fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Neytendur

Bestu kaupin í Costco

Þetta eru vörurnar sem hagstæðast er að kaupa – Lærðu að lesa í verðmiðann – Svona er hægt að versla án aðildar

Ritstjórn DV
Föstudaginn 17. febrúar 2017 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Klósettpappír, bleyjur, rafhlöður og leikföng eru á meðal þess sem hagstæðast er að kaupa í Costco. Bandaríski heildsölurisinn Costco opnar vöruhús sitt í Kauptúni eftir rúma þrjá mánuði, eins og íslenskum neytendum ætti að vera orðið kunnugt um. Í versluninni verða aðeins um 3.800 vörunúmer en á móti kemur að þeir selja vörurnar ódýrt og í risastórum einingum.

Á Youtube má finna mörg myndbönd um það hvernig hagstæðast er haga innkaupum sínum í versluninni. DV lagðist yfir nokkur af nýrri myndböndunum og hefur kortlagt hvaða vörur það eru sem lífsstílsfrömuðir á Youtube telja að best sé að kaupa í Costco. Upptalningin hér að neðan tekur mið af breskum og bandarískum Costco-verslunum en verslunin í Kauptúni verður útibú frá Bretlandi. Tekið skal fram að markaðsaðstæður á Íslandi geta verið aðrar en í þessum löndum. Þannig getur vara sem er dýr í Costco í Bandaríkjunum, samanborið við aðrar þarlendar verslanir, verið mjög ódýr samanborið við íslenskar verslanir. Þessu getur að sjálfsögðu líka verið öfugt farið.

Ómögulegt er að spá fyrir um nákvæma verðlagningu í Costco í Kauptúni. Þó skal haft í huga að aðspurðir sögðu forsvarsmenn þessa risafyrirtækis á kynningarfundi í síðustu viku, að ástæðan fyrir því að þeir opna fyrsta vöruhúsið á Norðurlöndum í Garðabæ, sé að þeir sjái mikið svigrúm til að bjóða miklu lægra verð en hér hefur tíðkast. Af þeim viðtölum mátti skilja að þeir sæju hag í að segja íslensku okri stríð á hendur, en eins og DV afhjúpaði með greinaröð í haust er verðlag á Íslandi í flestum tilfellum 60–80% hærra en í nágrannalöndunum. Þar virðist Costco sjá tækifæri.

Hvort tilkoma Costco á Íslandi verði til þess að verðlag lækki á Íslandi verður tíminn að leiða í ljós en hér eru nokkur dæmi um vörur sem í Bandaríkjunum og Bretlandi eru töluvert ódýrari í Costco en í þarlendum samanburðarverslunum. Hér er einnig að finna hagnýtar upplýsingar og trix sem hjálpa þér að búa þig undir þína fyrstu verslunarferð í Costco.


Mynd: 2013

Rafhlöður margfalt ódýrari

Allar rafhlöður í Costco eru framleiddar af Duracell. Þær eru hins vegar flestar seldar undir vörumerkinu Kirkland Signature, sem er í eigu Costco. Í þriggja mánaða gömlu myndbandi úr Costco, sjást 72 AA rafhlöður á um 2.100 krónur. Til samanburðar kosta fjögur stykki í Elko 445 krónur. Verðmunurinn er næstum fjórfaldur en óvíst er hvað rafhlöðurnar munu kosta í Costco í Kauptúni.


Mynd: COPYRIGHT, 2009

Áfylling á blekið

Margir hvetja fólk til að beina viðskiptum sínum að Costco þegar kemur að prentarableki. Costco býður alla jafna mikið úrval af blekhylkjum til sölu á mjög hagstæðu verði. Hagstæðast þykir þó að mæta með tómt blekhylki úr prentaranum og fá áfyllingu. Það ku vera margfalt ódýrara en að kaupa nýtt út úr búð. Dæmigert verð fyrir áfyllingu í Costco í Bandaríkjunum er um 1.000 krónur.


Kirkland Signature

Kirkland vörumerkið var hannað af Costco og er í eigu verslunarrisans. Undir því selur Costco gæðavörur í ótal flokkum, svo sem matvöru, raftæki, fatnað og hreinlætisvörur. Flestum virðist bera saman um að Kirkland Signature sé gæðamerki og standist þekktustu vörumerkjum heims snúning þegar kemur að gæðum – enda oft framleitt af sömu aðilum. Ruslapokar, bleyjur og klósettpappír eru dæmi um vörur sem hægt er að kaupa undir þessu vörumerki á sérstaklega hagstæðu verði.


