fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Neytendur

Dauðinn er dýr: Það kostar svona mikið að kveðja þennan heim

Kostnaðurinn allt að 1,5 milljónir – Gríðarleg fjölgun á útförum í kyrrþey

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 16. nóvember 2017 16:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að missa ástvin er áfall í sjálfu sér en ofan á það leggst fjárhagslegt púsluspil. Ef um eldri manneskju með nægar eignir í dánarbúi og um útlistaðar dánaróskir er að ræða er auðveldara um vik en það er ekki alltaf raunin. Oft getur þessi kostnaður komið aðstandendum í opna skjöldu. Útförum í kyrrþey hefur fjölgað mjög undanfarin ár en kostnaður við þær er yfirleitt um 300 þúsund krónur. Ef um hefðbundna útför er að ræða er heildarkostnaður yfirleitt á bilinu 700 til 1.500 þúsund. Þá eru erfidrykkjur orðnar mun hóflegri en áður. Íslenskir ríkisborgarar þurfa ekki að greiða fyrir legstæði sín en erlendir ríkisborgarar þurfa að borga um 66 þúsund krónur fyrir stæðið.

Mikil fjölgun á útförum í kyrrþey

Útförum í kyrrþey hefur fjölgað mjög á undanförnum árum að sögn Elínar Sigrúnar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Útfararstofu kirkjugarðanna. „Árið 2010 voru 43 útfarir í kyrrþey á öllu landinu, eða um 2 prósent. En árið 2016 voru þær orðnar 210 og það sem af er árs 2017 eru þær orðnar 218 eða tæp 12 prósent. Þetta er sexföldun á aðeins sjö árum,“ segir Elín.

„Einnig heyrum við að margt fullorðið fólk hafi áhyggjur af erfidrykkjunni“

Hún segir þessa fjölgun ekki tilkomna vegna breytinga á þjóðfélagsgerðinni heldur vegna hugarfarsbreytinga og kostnaður skiptir þar mestu máli. „Eitt er hógværð hins látna. Margt fullorðið fólk óskar eftir því að hafa ekkert tilstand í kringum sína útför. En einnig heyrum við að margt fullorðið fólk hafi áhyggjur af erfidrykkjunni. Hérna bjóðum við upp á samtal um útförina og spyrjum fólk hvernig útförin eigi að fara fram. Þar getum við rætt um hvort þessi ótti sé ástæðulaus. Kannski vilja börnin og barnabörnin leggja saman á borð því erfidrykkjan er fólkinu mikilvæg.“

Elín er nýkomin af málþingi um þessi mál og segir nauðsynlegt að ræða kostnaðinn. „Við getum spurt okkur hvort við viljum hafa þetta svona. Þegar komið er að undirbúningi útfarar segja ættingjar gjarnan að þeir sjálfir myndu frekar vilja að útförin væri opinber en nauðsynlegt sé að virða vilja hins látna.“

Kistan einn stærsti kostnaðarliðurinn

Elín segir að kostnaður við útförina sjálfa sé yfirleitt í kringum 500 þúsund krónur. Stærstur hluti kostnaðarins er kistan sjálf sem kostar á bilinu 115 til 325 þúsund hjá útfararstofum. Bálfararkistur eru íburðarminni og kosta 95 þúsund krónur og sumar útfararstofur bjóða upp á margnota kistur sem er smeygt innan í íburðarmeira hylki. Kostar hún vanalega um 70 þúsund og má bæði brenna og grafa. Margar útfararstofur rukka ekki fyrir líkkistur barna.
Næststærsti kostnaðarliðurinn er útfararþjónustan sjálf við kistulagningu og útför. Hún getur verið á bilinu 75 til 150 þúsund krónur. Prestþjónustan er greidd af ríkinu en sums staðar þarf að greiða fyrir kirkjuvörslu, á bilinu 5 til 15 þúsund krónur. Elín segir algengasta fjölda gesta í kringum 150 manns og sálmaskrár fyrir þann fjölda kosta um 59 þúsund.

