Spotify í samhengi – og af hverju Taylor Swift er hræsnari

Steinþór Helgi Arnsteinsson skrifar:
Stórstjarnan og milljarðamæringurinn Taylor Swift ákvað um daginn að fjarlægja allar plötur sínar af Spotify. „Listamenn eiga að passa upp á að þeir fái sómasamlega greitt fyrir listsköpun sína,“ sagði Swift og bað fólk vinsamlegast um að drulla sér á iTunes.

Swift lét hins vegar vera að fjarlægja tónlist sína af YouTube, þar sem henni hefur verið streymt frítt mörg hundruð milljón sinnum. Ekki var minnst á að Swift gerði nýlega risasamning við Google vegna tónlistarveitunnar YouTube Music Key, sem er ætlað að fara í harkalega samkeppni við Spotify.

En hvaða svívirðilega lágu upphæð er Spotify að greiða til listamanna sem fær Swift til að öskra: „Nei, nú er mér nóg boðið!“?
Upphæðin hefur verið að hækka með hverjum mánuðinum, var 0,006 dollarar en ég reikna með að hún hafi verið rétt rúmlega 0,007 dollarar á þriðja ársfjórðungi 2014. Sú upphæð er auðvitað ekki baun í bala, rétt um 0,9 íslenskar krónur á spilun.

Mynd: Reuters

En setjum þetta í samhengi: Áður en Swift tók út tónlist sína var slagarinn hennar, Shake It Off, mest streymda lagið á Spotify í október með rúmlega 46 milljón spilanir. Það er mikið. Og greiðslan? Hún hefur verið u.þ.b. 324 þúsund dollarar eða um 41 milljón íslenskra króna. Spilun á einu lagi í einn mánuð, 46.000.000 krónur! Þetta sætti Swift sig ekki við og fannst tónlist hennar verðmætari en þetta. Auðvitað verður samt að taka fram að Swift fær að sjálfsögðu ekki alla þessa upphæð í eigin vasa. En við erum að reyna að horfa á hlutina í stærra samhengi, og getum bent Swift á að hún þarf að selja Shake It Off rúmlega 250 þúsund sinnum á iTunes á einum mánuði til að skapa sömu innkomu, sem ég efast reyndar ekki um að hún geri.

Hvernig lítur Spotify samt út í íslensku samhengi?

Um daginn vakti athygli þegar greint var frá því að hljómsveitin AmabAdamA hafi fengið litlar 4.500 krónur greiddar fyrir 11 þúsund spilanir á Spotify sem rímar við ofangreindar tölur; rétt tæplega 0,9 krónur á spilun (í tilfelli AmabAdamA fær plötufyrirtæki sveitarinnar væntanlega 50% á móti sveitinni). En þá er það samhengið, 11 þúsund spilanir eru einfaldlega ekkert sérstaklega margar spilanir á Spotify.

Reyndar er lagið Hossa Hossa með AmabAdamA komið með um 40 þúsund spilanir eitt og sér og annað vinsælt íslenskt lag, París norðursins með Prins Póló, er með vel rúmlega 100 þúsund spilanir. Því miður eru samt íslenskir hlustendur einfaldlega alltof fáir til að skapa almennilegt tekjustreymi fyrir tónlistarmenn á Spotify.

En fjandinn hafi það, Taylor Swift hlýtur að eiga fyrir smá salti í grautinn með sínar Spotify-spilanir án þess að hún þurfi að leika eitthvert fórnarlamb.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.