Partí eins og það sé 1991

Valur Gunnarsson setti upp pípuhattinn og skellti sér á Slash um liðina helgi.

Mynd: Reuters

Pípuhatturinn. ­Sólgleraugun. Hárið. Les Paul-gítarinn. Jú, það fer ekki á milli mála að Slash er stiginn á svið. Og samt hefjast tónleikarnir í raun ekki fyrr en á þriðja lagi, þegar fyrsta Gönsenn lagið er dregið upp úr hattinum. Við þurfum enn að bíða nokkur lög í viðbót, og síðan koma tvö í röð af Illusion-plötunum, Double Talkin‘ Jive og Terminator-lagið You Could Be Mine.

Nú er þetta að fara að gerast. Ef einhver stendur undir því stundum vafasama hrósi að hafa ekkert breyst, þá er það einmitt hann Slash okkar sem lítur undarlega vel út þrátt fyrir að vera fyrrverandi fíkill að nálgast fimmtugt. Og hann hoppar og hleypur um eins og í denn, þó að sviðin séu minni en í þá tíð. Appetite for Destruction er einhver albesta plata rokksögunnar og við fáum að heyra helming hennar. Rétt eins og á þeirri plötu eru engar ballöður hér, bara hreint rokk alla leið. Í stað þess að hafa pásu er hálftíma gítarsóló í miðju Rocket Queen, svo maður getur farið á klósettið, út að reykja og fengið sér bjór og sólóið er enn í gangi þegar maður kemur aftur.

Gönsenn-lögin eru vel valin, einmitt þau sem mæða minnst á Axl, og smám saman fer maður að fyrir­gefa Myles Kennedy fyrir að vera ekki Axl Rose. Þetta er hiklaust næst besta Guns n' Roses-koverlagaband í heimi, ef ekki það besta, og vinalegri stemning en þar sem Axl á í hlut. Meira að segja nýju lögin hljóma ágætlega á sviðinu, mun betur en á plötunni, þó að vissulega líði þau fyrir þennan beina samanburð við helstu perlur rokksins. Og síðan kemur augnablikið sem allir eru að bíða eftir, hið ódauðlega intró á Sweet Child sem heyrðist alls staðar í kringum 1990. Rokkið lifir og hefur lítið breyst.

Lag eftir Velvet Revolver, sem hættu við Íslandsför, fylgir. Við bíðum spennt eftir uppklappinu og þá kemur Slash loksins á óvart. Þeir hafa greinilega unnið heimavinnuna sína og flytja Immigrant Song, sem Zeppelin á jú að hafa samið hérlendis. „For You“, segir Slash og síðan vinda þeir sér í Paradise City, strimlar fljúga yfir salinn og ómögulegt er að fylgja þessu eftir, enda lokalagið til að enda þau öll. Varla hefur verið rokkað jafn feitt í Laugardalshöllinni síðan Zeppelin átti síðast leið hér um. Og lítið annað að segja nema að næst þegar einhver spyr hvort maður trúi enn á Slash, þá hljóti maður að svara hástöfum: „Já, ég trúi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.