„Erfidrykkjan er fólkinu mikilvæg.“
Elín Sigrún Jónsdóttir „Erfidrykkjan er fólkinu mikilvæg.“

Tónlistaratriðin eru nokkuð kostnaðarsöm og velur fólk yfirleitt kór eða einsöngvara. Elín segir: „Sex manna kór er langalgengastur og þá syngur oft einn úr kórnum einsöng.“ Miðað við taxta Félags íslenskra hljómlistarmanna kostar sex manna kór 109.500 krónur en tíu manna 158.500. Ef einsöngvari er valinn í stað kórs kostar hann yfirleitt um 50 þúsund krónur. Algengt er að fá organista til að spila bæði við kistulagningu og útför og samanlagt gerir það um 50 þúsund krónur. Við tónlistaratriðin bætist 5 prósent stefgjald og 10 prósent umsjónargjald. Tónlistaratriðin kosta því yfirleitt á bilinu 115 til 187 þúsund krónur.

Við þetta bætast líkklæði, sæng og ýmsar skreytingar. Ef hinn látni er ekki í eigin klæðum og sæng kostar það á bilinu 10 til 15 þúsund krónur. Verð á skreytingum er mjög mismunandi. Hjá Útfararstofu kirkjugarðanna kosta altarisblóm 9 þúsund, kransar 25 til 38 þúsund og kistuskreyting 20 til 32 þúsund.

Erfidrykkja

Erfidrykkjur hafa breyst mjög mikið á undanförnum árum og eru orðnar íburðarminni. Elín segir: „Það er orðið mjög vinsælt að fólk leggi saman á borð pönnukökur, kleinur, flatkökur og svoleiðis.“ Þá kosta veitingarnar lítið og eftir fámennari jarðarfarir eru erfidrykkjur stundum haldnar á heimilum. Algengara er þó að leigður sé salur, annaðhvort hjá safnaðarheimili eða félagasamtökum. Sem dæmi má nefna að salur safnaðarheimilis Háteigskirkju kostar 62 þúsund krónur án starfsfólks. Tímakaup starfsfólks er yfirleitt á bilinu 2.500 til 3.000 krónur.

Elín segir að ef veitingarnar séu keyptar af veitingastað sé verðið á bilinu 1.750 til 2.490 krónur á hvern gest. Ef erfidrykkjan er haldin á veitingastaðnum sé ekki rukkað sérstaklega fyrir afnot af staðnum.

Tilkynningar

Algengt er að fólk tilkynni andlát og auglýsi útfarir bæði í dagblöðum og í útvarpi. Misjafnt er hversu umfangsmiklar slíkar auglýsingar eru og hversu oft þær eru lesnar upp en oft er um þrjár birtingar að ræða, andlátstilkynningu, tilkynningu um útför og loks þakkir.

Hjá Morgunblaðinu kostar dánartilkynning í ramma 19.390 krónur og minningargreinar eru ókeypis. Hjá Fréttablaðinu kostar dánartilkynning í ramma 18.912 krónur og tveggja dálka minning kostar 953 krónur. Hjá Ríkisútvarpinu kostar hvert upplesið orð 277 krónur. Dæmigerð dánartilkynning er 22 orð og 4.994 krónur en útfarartilkynning 34 orð og 9.418 krónur. Áætla má að auglýsingakostnaður vegna dauðsfalls sé því í kringum 135 til 140 þúsund krónur.

Leiði

Íslenskir ríkisborgarar greiða ekkert fyrir legstæði og jarðsetningu í íslenskum kirkjugörðum. Við erum búin að greiða það í gegnum skattana okkar. Ef um erlendan einstakling er að ræða kostar legstæðið 66.400 krónur og 39.200 krónur fyrir duftkersleiði.

