Lafhræddur við jólaköttinn

Frábærir jólatónleikar Sigríðar Thorlacius og Sigurðar Guðmunds í Hörpu

Mynd: Baldur Kristjánsson

Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson fylltu Eldborgarsal Hörpu tvívegis á miðvikudaginn var, á frábærum jólatónleikum. Sigríður sem jafnan er kennd við Hjaltalín og Sigurður sem kenndur er við Hjálma stimpluðu sig vonandi saman inn í jólatónleikaflóruna til frambúðar en jólahátíðin hefur fest sig í sessi sem ein helsta vertíð tónlistarmanna ár hvert. Af nægu er að taka og hef ég farið á þó nokkra slíka. Þar á meðal Bó og Frostfrósir en tónleikarnir á miðvikudag voru engu síðri, höfðuðu jafnvel betur til mín.

Jazzaðar útsetningar í bland við temmilega big band stemningu hittu beint í mark. Bæði hafa Sigríður og Sigurður gefið út jólaplötur undanfarin ár. Persónulega hef ég hlustað meira á jólalög Sigurðar Guðmundssonar og Memfismafíunnar sem er einhver albesta jólatónlist sem gefin hefur verið út á íslensku. Það var því ekki að ástæðulausu sem gamla gæsahúðin lyfti mér úr sætinu þegar Sigurður þandi gullbarkann í laginu Nýársmorgun. Lagið kom út á hinni frábæru plötu Nú stendur mikið til árið 2009 en hana vann Sigurður meðal annars með Braga Valdimari Skúlasyni sem samdi alla textana á plötunni nema einn.

Tónleikarnir voru skemmtileg blanda af efni Sigurðar og Sigríðar og var samspil þeirra á mili laga lágstemmt og fyndið. Sigríður er ótrúleg söngkona. Maður fær það á tilfinninguna að hver einasti tónn sem hún sendir frá sér fái sérstaka meðhöndlun. Að hún nostri við hann og sendi hann svo varlega frá sér. Lögin sem Sigríður flutti voru flest af plötunni hennar Jólakveðja sem kom út árið 2013. Á henni eru frumsamin lög eftir Guðmund Óskar Guðmundsson og Bjarna Frímann Bjarnason en báðir léku þeir á tónleikunum. Ekki má gleyma að nefna frammistöðu þeirra sem og alla annarra í hljómsveitinni sem var einnig frábær.

Saman tóku Sigríður og Sigurður nokkur lög og hefðu þau mátt vera fleiri. Raddir þeirra vinna vel saman. Meðal annars í laginu Freistingar sem þau sendu frá sér saman í haust.

Hápunktur tónleikanna ásamt laginu Nýársmorgun var einstaklega mögnuð útsetning á laginu Jólakötturinn, lagi Ingibjargar Þorbergs við ljóð Jóhannesar úr Kötlum. Ég hef aldrei spáð neitt sérstaklega í jólakettinum en nú er ég hræddur, lafhræddur. Allir fá fína flík á mínu heimili.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.