarra heildsala.

Ætla að selja mikið af eldsneyti

Costo býður upp á þekkt innlend og erlend vörumerki á umtalsvert lægra verði en sést hjá hinum hefðbundnu heildsölum eða smásölum, að því er segir í kynningarriti sem afhent var á fundinum í morgun. Í versluninni verður einnig hægt að sækja þjónustu svo sem gleraugnaþjónstu og hjólbarðaþjónustu, auk þess sem Costco gerir ráð fyrir að selja eldsneyti í stórum stíl - aðeins handa þeim sem eru meðlimir.

Engin verðdæmi komu fram á fundinum. Forsvarsmenn gefa aðeins til kynna að verð verði hagstæðari en Íslendingar hafa áður kynnst.

Í versluninni verður auk þess sem að ofan er talið bakarí, lyfjaverslun og veitingastaður.

Fleiri dæmi um vörur sem Costco selur.
Dæmi Fleiri dæmi um vörur sem Costco selur.

Á fundinum kom fram að fyrirtækið hefur þegar fjárfest fyrir 6,2 milljarða króna á Íslandi. Það sé þess vegna komið til að vera á Íslandi. Þetta sagði Magan Chauhan fjármálastjóri Costco Wholesale á Bretlandi á fundinum.

30 ný vöruhús á ári

Um 85 milljónir manna eru meðlimir í Costco um heim allan. Fyrirtækið rekur 725 vöruhús og hefur að jafnaði stækkað um 13 prósent á ári frá árinu 1985. Fyrirtækið opnar á bilinu 20 til 30 ný vöruhús á hverju ári, eins og það sem mun opna í Kauptúni í maí.

Einn af forsvarsmönnum fyrirtækisins sagði fyrirtækið leggja allt kapp á að bjóða fólki vörur á svo hagstæðu verði að það spari góðar fjárhæðir. Þann sparnað sagðist hann vonast til að fólk myndi svo nota til að versla meira í Costco. Þá segist fyrirtækið leggja mikla áherslu á að vörur sem þeir kaupa séu framleiddar undir eftirliti, þannig að ekki sé hægt að hanka Costco fyrir að kaupa vörur af verksmiðjum þar sem aðbúnaður fyrir starfsfólk er slæmur. Þegar framleiðandi verði uppvís að einhverju misjöfnu er samningum ekki rift samstundis, því það geti bitnað beint á starfsfólki og nærumhverfi samfélagsins sem um ræðir, heldur gefi Costco fyrirtækinu þrjá mánuði til að gera nauðsynlegar úrbætur.

Þá sagði forsvarsmaður Costco að fyrirtækið selji aldrei sjávarafurðir sem framleiddar eru úr ósjálfbærum nytjastofnum. Þannig hafi fyrirtækið t.d. ekki selt túnfisk í Asíu, þrátt fyrir að eftirspurnin væri mikil. Þetta gilti um alla vöruflokka.

Skilaréttur á öllu - enginn mátunarklefi

Fyrirtækið leggur að sögn forsvarsmanna þess ríka áherslu á að bjóða gæðavörur á góðu verði. Þannig sé ekki smurt á merkjavörur eins og sums staðar tíðkast. Skilaréttur er á öllum vörum sem keyptar eru í Costco en þess má geta að þrátt fyrir að fyrirtækið selji mikið magn af fatnaði er enginn mátunarklefi í versluninni.

Costco gerir ráð fyrir að starfsmenn á Íslandi verði um 200 talsins. Fyrirtækið stærir sig af því að bjóða góð laun fyrir gott starfsfólk og hvetur Íslendinga til að sækja um störf hjá fyrirtækinu inn á nýopnuðum vef Costco, costco.is.

Á meðal starfa sem þar er hægt að sækja um er staða skrifstofustjóra, deildarstjóra vöruframsetningar, deildarstjóra vörumóttöku, deildarstjóra afgreiðslusvæðis og markaðsstjóra. Fyrirtækið segist kappkosta að starfsmenn vinni sem lengst hjá fyrirtækinu og starfsmannavelta sé í algjöru lágmarki.

Hægt að gerast meðlimur í dag

Þess má geta að þegar er hægt að gerast meðlimur, en inn á heimasíðu Costco er hægt að skrá sig. Þeim sem skrá sig áður en verslunin opnar býðst einhver afsláttur við fyrstu kaup á vöru í Kirkland vörulínunni, 1.500 króna inneign, ókeypis dekkjaþjónusta og gleraugnaþjónusta, svo eitthvað sé nefnt.

Þá er einnig hægt að mæta í vöruhúsið og gerast meðlimur, þó verslunin opni ekki fyrr en í maí. Þar er opið alla daga, frá 10-19 á virkum dögum og laugardögum og frá 10-18 á sunnudögum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.