Kirkjugarðarnir sjá um alla almenna umhirðu (slátt, tyrfingu, moldarvinnu og fleira) án kostnaðar fyrir leiðishafa. Ef eitthvað sérstakt kemur upp á er tekið gjald fyrir það, til dæmis fjarlæging runna 4.000 og fjarlægingu trés 5 til 15 þúsund. Vegna niðurskurðar hefur þjónusta garðanna dregist saman en enn er hægt að fá sumarblómaþjónustu og kostar hún á bilinu 7.411 til 9.761 hjá Kirkjugörðum Reykjavíkur. Verktakar sinna öðrum verkum, til dæmis jólaljósaþjónustu.

Algengast er að kross sé settur á leiði í kringum útförina. Verð á krossum er á bilinu 11 til 17 þúsund og áletrað skilti kostar um 7 til 10 þúsund krónur.

Legsteinar eru oftast lagðir nokkru eftir andlát, til dæmis sameiginlegan stein þegar bæði hjón eru látin. Þeir geta verið kostnaðarsamasti einstaki hluti andlátsins og er verðið yfirleitt á bilinu 120 til 145 þúsund krónur fyrir minni steina á duftkersleiði og frá 180 til 700 þúsund fyrir stærri. Algengt verð legsteins fyrir eina manneskju er um 250 þúsund krónur og fyrir tvær eða fleiri 350 þúsund.

„Auðvitað koma upp aðstæður þar sem enginn peningur er til“

Oft eru áletranir og uppsetningar innifaldar í verði steinanna. En ef þær eru það ekki er annaðhvort rukkað fyrir hvert orð eða sem eina heild. Slíkur kostnaður er þá að minnsta kosti 20 þúsund krónur og enn meiri ef steinarnir eru skreyttir með myndum eða skrauti. Séu valdar luktir eða vasar á legsteininn kostar það yfirleitt á bilinu 30 til 50 þúsund krónur.

Hægt að sækja um styrk

Af öllu þessu er augljóst að það er ákaflega dýrt að kveðja þennan heim. Jarðarfarir í kyrrþey eru ódýrastar og hægt er að komast af með í kringum 300 þúsund krónur. Ef hin hefðbundna leið með opinni útför, erfidrykkju, tilkynningum og jafnvel legsteini er valin er kostnaður á bilinu 750 til 1.200 þúsund. Elín segir að oftast nær séu til fjármunir í dánarbúum fyrir andlátskostnaðinum. „En auðvitað koma upp aðstæður þar sem enginn peningur er til. Þá getur fólk leitað til sveitarfélaga eða stéttarfélaga eftir styrkjum. Þessir styrkir eru hins vegar mjög breytilegir eftir sveitarfélögum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

EyjanNeytendur
24.04.2020

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19

Matvöruverð hefur hækkað umtalsvert frá upphafi Covid-19
EyjanNeytendur
12.04.2020

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“

Síminn stoppar ekki hjá Neytendasamtökunum – „Hefur orðið alger sprenging“
Neytendur
09.02.2020

Hvað er málið með örorkubætur?

Hvað er málið með örorkubætur?
Neytendur
02.02.2020

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár

8 hagnýt ráð til að hafa í huga við gerð ferilskrár
EyjanNeytendur
23.07.2019

Kjúklingaáleggið frá Kjarnafæði sagt innihalda 80% grísakjöt – „Skandall drepinn í fæðingu“

Kjúklingaáleggið frá Kjarnafæði sagt innihalda 80% grísakjöt – „Skandall drepinn í fæðingu“
EyjanNeytendur
01.07.2019

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“

Blöskrar verðið á vinsælu íslensku nammi í Iceland verslun: „Er búið að leggja sykurskattinn á ?“
EyjanNeytendur
06.05.2019

Bíleigendur greiða nær alla útblástursskatta á Íslandi en eru einn minnsti mengunarvaldurinn

Bíleigendur greiða nær alla útblástursskatta á Íslandi en eru einn minnsti mengunarvaldurinn
EyjanNeytendur
02.05.2019

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“

Einar skýtur föstum skotum að Sorpu – „Hvetjum til ábyrgari afstöðu með umhverfinu“