Harpa hættir við að rukka fyrir plötusölu

Harpa hefur hætt við að rukka tónlistarmenn sérstaklega fyrir að selja plötur sínar á tónleikum í húsinu. Gjaldið fyrir það verður framvegis innifalið í leigukostnaði.

Frá þessu var greint á Nútímanum í gær en áður hafði sami miðill flutt fréttir af viðbrögðum tónlistarmanna við greiðslunni sem voru vægast sagt hörð.

Síðustu daga hefur fjöldi tónlistarmanna einnig lýst yfir vanþóknun sinni á samskiptamiðlum og hafa einhverjir jafnvel boðað að þeir muni sniðganga tónleikahúsið.

Samkvæmt upplýsingum DV mun leyfi fyrir plötusölu nú vera innifalið í leigu á sal en er tekið fram hvort leigan komi til með að hækka með tímanum, sem nemur plötugjaldinu. Líklegt verður þó að teljast að einhver hækkun muni eiga sér stað.

Þá er breytingin aðeins gerð með fyrirvara um hugsanlega einkaleyfishafa á hljómplötusölu, en líkt og greint hefur verið frá hefur verslun 12 Tóna lagt starfsemi sinni og óvíst hverjir koma muni í hennar stað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.