ESA hjólar í stjórnvöld vegna innflutnings á fersku kjöti

Ísland verður að stöðva viðskiptahindranir með ferskt kjöt, egg og mjólk

Ferskar kjötvörur máttu ekki selja ferskar kjötvörur, frá útlöndum.
Ferskt nautakjöt Ferskar kjötvörur máttu ekki selja ferskar kjötvörur, frá útlöndum.
Mynd: 123rf.com

„Sennilega þætti ýmsum súrt í broti ef önnur EES-ríki beittu viðlíka viðskiptahindrunum gagnvart innflutningi íslenskrar matvöru sem sætir heilbrigðiseftirliti á Íslandi,“ segir Helga Jónsdóttir, stjórnarmaður hjá ESA - eftirlitsstofnun EFTA - í tilkynningu frá stofnuninni.

ESA hefur ákveðið að vísa tveimur málum til EFTA-dómstólsins. Annars vegar vegna innflutningstakmarkana stjórnvalda á ferskum kjötvörum og hins vegar vörum úr eggjum og mjólk frá öðrum EES-ríkjum til Íslands. Það er mat ESA að þessar takmarkanir séu „ónauðsynlegar og ástæðulausar viðskiptahindranir“ sem gangi þvert á markmið EES-reglanna.

Skemmst er að minnast dóms sem féll í máli Ferskar kjötvörur ehf. gegn íslenska ríkinu. Ferskar kjötvörur vildi flytja inn ferskar nautalundir en var gert að fyrsta kjötið í 30 daga. Á það féllst fyrirtækið ekki og á endanum var kjötinu fargað. EFTA-dómstóllinn komst í því máli að þeirri niðurstöðu að kröfur íslenska ríkisins stangast á við EES-samninginn. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að sömu niðurstöðu í nóvember síðastliðnum.

Ferskt kjöt skal fryst í 30 daga

ESA bendir á að markmið reglna um flutning matvöru á EES-svæðinu sé að stuðla að og „bæta heilbrigðiseftirlit í upprunalandi vöru til að tryggja öryggi manna og dýra en samtímis er eftirlit á viðtökustað minnkað til að auka skilvirkni og auðvelda viðskipti.“ Þetta gildi líka um íslenskar útflutningsvörur sem fluttar eru til EES-ríkja. Helga segir að reglurnar byggi á gagnkvæmu trausti milli EES-ríkja.

Fram kemur í yfirlýsingunni að á Íslandi sé í gildi löggjöf sem kveði á um að sækja þurfi um leyfi fyrir innflutningi á kjötvörum, vörum úr hráum eggjum og ógerilsneyddri mjólk. Innflytjendum beri að framvísa gögnum sem meðal annars sýna fram á að kjöt hafi þurft að vera geymt í frysti í 30 daga áður en það er selt. Þessu fylgi umfangsmikið eftirlit og krafa um framlagningu gagna til handa Matvælastofnun. Þetta sé þvert á markmið EES-reglanna.

„Vísun máls til EFTA-dómstólsins er lokaskrefið í formlegu samningsbrotamáli ESA á hendur EFTA-ríki. Áður hafa íslensk stjórnvöld verið upplýst um afstöðu stofnunarinnar og veittur kostur á að koma röksemdum sínum á framfæri sem og að ljúka málinu með því að innleiða viðeigandi löggjöf innan gildandi tímamarka.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.