Esther sparaði 72 þúsund á því að kaupa bílstól frá Bretlandi

Keypti þvottavél fyrir mismuninn

Esther Ösp Gunnarsdóttir
Samsett mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir

„Maður er alveg til í að borga svolítið aukalega til að versla á Íslandi en það er alls ekki eðlilegt að verðmunurinn sé svona mikill.“ Þetta segir Esther Ösp Gunnarsdóttir sem keypti bílstól fyrir dóttur sína frá Bretlandi og fékk hann sendan upp að dyrum fyrir 33.916 krónur.

Sami stóll kostar í Ólavíu og Óliver 95.900 krónur. Esther sem er búsett á Reyðarfirði hefði að auki þurft að borga 8141 krónur í sendingakostnað. Það gera 104.041 krónur fyrir nákvæmlega sama bílstól.

„Þar sem ég bý úti á landi þá þarf ég yfirleitt að fá vörurnar sendar til mín. Þegar ég hafði samband við Ólavíu og Óliver og spurði hvort ég fengi sendingakostnaðinn felldan niður, ef ég keypti stólinn, var mér tilkynnt að það væri ekki hægt. Fjölmargar verslanir á borð við Lindex senda frítt út á land þegar verslað er fyrir ákveðna upphæð og hún er yfirleitt ekki há.“

Esther greindi fyrst frá reynslunni sinni af því að versla á netinu á Facebook. En fyrir mismuninn keypti hún þvottavél.

Í færslunni segir:

„Nú fyrir jólin þurftum við að kaupa nýjan barnabílstól handa Iðunni. Við vildum fá góðan stól sem væri hægt að nota lengi og völdum Graco Milestone. Nokkrum dögum áður en við pöntuðum stólinn gafst þvottavélin okkar upp, skömmu eftir tíu ára starfsafmæli sitt. Tveir millistéttarlúðar fá skiljanlega léttan verk fyrir brjóstið þegar endurnýja þarf tvo dýra hluti samtímis og við tók verðsamanburður hér og þar. Augljósi kosturinn var því miður að svíkja landa sína og kaupa stól frá Englandi. Ég geri auðvitað ráð fyrir því að hlutur í verslun á Íslandi sé (af nokkrum ástæðum) aðeins dýrari en í netverslun í Englandi - og hann má alveg vera það - en hér er „aðeins” lykilorðið.“

Graco Milestone hjá Amazon í Englandi: £115 (16.498 kr.)
Sending (innanlands í Englandi): ókeypis
Sending (England-Reyðarfjörður): £63 (8.979 kr.)
Tollar og gjöld á Íslandi: 6.439 kr.
Samtals: 31.916 kr.

Stóllinn kostar í dag 145 £ á Amazon sem eru um það bil 20.260 krónur ISK

Graco Milestone hjá Ólavíu og Óliver: 95.900 kr.
Sending (Reykjavík-Reyðarfjörður): 8.141 kr.
Samtals: 104.041 kr.

„Við gátum sem sagt keypt nýja þvottavél fyrir mismuninn. Kannski ekki mjög sexí leið til að nota þá peninga sem við „græddum” þarna en heimilisbókhaldið lítur talsvert betur út,“ segir Esther Ösp.

Harmar að hafa ekki gúgglað

Fyrr í mánuðinum greindi viðskiptavinur Ólavíu og Óliver frá því að hann harmaði mjög að hafa ekki aflað sér verðupplýsinga áður en hann keypti stól í versluninni.

„Ef ég hefði hins vegar haft rænu á að gúggla svolítið heima hefði mér aldrei dottið í hug að fara í búðina. Ætli ég hefði þá ekki keypt þetta og fengið það sent með DHL,“ sagði Steinþór Steingrímsson í samtali við DV.

Lítill markaður

Fulltrúi Ólavíu og Oliver sendi DV svar við fyrirspurn þess efnis af hverju verðmunurinn á álagningin væri svo mikil. Hér á eftir má sjá hluta af þeim svörum en fréttina í heild sinni má sjá hér.

Gengissveiflur

Verðið á umræddum bílstól í Bretlandi er 4.940 kr en það verð er mun lægra en innkaupsverð til okkar frá framleiðanda. Þennan verðmun má rekja til þess að Ísland er lítið land með aðeins 330 þúsund íbúum og því kaupum við lítið magn af hverri vöru í einu og fáum þar af leiðandi ekki ekki eins hagstætt innkaupsverð og stórar verslunarkeðjur í Bretlandi þar sem fólksfjöldinn er 64 milljónir.

Flutningur

Dýrt er að flytja vörur til Íslands vegna landfræðilegrar legu. Mun ódýrara er að flytja vörur á milli meginlanda Evrópu. Bílstólar eru ekki hagkvæmir í flutningi þar sem þeir eru rúmfrekir og flutningskostnaður deilist þar af leiðandi á færri einingar.

Virðisaukaskattur

Á Íslandi er 24% virðisaukaskattur á barnavörum en á Bretlandi er 5% virðisaukaskattur af barnavörum og því er verðmunur enn meiri en af öðrum innfluttum vörum.

Gengissveiflur

Umræddur bílstóll var keyptur á gengi sem var mun hærra en það er í dag. Gengisbreytingar hafa veruleg áhrif þegar samanburður sem þessi er gerður og þar sem vörur sem þessar seljast almennt ekki strax, þá geta gengisbreytingar haft veruleg áhrif á verðið. Eftir situr að við greiddum mun hærra verð fyrir vöruna þegar við keyptum hana inn heldur en gengi dagsins gefur til kynna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.