Neytendur

Benedikt: Ekki dregið úr styrkjum til bænda

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 10. janúar 2017 15:03

Ný ríkisstjórn ætlar ekki að draga úr styrkjum til bænda. Þetta kom fram í kynningu á stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar, sem fram fer í Gerðarsafni í þessum töluðu orðum. Formennirnir þrír, Óttar Proppé, Bjarni Benediktsson og Benedikt Jóhannesson voru spurðir hvort til stæði að taka búvörusamninga upp.

Benedikt svaraði því til að ekki stæði til að draga úr styrkjum til bænda en það yrði stigin skref í þá átt að landbúnaðurinn yrði samkeppnishæfur. Þar yrði horft til hagsmuna neytenda „þannig að þeir hafi sem best úrval af landbúnaðarvörum á sem hagstæðasta verði.“ Ekki kom fram hvernig það yrði gert.

Í stjórnarsáttmálunum segir um landbúnað:

Áfram skal lögð áhersla á framleiðslu heilnæmra, innlendra afurða í umhverfisvænum og samkeppnishæfum landbúnaði. Velferð dýra verði í hávegum höfð. Skilvirkt eftirlit með dýrum og matvælaframleiðslu verði tryggt, sem og gætt að neytendavernd.

Breytingar á búvörusamningi og búvörulögum skulu miða að því að leggja áherslu á aukna framleiðni, hagsmuni og valfrelsi neytenda og bænda og fjölbreytt vöruúrval. Jafnframt verði horft til samkeppnisstöðu landbúnaðar á Íslandi vegna legu landsins, veðurfars og takmarkaðra landgæða.

Hreinn landbúnaður, þegar litið er til afurða og umhverfis, og minni kolefnislosun verður ásamt framangreindum þáttum leiðarljósið í landbúnaðarstefnu stjórnvalda. Leggja ber áherslu á að draga ekki úr hagkvæmni og styðja áfram við jafna stöðu bænda eins og kostur er.

Endurskoðun búvörusamnings verður grunnur að nýju samkomulagi við bændur sem miðað er við að ljúki eigi síðar en árið 2019. Verður af hálfu stjórnvalda hvatt til að vægi almennari stuðnings verði aukið, svo sem til jarðræktar, fjárfestingar, nýsköpunar, umhverfisverndar og nýliðunar, en dregið úr sértækum búgreinastyrkjum. Endurskoða þarf ráðstöfun innflutningskvóta og greina forsendur fyrir frávikum frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn og gera viðeigandi breytingar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af