Söngvari Stranglers með tónleika á Íslandi

Hugh Cornwell, söngvari The Stranglers, mun koma fram ásamt hljómsveit á Gamla gauknum annað kvöld, laugardagskvöld. Þar mun söngvarinn flytja helstu slagara sveitarinnar goðsagnakenndu ásamt því að flytja nýtt efni.

Sem kunnugt er eru The Stranglers langlífasta og farsælasta band bresku pönksenunnar. Á ferlinum hafa þeir átt fjölmarga þekkta slagara og ber þar helst að nefna Golden Brown, Peaches, No more Heroes og Always The Sun.

Cornwell er á meðal stofnmeðlima og helstu lagahöfunda sveitarinnar og spannar ferill hans því yfir þrjátíu ár.

Það eru þau Anna Brá Bjarnardóttir plötusnúður og Smutty Smiff, tónlistar- og útvarpsmaður, sem standa fyrir komu Cornwells hingað til lands. Saman hafa þau stofnað viðburðafyrirtækið Wildcat Productions og að sögn Önnu Brár mun fyrirtækið flytja inn fleiri stórnöfn á komandi ári. Fyrirtækið mun þá einnig taka upp og framleiða tónlist fyrir tónlistarmenn/konur.

„Smutty þekkir mikið af flytjendum persónulega og þarf ekki annað en taka upp símann og þa er hann farinn að tala við Steve Jones úr Sex Pistols eða Marc Almond úr Soft Cell,“ segir Anna Brá og kveðst spennt fyrir samstarfinu. „Það eru hrikalega spennandi tímar fram undan, það er ekki hægt að segja annað.“

Tónleikarnir eru sem áður sagði annað kvöld klukkan 22.00 og nálgast má miða á midi.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.