Áhrifamestu tónleikar Íslandssögunnar (taka 2)

Hugh Cornwell á Gauknum

Allir sem fóru að sjá Stranglers í Höllinni árið 1978 stofnuðu í kjölfarið hljómsveit, eða svo segir þjóðsagan. Í kjölfarið varð að minnsta kosti hið íslenska pönk til og sándið sem með Björk átti eftir að sigra heiminn.

Því hljóta þessir tónleikar hafa verið þeir áhrifamestu sem erlend hljómsveit hefur haldið hérlendis, því hvorki Zeppelin né Kinks ollu álíka byltingu.

Stranglers komu tvisvar aftur hingað til lands á síðasta áratug, en þó án söngvarans Hugh Cornwell. Þetta eru því fyrstu tónleikar hans hér á landi síðan tímamótaárið 1978. „Sumir hérna í salnum voru ekki fæddir þá, segir hann af sviðinu.“ Nei, en við höfum heyrt um þá samt. Og þó er salurinn þétt setinn fyrstu og annarrar kynslóðarpönkara, allt frá Valla í Fræbbblunum til Dr. Gunna.

Cornwell var eldri en flestir aðrir pönkarar og búin að ljúka námi í lífefnafræði og rannsóknardvöl í Svíþjóð áður en hann hóf að pönka. Bakgrunnir hans er því talsvert öðruvísi en hjá tildæmis Sid Vicious, enda hefur hann orðið mun langlífari.

Það sem kemur kannski mest á óvart á tónleikunum er hvað nýju lögin standast vel samanburð við þau eldri. Sólóferillinn er kannski ekki jafn þekktur og Stranglers tímabilið, en lögin af nýju plötunni Totem and Taboo (sem er vísun í verk eftir Freud, svo kannski hefur okkar maður brugðið sér í annað rannsóknarleyfi), eru ekki mikið síðri.
Vissulega fengum við „No More Heroes“ (þar sem „heroes“ er rímað svo snilldarlega við „Shakespearoes“) og „Nice and Sleazy,“ en hvorki „Golden Brown“ né „Always the Sun.“

Þetta kom þó lítið að sök á kvöldi sem ekki var aðeins tileinkað 1980 nostalgíu, heldur sýndi listamann sem enn hefur ýmislegt fram að færa. Og það jafnvel þó púristar hafi saknað Jean-Jacques á bassann.

Og að lokum ber að nefna að hin nýja staðsetning sviðsins á Gauknum gerir staðinn nánast fullkominn fyrir tónleika af þessari stærðargráðu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.