Vetrarljóð

Uniimog Yfir hafið

Slái maður Uniimog inn í google fær maður upp United Nations Iran-Iraq Military Observer Group, stofnun sem sá um að framfylgja vopnahléi Íran og Írak eftir 1988. Allt frá Franz Ferdinand hefur það verið algengt að hljómsveitir sæki nöfn sín til stjórnmálasögunnar, svo sem British Sea Power eða Spring Offensive, án þess endilega að það rati inn í texta.
Uniimog þessi virðist við fyrst sýn vera súpergrúppa með Ásgeir Trausta innanborðs og Samma í Jagúar til aðstoðar, en Þorsteinn Einarsson sér að mestu um lagasmíðar. Og það er gaman að heyra plötu þar sem nokkuð er lagt í íslenska texta, þó að andinn sé meira í ætt við Tómas Guðmundsson en Rauða penna. Fjalla þeir flestir um náttúruna og ástina og er höfundur hrifinn af hvoru tveggja, þó einsemdin sé aldrei langt undan. Íslensk textagerð þessa dagana virðist fremur fjalla um rómantíkina (í víðum skilningi) en þjóðmálin. Vetur konungur leikur stórt hlutverk á plötunni, eins og menn hafi vitað þegar þeir tóku hana upp að snjóþungi væri í nánd, eða ætli þetta sé metafór fyrir þjóðarsálina?
Platan byrjar vel og við tjörnina, ekki þó Reykjavíkur heldur mögulega forsögulega, en verður fastari í rúmi þegar gengið er yfir Herðubreið til að vitja ástarinnar. Hæst rís hún á hinu gullfallega titillagi og síðan er haldið inn í draumaland sem er frekar bókstaflegt en ort gegn virkjunum. Við göngum áfram inn í myrkrið og nóttina, en enn leynast rúsínur í pylsuenda.
Hegðun skýja um vetur er, eins og nafnið bendir til, eitt best orta kvæði plötunnar, með hendingum á borð við „falið hálendið undir hvítum dúk/Snær vill stríð og af hans vörum blæs um hríð.“ Endað er á þjóðlaginu Vetrarhríð, og á það einstaklega vel við.
Það mættu vera fleiri tindar og færri dalir á plötunni, en tindarnir eru fagrir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.