ALTEREGÓ TÓNLISTARMANNS

Lára Rúnarsdóttir:

Egó, skilgreint sem sjálf, einstaklingseðli og sjálfsálit, er nokkuð sem manneskjan er að vinna með og glíma við daglega. Það leikur gríðarlega stórt hlutverk í lífi hvers og eins, getur jafnvel orðið svo öflugt að það komi niður á auðmýkt, samkennd og þeim eiginleika að tengjast fólki. Egóið mitt hefur til að mynda blekkt mig ótal sinnum í gegnum tíðina, viðhaldið fölsku stolti, skapað óöryggi og ótta við að vera það sem ég í raun er og ekkert annað.

Alteregó, skilgreint sem hin hliðin af manni, önnur hlið á eðli mannsins eða einkavinur, sannur eða ósannur. Skilgreiningin gerir ráð fyrir því að við eigum tvær hliðar, þessa og hina, hægri og vinstri, innsæi og alteregó. Ég hef meðvitað tengst alteregóinu mínu í gegnum tíðina og komið mér fyrir í hinum ýmsu dulargervum. Á sínum tíma sá ég sjálfa mig ýmist sem poppdrottningu, krúttsprengju, rokk-ikon eða meistara og greindi meðvitað Láru Rúnarsdóttur og Láru Rúnars í sundur. Sú fyrri bjó yfir óendanlegum möguleikum, hin var að einhverju leyti bæði hugarburður og hugarfóstur alteregósins.

Ég bjó til alteregóið mitt úr einhverjum kjarna sem ég hélt að einkenndi persónu mína, einhver einkenni sem ég hef heyrt aðra tala um að ég hafi. Alteregóið kom iðulega með mér upp á svið, stundum hrifsaði það af mér míkrófóninn, hristi mig til og frá og myndaði orð af vörum mínum. Alteregóið mitt, sama í hvaða dulbúning ég klæddi það, var svo samofið egóinu mínu að mér leið stundum eins og ég væri í stöðugri leit að viðurkenningu. Skilaboðin voru ýmist að ég væri ekki nægilega töff eða miklu meira töff en aðrir. Ég tók ekki almennilega eftir þessu fyrr en ég fór ásamt fríðum hópi tónlistarmanna í tónleikaferð í kringum landið á bát. Þar var ekkert pláss fyrir egó né alteregó.

Meðvitað hef ég nú sagt skilið við alteregóið mitt og sameinað Láru Rúnarsdóttur og Láru Rúnars í eina. Ég þarf ekki að gera mér upp einhvers konar hliðarímynd, eðli mitt krefst þess ekki af mér. Tilbúningur er ekki einkavinur, alteregóið ekki heldur. Það gagnast mér ekki neitt. Næst þegar ég spila fyrir ykkur þá verð ég bara ég, ekki alteregóið af sjálfri mér. Sjáumst þar!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.