Leikföng á kostaverði

Costco selur mjög mikið af leikföngum. Lífsstílsfrömuðir á Youtube segjast flestir versla allar sínar gjafir í Costco. Til að átta sig á því hvort verðið er gott er sniðugt að vera með app í símanum, t.d. frá Amazon, sem flettir upp verði eftir strikamerkinu eða QR Code. Þá getur verið sniðugt að skoða toysrus.is og leita þar að sömu vöru. Í þeim dæmum sem tekin eru á Youtube, svo sem af The Krazy Coupon Lady, reynast leikföng í Costco miklu ódýrari en á Amazon.


Svona verslar þú án aðildar

Costo selur einstaklingum árgjald að versluninni á 4.800 krónur. Samkvæmt áðurnefndum lífsstíls- og neytendafrömuðum á Youtube er hægt að komast hjá því að verða meðlimur, ef maður vill. Ef þú þekkir einhvern sem er meðlimur og vilt geta verslað geturðu beðið meðliminn að kaupa svokallað „Cash card“ eða inneign. Þú getur framvísað því við innganginn og fengið að versla. DV hefur ekki upplýsingar um hvort þetta verði í boði hér en þetta virðist í það minnsta í boði í Bandaríkjunum.


Bensín og annað eldsneyti

Costco leggur að 14% á flestar vörur sem þeir selja. Þar er eldsneyti eitt af því sem er undanskilið en almennt séð er talað um að eldsneyti sé selt án álagningar í Costco. Ef sú verður raunin hér, sem DV hefur ekki ástæðu til að efast um, gæti lítraverðið orðið miklu lægra en við Íslendingar eigum að venjast. Verið er að setja upp 16 dælur við Kauptún. Aðeins meðlimir geta verslað eldsneyti.


Fylgstu með endingunni

Dæmigert verð í Costco mun enda á níu krónum (t.d. 1.799 kr.). Þetta gildir raunar um flestar íslenskar verslanir. Þeir sem til þekkja í Costco ráðleggja fólki að fylgjast vel með vörum sem seldar eru á sléttu verði eða ef verðið endar á fjórum eða sjö krónum. Það bendir yfirleitt til þess að varnan sé á niðursettu verði. Og ástæða þess er að þá er verið að rýma fyrir nýrri vöru.


Ódýrasti skyndibitinn

Tilbúinn matur er seldur í miklu magni í Costco. Grillaður kjúklingur er ódýrari í Costco en í öðrum verslunum í Bandaríkjunum og Bretlandi en óvíst er hvað verður verður hér. Þá hefur Costco frá því um miðjan níunda áratug síðustu aldar selt pylsu og gos á einn og hálfan dollara. Það eru innan við 180 krónur. Ef verðlagningin verður á svipuðu róli í Kauptúni, má gera ráð fyrir að þar fari ódýrasti skyndibiti landsins – fyrir meðlimi.


Fylgstu með stjörnunni

Í Costco eru vörutegundirnar um 3.800 talsins, samanborið við t.d. um 50 þúsund í Walmart. Vörurnar eru seldar í miklu magni, enda stillt upp á brettum, en þannig næst fram hagræðing og fyrirtækið þarf ekki að borga starfsfólki fyrir að handraða vörum. Ef þú sérð vöru sem þig langar í í Costco, en ert ekki viss um að þú viljir kaupa strax, er hér gott ráð. Efst í hægra horni verðmiðans er stundum stjarna. Hún er til marks um að varan komi ekki aftur. Ólíklegt er að þú getir frestað því lengi að taka ákvörðun um að kaupa stjörnumerkta vöru.


Hvenær er rólegast?

Gera má ráð fyrir að fyrstu dagarnir verði annasamir í Costco í Kauptúni. Þannig eru helgarnar alla jafna líka, sem og tíminn eftir vinnu. Samkvæmt bandarískum og breskum lífsstílsbloggurum er rólegast í Costco yfir miðjan daginn eða síðdegis, frá 15–17. Spurning hvort það muni einnig eiga við um Ísland.


Klósettpappírinn

Hreinlætisvörur og þurrvörur eru góð dæmi um hluti sem endast lengi og skemmast seint eða alls ekki. Í Costco eru vörur seldar í stórum einingum, sem ekki er víst að henti smærri heimilum. Klósettpappír, eldhúsrúllur, bleyjur (eftir atvikum) og ruslapokar eru þó dæmi um vörur sem allir meðlimir Costco ættu að horfa til. Flestum ber saman um að þessar vörur fáist á áberandi hagstæðu verði í Costco. Klósettpappír er raunar sú vara sem Costo selur mest af á ársgrundvelli. Það er líklega ekki tilviljun.


