Mugison ætlar að semja tónlist í vegabréfsskúr

Lagði fram beiðni til Ísafjarðarbæjar

Vestfirski tónlistarmaðurinn Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem Mugison, hefur lagt fram beiðni um afnot af húsi í Ísafjarðarbæjar. Greint er frá þessum á vef ísfirska miðilsins Bæjarins besta en þar kemur fram að umrætt hús sé á hjólum og standi á bryggjunni á Ísafirði og hefur verið notað vegna vegabréfsskoðunar erlendra ferðamanna.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, lagði fram minnisblað um beiðni Mugisons en í því segir að hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar, Guðmundur Magnús Kristjánsson, sjái engan meinbug á lánveitingu hússins fram að sumri, því höfnin þurfi ekki að nota það fyrr en skemmtiferðaskipin koma næst til hafnar á Ísafirði, eða sumarið 2015.

Samkvæmt Bæjarins besta hefur Mugison hugsað sér að koma sér upp vinnuaðstöðu í skúrnum og semja þar tónlist. Í minnisblaðinu kemur fram að hafnarstjórinn Guðmundur telur sig ekki geta gefið leyfi sjálfur því Mugison er sonur hans.

Því var óskað eftir aðstöðu bæjarráðs til þess að Mugison verði lánaða húsið fram í maí 2014. Samkvæmt Bæjarins besta tók bæjarráð Ísafjarðarbæjar jákvætt í erindið og fól bæjarstjóra að vinna áfram með málið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.