Blíður andvari í nóttinni

Ragnheiður Gröndal - Svefnljóð

Bara rétt rúmur áratugur er þotinn hjá síðan Ragnheiður Gröndal sló fyrst í gegn með Ást Magnúsar Þórs Sigmundssonar, lagi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2003, þar sem Ragga var líka valin söngkona ársins. Síðan hefur vegur hennar sem söngkonu, lagahöfundar og tónlistarmanns bara legið upp á við. Svefnljóð er merkilegt nokk áttunda sólóplata Röggu Gröndal og tvímælalaust enn eitt stökk fram á við. Hér er allt orðið fullveðja. Hún hefur auðheyrilega nostrað við þessu plötu og sett í hana mikla sál og alúð. Vandvirkni og fágun einkennir lagasmíðarnar, útsetningarnar og alla áferð og í flutningnum er dýpt og íhygli, þar sem Ragga leikur sjálf á píanó og hljómborð og auðvitað ektamaðurinn Guðmundur Pétursson á gítar. Þarna eru líka Haukur Gröndal blásari og bróðir, slagverksmennirnir Claudio Spieler, Birgir Baldursson og Matthías Hemstock og meistari mjúku djúpanna, Pálmi Gunnarsson, leikur á bassa og syngur á einum stað. Útkoman er hrífandi og kyrrlát sveifla, blíður andvari í nóttinni. Textar eru eftir Röggu nema í flottu titillagi þar sem ljóðið er eftir Kristínu Jónsdóttur frá Hlíð og öðrum lögum þar sem ljóð Hallgríms Helgasonar og Sigurðar Pálssonar sóma sér vel. Titillagið er ávanabindandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.