Nammi fyrir jólin

Sælgæti er selt í stórum einingum í Costco, eins og svo margt annað. Og á Youtube mæla lífsstílsfrömuðir sterklega með verðinu á þeim vöruflokki. Augljós galli á gjöf Njarðar eru lýðheilsusjónarmið – en fæstir Íslendingar hafa gott af því að kaupa sælgæti í stóru upplagi. Einna helst væri hægt að ráðleggja slíkt í aðdraganda stórhátíða.


Kökur fyrir afmæli

Eitt af því fyrsta sem lífsstílsfrömuðir á Youtube nefna við Costco er úrval af nýbökuðu brauði og bakkelsi. Þar er til dæmis hægt að fá nokkuð úrval af kökum og tertum fyrir afmælisveislur, án þess að panta þurfi með fyrirvara. Bakkelsið þykir mjög ódýrt í Costco, miðað við bandarískt verðlag, en eins og um svo margt annað er óvíst hvað þetta mun kosta í Costco hér heima.


Sjónvarpstæki

Í Costo er hægt að kaupa daglegar neysluvörur en einnig stærri hluti eins og hjólbarða og stór raftæki. Kunnugir hafa orð á því að gott sé að fylgjast með verði á raftækjum á borð við sjónvarpstæki í kringum „Black Friday“ og jól. Þá sé stundum hægt að gera frábær kaup. Aftur mælir DV með að neytendur geri verðsamanburð áður en slík vara er keypt. Elko er á heildina litið með ódýrustu sjónvarpstækin á markaði. Á elko.is er hægt að fletta upp öllu verði. Ekki kaupa í blindni.


Barna- og útiföt

Í lífsstílsmyndböndunum á Youtube tala flestir um að gott sé að kaupa fatnað á börn í Costco. Þar er góð merkjavara á mjög hagstæðu verði. Minnt skal á að engir mátunarklefar eru í Costco svo það er mjög mikilvægt að vera með stærðirnar á hreinu, áður en farið er í verslunarferð. Carters-náttföt eru nefnd til sögunnar yfir hagstæð kaup sem og útivistarfatnaður á börn.


Hafðu með þér tilboðsbæklinga

Verðvitund Íslendinga er ekki alltaf upp á sitt besta enda breytist verðlag á Íslandi hratt. Einn lífsstílsbloggari ráðleggur fólki að safna saman tilboðsbæklingum frá verslunum áður en farið er í Costco. Þannig væri til dæmis hægt að bera saman einingaverð í Bónus eða Krónunni og verð í Costco. Það er ekki lögmál að ódýrara sé að kaupa meira magn í einu, en það er þekkt trix á meðal verslunareigenda að telja fólki trú um að svo sé.


Ekki kaupa þessar vörur

Nokkrar vörur segja lífsstílsfrömuðir að fólk ætti ekki að kaupa í Costco, en í þeim dæmum er viðmiðið auðvitað verðlag í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þannig þykir í Bandaríkjunum ekki hagstæðast að kaupa gos í Costco en safar þykja einnig dýrir miðað við það sem gerist annars staðar. Þá þykir ferskvara, eins og ávextir og grænmeti, ekki sérstaklega ódýr í Costco, miðað við það sem gerist í öðrum bandarískum verslunum. Hvort það sé vísbending um hvað koma skal í Costco í Kauptúni skal ósagt látið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Hartman í Val
EyjanNeytendur
24.04.2020

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19
EyjanNeytendur
12.04.2020

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“
Neytendur
09.02.2020

Hvað er málið með örorkubætur?

Hvað er málið með örorkubætur?
Neytendur
02.02.2020

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár
EyjanNeytendur
23.07.2019

Kjúklingaáleggið frá Kjarnafæði sagt innihalda 80% grísakjöt – „Skandall drepinn í fæðingu“

Kjúklingaáleggið frá Kjarnafæði sagt innihalda 80% grísakjöt – „Skandall drepinn í fæðingu“
EyjanNeytendur
01.07.2019

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“
EyjanNeytendur
06.05.2019

Bíleigendur greiða nær alla útblástursskatta á Íslandi en eru einn minnsti mengunarvaldurinn

Bíleigendur greiða nær alla útblástursskatta á Íslandi en eru einn minnsti mengunarvaldurinn
EyjanNeytendur
02.05.2019

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“