Bestu tónleikar ársins

Mikið tónleikaár er að baki. Þetta stóð upp úr að mati Vals Gunnarssonar.

Mynd: Davíð Þór Guðlaugsson

Eftir nokkur dræm ár sem líklegast skrifast á krónuhrun er Reykjavík aftur orðin að borg þar sem sjá má sumar af helstu rokkstjörnum heims troða upp.

Árið í ár var með því besta sem hér hefur sést í þessum efnum, líklega allt frá 2004 þegar sjá mátti Lou Reed, Metallica (þó ekki saman) og jú, Pixies stíga á svið. Engir einir tónleikar voru þó jafn góðir og Nick Cave í Keflavík í fyrra, sem klárlega voru tónleikar ársins þá, ef ekki aldarinnar. Það skal strax tekið fram að undirritaður fór ekki á tónleika Justins Timberlake í Kópavogi (eða Reykjavík, samkvæmt honum sjálfum) og stendur hann fyllilega við þá ákvörðun.

Mynd: Reuters

5. Neil Young og Crazy Horse í Laugardalshöllinni
Margir biðu spenntir eftir Young, enda fyrsta heimsókn hans hingað þó að Cohen hafi komið einu sinni og Dylan tvisvar. Hann á sér einsmannsklapplið í Óla Palla á Rás 2, sem oft hefur séð hann og fannst þetta svona miðlungs Young. En miðlungs Young er betri en flest annað, og meðal hápunkta má nefna kassagítarkafla með Heart of Gold og Blowin‘ in the Wind eftir Dylan, og uppklappslagið Like a Hurricane þar sem orgel í dúfulíki sveif niður að sviðinu. Þó verður að segjast að mögulega hefði verið skemmtilegra að sjá hann sóló en með hrossinu.

Mynd: Julija Daugelaite

4. Pixies í Laugardalshöllinni
Tvennir tónleikar í Kaplakrika 2004 voru sumum vonbrigði, enda væntingar þá miklar eftir langt hlé hljómsveitarinnar. Frank Black er nú sköllóttari og feitari en nokkru sinni, Kim Deal víðsfjarri og nýja platan ekkert spes. En tónleikarnir í Höllinni í ár voru frábærir, kannski vegna þess að væntingarstuðullinn var lægri eða ef til vill eru þeir bara betra tónleikaband nú. Við fengum Here Comes Your Man, Monkey Gone to Heaven og Where is My Mind, og í raun var yfir engu að kvarta nema að þeir hefðu gjarnan mátt vera lengur en einn og hálfan tíma.


3. Massive Attack í Laugardalnum
Secret Solstice var frábær viðbót við sumarið, hafði alla kosti útihátíðar en með betri tónlist og maður komst heim að sofa á milli. Woodkid og Banks voru fín, ásamt fjölda íslenskra sveita, en hápunkturinn var þó klárlega Massive Attack sem sameina pólitík og danstónlist betur en flestir. Í Risingson og Inertia Creeps voru sýnd textabrot úr íslensku slúðurpressunni eða uppgjöri íslenskra stórfyrirtækja. Ekki frá því Patti Smith flutti fyrst allra lag gegn Kárahnjúkavirkjun á NASA árið 2005 hafa erlendir listamenn verið jafn mikið með puttann á þjóðarpúlsinum.


2. Flaming Lips á Valsheimilinu
Líklega er enginn svo harðbrjósta að hann falli ekki fyrir Lips á sviði, með uppblásna slagorðið „Fuck Yeah Iceland“ sem gekk fram og aftur um salinn meðan enn var loft í. Þrátt fyrir slagara á borð við She Don‘t Use Jelly verður þeirra helst minnst fyrir eitthvað mesta sjó sem sést hefur hérlendis; ljós, blöðrur, geimverur og Wayne gangandi yfir mannfjöldann í plastkúlu. Aðeins vantaði jólasveininn, og áður en yfir lauk var hann mættur líka. Endirinn var þekkt Bítlalag sem á að fjalla um ofskynjunarlyfið LSD, en efna er ekki þörf þar sem Flaming Lips á í hlut.

Mynd: Reuters

1. Slash ásamt Myles Kennedy and the Conspirators í Laugardalshöllinni
Eftirvæntingin var kannski ekki ýkja mikil eftir að sjá Slash eiturlyfja og Axl-lausan og næstum því fimmtugan spila hér í bæ. Því meira kom það óvart að þetta skyldu vera bestu tónleikar ársins. Engar helvítis ballöður og helmingurinn af Appetite spilaður, pípuhattur og 21nnar mínútu gítarsóló, strimlafallbyssur í Paradise City og allt eins og það á að vera. Myles Kennedy hljómaði mun betur en á plötunni, þótt bassaleikarinn Todd Kearns hafi veitt honum harða samkeppni í söngnum. Slash tileinkaði salnum Íslandslag Zeppelin, Immigrant Song, sem benti sterklega til þess að hann gerði sér grein fyrir í hvaða landi hann væri staddur. Þetta var þó síðar dregið í efa þegar hann ruglaði trommara Dimmu saman við Suður-Kóreumanninn Psy, en við bjóðum Slash hjartanlega velkominn ef hann finnur leið sína hingað aftur (þetta var víst þriðja tilraun hans.)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.